25. mars 2025

Ríkisstjórnin grefur undan stöðugleika og samkeppnishæfni

Ríkisstjórnin grefur undan stöðugleika og samkeppnishæfni

1 MIN

Ríkisstjórnin grefur undan stöðugleika og samkeppnishæfni

Ályktun stjórnar Samtaka atvinnulífsins

Stjórn Samtaka atvinnulífsins geldur varhug við fyrirætlunum ríkisstjórnarinnar við lagasetningu gagnvart íslenskum sjávarútvegi. Raungerist áhyggjur samtakanna er ljóst að breytingar sem ríkisstjórnin hefur boðað muni draga úr hagvexti og lífskjarasókn Íslendinga.

Ekki verður framhjá því litið, að mikilvægur áfangi í átt að stöðugleika í efnahagsmálum náðist við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði á síðasta ári. Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði voru gerðir í því trausti að aukin verðmætasköpun stæði undir þeim kostnaðarauka sem þeir fælu í sér fyrir atvinnulífið. Því er mikilvægt að huga sérstaklega að rekstrarskilyrðum atvinnulífs og einstaka atvinnugreina ásamt samkeppnishæfni fyrirtækja sem starfa á almennum markaði við hið opinbera um starfsfólk. Það er sameiginlegt verkefni að tryggja hagfelld undirliggjandi skilyrði kjarasamninga.

Það voru mikil vonbrigði að þeirri launastefnu sem mörkuð var á almennum vinnumarkaði hafi ekki verið fylgt við gerð kjarasamninga við kennara. Sér í lagi eru það vonbrigði að ríkisstjórnin hafi lýst yfir eindregnum og opinberum stuðningi við samninga sem sveigðu af þeirri braut sem mörkuð var á hinum almenna markaði. Telja samtökin að með því hafi ríkisstjórnin grafið undan stöðugleika á vinnumarkaði og þar með hagkerfinu í heild sinni.

Samtök atvinnulífsins árétta að þau muni hér eftir, sem hingað til, standa sameinuð með hverjum þeim stjórnvöldum sem stuðla að aukinni verðmætasköpun á Íslandi en jafnframt í andstöðu við hver þau stjórnvöld sem veikja eða grafa undan verðmætasköpun hérlendis, efnahagslegur styrkur er enda forsenda öryggis þjóðarinnar.

Ríkisstjórnin hefur boðað breytingar á rekstrarskilyrðum sjávarútvegs. Íslenskur sjávarútvegur er ein af undirstöðuatvinnugreinum landsins en hún býr þegar við mikið ójafnræði þegar kemur að rekstrarumhverfi og samanburði við aðrar greinar. Atvinnugreinin býr við skattlagningu umfram aðrar greinar, takmörk á umsvifum og eignarhaldi sem þekkist ekki í öðrum greinum og óvissuálags vegna stöðunnar í stjórnmálunum sem veldur bæði skorti á fyrirsjáanleika og torveldar ákvarðanatöku. Samtök atvinnulífsins minna á að lög um stjórn fiskveiða voru sett til þess að hámarka verðmætasköpun og sjálfbærni þannig að þjóðin fengi sem mestan ábata úr auðlindinni.

Útlit er fyrir að boðaðar breytingar hafi verulega neikvæð áhrif á íslenskan sjávarútveg en einnig tengdar og afleiddar greinar. Á þingmálaskrá ríkisstjórinnar má finna frumvörp sem munu að óbreyttu draga úr verðmætasköpun í sjávarútvegi, með afleiddum áhrifum á aðrar greinar. Þau mál eru meðal annars breyting á lögum um veiðigjald þar sem kynntar hafa verið hugmyndir um verulega hækkað veiðigjald sem mun draga úr alþjóðlegri samkeppnishæfni greinarinnar og frumvarp um kílómetragjald þar sem kolefnisskattahækkunum á atvinnuvegi landsins er laumað inn í frumvarp sem á að hafa það markmið að breyta fyrirkomulagi á gjaldtöku fyrir notkun vegakerfisins.

Það veldur verulegum áhyggjum að kúvenda eigi rekstrarumhverfi sjávarútvegs á örfáum vikum, án þess að samráð, fagleg umræða og vandað áhrifamat geti legið til grundvallar breytingum á umgjörð hans á Íslandi.

Stjórn Samtaka atvinnulífsins kallar eftir því að breytingar á umgjörð og starfsumhverfi sjávarútvegs á Íslandi, líkt og allra annarra atvinnugreina, verði unnar í nánu samráði við atvinnulífið, að þær byggi á staðreyndum og faglegri umræðu, skilningi á gangverki og eðli atvinnugreina, og mati á áhrifum á innlendan efnahag og samkeppnishæfni Íslands.

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar undanfarnar vikur sem og boðaðar breytingar á rekstrarumhverfi sjávarútvegsins eru til þess fallnar að grafa undan hvort tveggja stöðugleika og samkeppnishæfni íslenska hagkerfisins. Telja samtökin það sérstaklega varhugavert í ljósi þeirrar óvissu sem ríkir á mörkuðum um allan heim, yfirvofandi tollastríðs og óróa í alþjóðastjórnmálum. Nú er tíminn til að Íslendingar snúi bökum saman, gæti sinna hagsmuna og verji lífskjör og verðmætasköpun. Samtökin lýsa sig reiðubúin til samtals líkt og ávallt, en forsenda slíks samtals er að raunverulegur vilji sé til þess að taka tillit til sjónarmiða atvinnulífsins og einstakra atvinnugreina.

Virðingarfyllst,

f.h. stjórnar Samtaka atvinnulífsins

Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA

Ríkisstjórnin grefur undan stöðugleika og samkeppnishæfni

Ályktun stjórnar Samtaka atvinnulífsins