1 MIN
Ósamið við um 40% opinbera markaðarins
Langtímakjarasamningar hafa verið undirritaðir fyrir 80-90% launafólks á vinnumarkaði í þessari samningalotu sem hófst í febrúar á þessu ári. Samningum er lokið fyrir allflest launafólk á almennum markaði. Á opinbera markaðnum er samningum lokið við flest félög innan Alþýðusambands Íslands og BSRB og hluta félagsmanna BHM. Ósamið er við ríflega helming launafólks innan BHM, öll aðildarfélög Kennarasambands Íslands sem og lækna og hjúkrunarfræðinga sem standa utan heildarsamtaka. Áætla má að í heildina sé ósamið við um 40% opinbera markaðarins eða um 24 þúsund manns.
Launaþróun það sem af er samningstímabilinu er því nokkuð ólík eftir mörkuðum. Laun hafa hækkað mest á almennum markaði þar sem samningum nær allra er lokið en minna á opinberum markaði þar sem stórir hópar eru enn með lausa samninga. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Kjaratölfræðinefndar þar sem fjallað er um þróun efnahagsmála og launa, vinnumarkaðsmál og kjarasamninga.
Á almennum markaði hækkaði grunntímakaup um 5,2% á tímabilinu frá febrúar til júlí á þessu ári en hækkunin nam um 2,9% hjá Reykjavíkurborg og rúmlega 2% hjá ríki og sveitarfélögum utan Reykjavíkur. Í þeim kjarasamningum sem gerðir hafa verið í þessari samningalotu var farin blönduð leið krónutöluhækkana og prósentuhækkana og eru launahækkanir því hlutfallslega mestar á lægri laun.
Að teknu tilliti til verðlagsþróunar jókst kaupmáttur grunntímakaups, sem best endurspeglar umsamdar launahækkanir, um 1,5% frá febrúar til júlí á þessu ári. Mest var aukningin á almennum vinnumarkaði þar sem samningum allflestra var lokið en kaupmáttur rýrnaði hins vegar eða stóð í stað á opinberum vinnumarkaði þar sem enn er ósamið við stóra hópa.
Áhersla á krónutöluhækkanir í kjarasamningum á undanförnum árum, sem hafa skilað hlutfallslega mestri hækkun lægstu launa, hefur leitt til þess að munur á hæstu og lægstu launum á vinnumarkaðnum hefur dregist saman og tíundastuðlar lækkað markvert.
Í skýrslu Kjaratölfræðinefndar er einnig að finna umfjöllun um efnahags- og vinnumarkaðsmál. Þar er meðal annars fjallað um þróun verðlags, vaxta, opinberra fjármála, framleiðni, atvinnuleysis og stöðu innflytjenda á íslenskum vinnumarkaði.
Kaupmáttur launa jókst um 0,5% á fyrri helmingi þessa árs samanborið við sama tímabil í fyrra en vegna hárra vaxta og verðbólgu dróst kaupmáttur ráðstöfunartekna lítillega saman. Eiginfjárstaða heimila hefur batnað á síðustu árum og skuldastaða er almennt góð í sögulegu tilliti en vaxtagjöld sem hlutfall af ráðstöfunartekjum hafa farið vaxandi einkum hjá yngra fólki. Dregið hefur úr spennu á vinnumarkaði og starfandi fólki fjölgar nú hægar en undanfarin misseri en atvinnuleysi er áfram lágt og atvinnuþátttaka mikil.
Innflytjendum á íslenskum vinnumarkaði hefur fjölgað hratt síðustu ár og þátttaka þeirra á vinnumarkaði er ein sú mesta meðal OECD ríkja. Lítill munur er á hlutfalli starfandi innflytjenda og þeirra sem eru með íslenskan bakgrunn. Í samanburði við önnur lönd eru innflytjendur á Íslandi vel menntaðir og algengara að þeir sinni starfi sem er ekki í samræmi við menntunarstig þeirra en fólk með íslenskan bakgrunn. Kunnátta innflytjenda á tungumáli búseturíkis er þó lítil hér á landi í samanburði við önnur OECD ríki.
Haustskýrsluna og fylgigögn má finna á vef Kjaratölfræðinefndar ktn.is