1 MIN
Nauðsynleg störf
Þeim fer fjölgandi fregnum af áskorunum í rekstri fjölmennra vinnustaða sem illu heilli hafa leitt til hópuppsagna í einhverjum tilvikum. Því fer þó fjarri að áskoranir í rekstri einskorðist við almenna markaðinn. Fjármál ríkisins löskuðust verulega í faraldrinum og mörg sveitarfélög hafa barist við að halda sér réttu megin við núllið, með misjöfnum árangri. Atvinnuöryggi hjá hinu opinbera er þó mun meira en á almenna markaðinum.
Vart þarf að taka fram að almenn sátt ríkir um trausta mönnun starfa í mikilvægri grunnþjónustu á borð við löggæslu, heilbrigðis- og menntakerfin. Öðru máli gegnir um yfirbygginguna sem víða er orðin ískyggilega mikil. Skemmst er að minnast þess þegar ónefnt sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu tilkynnti að vegna aðhaldsaðgerða myndi það framvegis eingöngu ráða í ,,nauðsynleg störf”. Erfitt er að segja til um hvernig mannauðsmálum hafi verið háttað í aðdraganda rekstrarvandræðanna en líklega hafa ráðningar í ónauðsynleg störf ekki hjálpað þar til.
Auk mikils atvinnuöryggis hjá hinu opinbera búa opinberir starfsmenn við réttindi vel umfram það sem tíðkast á hinum almenna markaði, hvort sem um er að ræða viðveruskyldu, orlof eða veikindarétt. Þetta þarf að endurskoða. Af hverju? Atvinnurekendur á hinum almenna markaði finna fyrir sífellt aukinni samkeppni frá hinu opinbera um hæft starfsfólk. Það kann ekki góðri lukku að stýra því þegar allt er með felldu er það almenni markaðurinn sem fjármagnar hið opinbera, en ekki öfugt.
Hér er ekki verið að slengja því fram að best væri ef allt ,,óhæft” starfsfólk endaði hjá hinu opinbera, hjálpi mér. Hins vegar er eðlilegt að gera kröfu um það að sambærilegt aðhald ríki í opinberum rekstri og annars staðar og að leikreglurnar séu jafnari. Er það til of mikils mælst?