22. nóvember 2024

Milljarðar í súginn

Anna Hrefna Ingimundardóttir

1 MIN

Milljarðar í súginn

Samtök atvinnulífsins framkvæmdu í haust könnun meðal félagsmanna sinna um framkvæmd jafnlaunavottunar eða jafnlaunastaðfestingar, sem smærri fyrirtækjum er heimilt að undirgangast í stað vottunar. Niðurstöðurnar voru afgerandi. Einungis 22% svarenda töldu ávinninginn af ferlinu meiri en kostnaðinn.

Fyrirtækin voru beðin um að tilgreina hver raunkostnaður við innleiðingu hefði verið. Af þeim sem voru að innleiða jafnlaunastaðalinn nam kostnaðurinn að meðaltali 7,6 milljónum á meðan endurnýjun vottunar kostaði 2,1 milljón og innleiðing jafnlaunastaðfestingar kostaði 2,7 milljónir. Gert er ráð fyrir að um 1.200 fyrirtæki þurfi að undirgangast vottun eða staðfestingu og því ljóst að beinn kostnaður atvinnulífsins hleypur þegar á milljörðum og verður viðvarandi.

Mikillar neikvæðni gætti gagnvart ferlinu í opnum svörum atvinnurekenda þar sem helst kom fram að ferlið væri kostnaðarsamt, framkvæmdin væri erfið og tímafrek, vottunin þjónaði engum tilgangi miðað við eðli fyrirtækjanna, staðallinn samræmdist illa framkvæmd kjarasamninga, úttektir væru of tíðar, erfitt væri að umbuna framúrskarandi starfsfólki óháð kyni vegna staðalsins og að vottunin ætti að vera valkvæð. Jákvæðar athugasemdir voru í miklum minnihluta en sumir atvinnurekendur töldu staðalinn vissulega gagnast vel til að auka formfestu í launaákvörðunum.

Augljós leið til þess er að afnema tilgangslausar en kostnaðarsamar kvaðir á atvinnulífið. Milljarðar eru að fara í súginn.

Eitt meginmarkmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun en eins og ljóst var frá öndverðu er vottun innan einstakra fyrirtækja ekki til þess fallin að taka á kynskiptum vinnumarkaði, sem er helsta skýring þess kynbundna launamunar sem eftir stendur.

Flestir stjórnmálaflokkar hafa það á stefnuskrá sinni að stuðla að aukinni verðmætasköpun, enda er hún grundvöllur þeirra bættu lífskjara sem landsmenn sækjast eftir. Augljós leið til þess er að afnema tilgangslausar en kostnaðarsamar kvaðir á atvinnulífið. Milljarðar eru að fara í súginn. Jafnlaunavottun átti alltaf að vera valkvæð. Næsta ríkisstjórn getur linað regluverkina með því að leiðrétta þessi dýrkeyptu mistök.

Þessi grein birtist fyrst í Viðskiptablaðinu þann 20. nóvember.

Anna Hrefna Ingimundardóttir

Aðstoðarframkvæmdastjóri og forstöðumaður efnahagssviðs