1 MIN
Ný úttekt segir gullhúðun hamla vexti evrópskra fyrirtækja
Enrico Letta á fundi með fulltrúum SA
Samtök atvinnulífsins efndu til fundar í morgun með Enrico Letta, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu og höfundar skýrslu um þróun og framtíð innri markaðar ESB. Úttekt Letta mun hafa víðtæk áhrif um alla álfuna. Ísland er þar ekki undanskilið enda Evrópusambandið mikilvægasti markaður þjóðarinnar. SA hvetur stjórnvöld að fylgjast vel með þannig að íslensk fyrirtæki njóti ávaxtanna af fyrirhuguðum breytingum.
„Það skiptir máli að fylgjast með fyrirhuguðum breytingum og nýta tækifæri sem kunna að gefast til að efla samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja,“ segir Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður stjórnar Samtaka atvinnulífsins, um skýrslu Enrico Letta, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, um framtíð innri markaðar ESB.
Letta hafði við vinnslu skýrslunnar víðtækt samráð við stjórnsýslu og atvinnulíf. Þar er mælt með því að endurræsa innri markað ESB til að svara kalli nútímans. SA efndu til fundar með stjórn, stjórnarmönnum sem tilnefndir eru af hálfu SA í stjórnir lífeyrissjóðanna og framkvæmdastjórum aðildarsamtaka SA fyrr í dag þar sem Letta gerði grein fyrir máli sínu.
Í úttekt Letta er meðal annars lagt til að fjórfrelsið verði útvíkkað og til komi fimmta stoðin sem felist í frjálsu flæði þekkingar, rannsókna, nýsköpunar og menntunar. „Hér geta skapast tækifæri fyrir fyrirtæki meðal annars á sviði heilbrigðistækni, lífvísinda og nýtingu auðlinda til dæmis úr hafinu með aðgangi að samstarfi um rannsóknir og nýsköpun,“ segir Eyjólfur Árni.
Lögð er áhersla á að virkja samstarf opinberra aðila og einkageirans um sameiginlega fjármögnun meðal annars um uppbyggingu innviða (e. public-private partnership) og samstarf um stafræna þróun.
„Nauðsynlegt er að innri markaðurinn styðji að evrópsk fyrirtæki geti vaxið og verið samkeppnishæf við risafyrirtæki á öðrum svæðum. Hér er meðal annars átt við fyrirtæki í fjarskiptageiranum, fjármálafyrirtæki og orkugeirann,”
segir Eyjólfur Árni og heldur áfram.
„Mikilvægt er að ekki séu lagðar óhæfilegar byrðar á lítil og meðalstór fyrirtæki heldur fái þau einnig tækifæri til að nýta ávinnings af eflingu innri markaðarins.“
Þá sé nauðsynlegt að draga úr skrifræði og tryggja að einstök ríki beiti ekki strangari kröfum en nauðsynlegt er og að draga úr svokallaðri gullhúðun regluverksins.
„Regluverk innri markaðarins verður að tryggja samkeppnishæfni fyrirtækja við þau sem starfa utan þess,“ segir Eyjólfur Árni.
SA leggja áherslu á að stjórnvöld fylgist vel með þannig að íslenskt atvinnulíf njóti ávaxtanna af fyrirhuguðum breytingum án þess að búa við þá áráttu að reglur séu innleiddar meira íþyngjandi en nauðsynlegt er.
Gæta verði hagsmuna fyrirtækja sem hér eru langflest minni en gengur og gerist í nálægum ríkjum Evrópu.