Efnahagsmál - 

10. október 2017

Milljarða fyrirheit

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Milljarða fyrirheit

Nú styttist í kosningar og stjórnmálaflokkar eru í óðaönn að dusta rykið af 12 mánaða gömlum kosningaloforðum. Þó að hver kosningabarátta hafi sín sérkenni má ætla að líkt og fyrri ár verði fylgt gamalkunnu stefi.

Nú styttist í kosningar og stjórnmálaflokkar eru í óðaönn að dusta rykið af 12 mánaða gömlum kosningaloforðum. Þó að hver kosningabarátta hafi sín sérkenni má ætla að líkt og fyrri ár verði fylgt gamalkunnu stefi.

Það verður að teljast ólíklegt að dregið verði úr loforðum á næstu vikum, líklega fremur að bætt verði í. 

Háværar kröfur eru hjá flestum flokkum að auka þurfi ríkisútgjöld og draga úr þeim mikla ójöfnuði sem hér ríkir. Það sé því nauðsynlegt að skattleggja fyrirtækin og þá ríkari í samfélaginu. Það virðist minna til vinsælda fallið að benda á tölulegar staðreyndir. Hér er tekjujöfnuður einn sá mesti meðal þróaðra ríkja. Þá er skattheimta og útgjöld hins opinbera í hlutfalli við landsframleiðslu nær hvergi hærri en hér á landi. Fyrir síðustu kosningar gengu flest loforð út á að hækka það hlutfall.

Öll viljum við efla heilbrigðiskerfið en fyrirheit um að auka þurfi opinber útgjöld til heilbrigðismála í 11% af landsframleiðslu, svo við verðum ekki eftirbátar annarra þjóða, er hins vegar mikil einföldun. Tölur sýna að sé leiðrétt fyrir aldurssamsetningu þjóða, eru útgjöld til heilbrigðismála einna hæst hér á landi. Aldurssamsetningin mun hins vegar breytast og útgjöldin með, en slík framkvæmd nú auk afnáms greiðsluþátttöku myndi kosta ríkissjóð hátt í 100 milljarða króna á ári.

Heitið var að hækka lágmarksgreiðslur almannatrygginga í 300.000 krónur, tvöfalda barnabætur, lengja fæðingarorlofið, hækka hámarksgreiðslur fæðingarorlofs, byggja þúsundir leiguíbúða með ríkisstuðningi og auka stuðning við fyrstu kaup fasteigna. Í heild myndi sá loforðaflaumur kosta aðra 100 milljarða króna.

Það verður að teljast ólíklegt að dregið verði úr loforðum á næstu vikum, líklega fremur að bætt verði í. Standi vilji frambjóðenda til þess að veita aukna fjármuni til þarfra verkefna liggur í augum uppi að það þarf að breyta forgangsröðun við útdeilingu þess skattfjár, sem þegar er innheimtur af landsmönnum, nær hvergi í meiri mæli í hinum vestræna heimi.

Ásdís Krstjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 6. október 2017

Samtök atvinnulífsins