1 MIN
Óendanlegur fjármagnstekjuskattur?
Reglulega skjóta upp kollinum tillögur um að hækka fjármagnstekjuskatt og færa hann nær því sem þekkist á hinum Norðurlöndunum. Norðurlöndin hafa þó ekki eitt samræmt kerfi og mismunandi samspil skattprósentna, frádráttarliða og undanþága gera hreinan samanburð erfiðan. Skattstofninn er ekki sá sami.
Norðurlöndin eiga það þó sameiginlegt að byggja á tvíþættu skattkerfi þar sem laun eru skattlögð með stigvaxandi hætti á meðan fjármagnstekjur eru skattlagðar með flatri og lægri prósentu. Annað sem skattkerfi Norðurlandanna eiga sameiginlegt er að fjármagnstekjuskattur leggst á nafnávöxtun, sem er ávöxtun áður en tekið hefur verið tillit til virðisrýrnunar vegna verðbólgu.
Áhrif verðbólgu á skattbyrði raunvaxta
Tökum einfalt en raunhæft dæmi um milljón króna fjárfestingu sem ber 7% nafnvexti og nafnávöxtunin því 70 þúsund krónur. Ef við gerum ráð fyrir að verðbólga sé 4,4% (meðaltal verðbólgu á Íslandi frá 1990) er raunávöxtunin hins vegar nokkuð lægri, eða 24.904 krónur. Nú leggst 22% fjármagnstekjuskattur á nafnávöxtun, sem jafngildir 15.400 krónum. Skattbyrðin á raunverulega ávöxtun (eftir að tekið hefur verið tillit til virðisrýrnunar fjárfestingarinnar) nemur þannig 62%. Eftir standa 9.504 krónur eftir skatt.
Hver hefði skattlagning raunávöxtunar verið á Norðurlöndunum ef þau byggju öll við íslenskan fjármagnstekjuskatt? Tökum dæmi þar sem nafnávöxtun er hin sama, en verðbólgan jöfn meðaltalsverðbólgu í löndunum frá árinu 1990. Þar sem verðbólga hefur að jafnaði verið meiri á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum hefðu íslenskir skattgreiðendur búið við mun hærri skattbyrði á raunávöxtun en aðrir Norðurlandabúar, jafnvel þó fjármagnstekjuskatturinn hefði verið 22% í öllum þessum löndum.
Hér er aðeins gerð tilraun til að einangra áhrif verðbólgu á skattbyrði raunávöxtunar. Skatthlutfall fjármagnstekjuskatts er almennt hærra á hinum Norðurlöndunum, á meðan ýmiss konar frádráttarliðir og undanþágur draga úr skattbyrðinni á móti og gera samanburð flókinn. Eftir stendur sú staðreynd að verðbólguskatturinn leggst að jafnaði þyngra á Íslendinga en aðra Norðurlandabúa.
Gild rök fyrir hóflegum fjármagnstekjuskatti
Almennt er ekki æskilegt að skattleggja tekjur eða eignaverðshækkanir sem eiga sér stað vegna verðbólgu þar sem engin verðmætaaukning felst í slíkum breytingum. Tekið er tillit til verðbólgu í tekjuskattskerfinu með því að uppfæra persónuafslátt og þrepamörk reglulega í takt við vísitölu neysluverðs en engum slíkum leiðréttingum er fyrir að fara þegar kemur að skattlagningu fjármagns að undanskildu frítekjumarki í einhverjum tilvikum. Þannig getur skattlagningin, undir ákveðnum kringumstæðum, verið meiri en sem nemur raunávöxtun. Í þeim tilvikum má segja að skattbyrðin sé í reynd óendanleg.
Þá ber að hafa það í huga að fjármagn er hreyfanlegur skattstofn. Því fengu Norðmenn að kynnast þegar eignaskattar voru hækkaðir árið 2022. Áætlað var að breytingin myndi skila talsverðum fjármunum í ríkissjóð, en áhrifin voru margföld í þveröfuga átt þegar upp var staðið - enda flúðu fjármagnseigendur land í stríðum straumum.
Fjármagnstekjuskattur er skaðlegri en margir aðrir skattar að því leyti að hann ívilnar neyslu á kostnað sparnaðar og fjárfestinga. Flest lönd hafa leitast við að stilla fjármagnstekjuskatti í hóf þar sem háir skattar á fjármagnstekjur hafa fælandi áhrif á fjárfestingu, sem er grundvöllur verðmætasköpunar og bættra lífskjara. Óhóflegur fjármagnstekjuskattur getur þannig haft neikvæð áhrif á framtíðarhagvöxt og þar með lífskjör almennings og skatttekjur þegar til lengdar lætur. Þetta þarf að hafa í huga í allri umræðu um fjármagnstekjuskatt og áhrif hans á tekjur ríkissjóðs.