Vinnumarkaður - 

16. mars 2019

Ólögmæt verkföll Eflingar

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Ólögmæt verkföll Eflingar

Félagsdómur hefur dæmt fjögur boðuð verkföll Eflingar stéttarfélags ólögmæt. Um er að ræða verkföll sem lýst hefur verið sem örverkföllum og vinnutruflunum og hefjast áttu á mánudaginn. Boðuð verkföll beindust að hótelum og hópbifreiðafyrirtækjum.

Félagsdómur hefur dæmt fjögur boðuð verkföll Eflingar stéttarfélags ólögmæt. Um er að ræða verkföll sem lýst hefur verið sem örverkföllum og vinnutruflunum og hefjast áttu á mánudaginn. Boðuð verkföll beindust að hótelum og hópbifreiðafyrirtækjum.

Ekkert verður því af eftirfarandi aðgerðum:

  • Verkfalli á 40 hótelum frá og með 18. mars þar sem starfsmenn áttu aðeins að sinna hluta starfa eða einungis þeim sem tilgreind eru í starfslýsingu.
  • Verkfalli hjá fyrirtækjum í hópbifreiðaaksri frá og með 18. mars þar sem starfsmenn áttu aðeins að sinna hluta starfa eða einungis þeim sem tilgreind eru í starfslýsingu.
  • Verkfalli hjá Almenningsvögnum Kynnisferða frá og með 18. mars þar sem starfsmenn áttu að dreifa kynningarefni frá Eflingu, stöðva bifreiðar í fimm mínútur og þrífa ekki bifreiðar.
  • Verkfalli hjá Almenningsvögnum Kynnisferða frá og með 18. mars þar sem bílstjórum var gert að fylgjast ekki með greiðslu fargjalds.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, fagnar niðurstöðu dómsins fyrir hönd fyrirtækja og samfélagsins í heild. Í samtali við Fréttablaðið segir Halldór um dóminn sem féll í gær.

„Dómsuppsagan var rétt um þremur klukkustundum eftir að málflutningi lauk og dómurinn er einróma um að örverkföll Eflingar séu dæmd ólögmæt. Það er álit SA að Efling hafi verið að reyna á þanþol vinnulöggjafarinnar en þessari túlkun Eflingar hafnar dómurinn einróma.“ Næstu verkföll sem Efling hefur boðað hefjast á föstudaginn og segir framkvæmdastjóri SA að verkefnið sé að því að ná samningum fyrir þann tíma.

Morgunblaðið fjallar einnig um málið í dag.

„Í íslensku samfélagi er almennur skilningur að verkföll byggist á að mæta ekki til vinnu og þiggja þar af leiðandi ekki laun á sama tíma,“ sagði Halldór Benjamín í samtali við blaðið. ,,Framkvæmd boðaðra örverkfalla Eflingar stéttarfélags átti hins vegar í einfaldaðri mynd að vera sú að starfsmenn mættu til vinnu, þægju laun og væru í verkfalli á sama tíma með því að sinna ekki ákveðnum verkefnum sem hverju starfi tilheyra. Þessari framkvæmd var hins vegar hafnað mjög afgerandi af Félagsdómi.“

Framkvæmdasjtóri SA segir niðurstöðuna góða að því leyti að leikreglurnar séu nú skýrar og verkefni næstu daga ljóst.

„Það er sameiginlegt verkefni að ná kjarasamningi milli SA og viðsemjenda og forða þannig miklu efnahagslegu tjóni sem verkföll valda.“

Tengt efni:

Látið reyna á lögmæti hluta aðgerða Eflingar 

Frétt RÚV- Sjónvarps

 

Samtök atvinnulífsins