Menntamál - 

20. september 2023

Opið fyrir Chevening námsstyrk í Bretlandi

Menntamál

Menntamál

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Opið fyrir Chevening námsstyrk í Bretlandi

Styrkurinn nemur 10.000 sterlingspundum á ári

María Rakel Magnúsdóttir, nýr Chevening-styrkþegi ársins 2023, tekur á móti styrknum á Bessastöðum úr hendi Dr. Bryony Matthew, sendiherra Bretlands á Íslandi og forseta Íslands Guðna Th. Jóhannessonar. Mynd af vef forseti.is.

Chevening er alþjóðleg áætlun breskra stjórnvalda um styrki til framhaldsnáms í öllum háskólum Bretlands. Íbúar 160 ríkja geta sótt um fé úr sjóðnum og hafa alls 212 Íslendingar hlotið slíkan námsstyrk undanfarna fjóra áratugi. Þeirra á meðal er forsetinn sem hlaut styrk til meistaranáms í sagnfræði við Oxford-háskóla árið 1998. Chevening styrkurinn er virtasti námsstyrkur sem breska ríkið veitir erlendum námsmönnum.

Breska sendiráðið og Samtök atvinnulífsins eru í samstarfi um fjármögnun á Chevening-námsstyrknum á Íslandi. Styrkurinn er fyrir nám á meistarastigi við háskóla í Bretlandi og nemur 10.000 sterlingspundum á ári. Sérstaklega er hvatt til þess að fólk sem hyggst á nám sem gæti nýst atvinnulífinu sæki um styrkinn.

Hér má sækja um styrkinn

Breska sendiráðið í Reykjavík hefur umsjón með veitingu Chevening-styrkja á Íslandi. Styrkirnir hafa verið veittir frá árinu 1983 og munu um 1.700 Chevening-styrkþegar víða að úr heiminum hefja nám í Bretlandi í haust.

Chevening-styrkþegar eru hluti af alþjóðlegu tengslaneti og eru í dag um 50 þúsund talsins; þ.á m. eru margir þjóðarleiðtogar og annað alþjóðlegt forystufólk. Meðal markmiða með veitingu styrkjanna er að styðja leiðtoga framtíðarinnar sem geta mótað innlend jafnt sem alþjóðleg málefni með því að byggja á reynslu sinni og nánu sambandi við Bretland, sem námsdvölin þar veitir.

Íslensku styrkhöfunum býðst að taka þátt í ýmsum viðburðum, bæði í Bretlandi og á Íslandi, sem hjálpar þeim að öðlast dýpri skilning á bresku samfélagi, stofnunum, stefnumótun og menningu og að þróa mikilvæg tengsl til framtíðar.

„Við erum stoltir bakhjarlar Chevening styrksins á Íslandi sem eru mikilvæg viðbót við menntaáherslur Samtaka atvinnulífsins. Vel menntað starfsfólk er lykill að sterkri samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs, hvað þá Íslendingar menntaðir í bestu háskólum heims, “ segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Tengt frétt

Tanja Teresa hlýtur Chevening námsstyrk
Lesa meira

Tengt frétt

Garðar Örn hlýtur námsstyrk
Lesa meira

Samtök atvinnulífsins