Vinnumarkaður - 

21. janúar 2019

Miklar kröfur á lítil fyrirtæki

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Miklar kröfur á lítil fyrirtæki

Öflugt atvinnulíf er ein mesta gæfa Íslendinga. Frumkvæði fólks sem hefur byggt upp atvinnurekstur til að skapa sér og öðrum lífsviðurværi er grundvöllur velferðarinnar hér á landi. Það er drifkraftur einstaklinga, áræðni og útsjónarsemi sem hefur skapað störf og skatttekjur sem hefur þýtt að í stað þess að vera ein fátækasta þjóð Evrópu erum við nú ein sú ríkasta.

Öflugt atvinnulíf er ein mesta gæfa Íslendinga. Frumkvæði fólks sem hefur byggt upp atvinnurekstur til að skapa sér og öðrum lífsviðurværi er grundvöllur velferðarinnar hér á landi. Það er drifkraftur einstaklinga, áræðni og útsjónarsemi sem hefur skapað störf og skatttekjur sem hefur þýtt að í stað þess að vera ein fátækasta þjóð Evrópu erum við nú ein sú ríkasta.

Við erum í einstaklega góðri stöðu og í fyrirtækjunum eru sköpuð mikil verðmæti. Það þarf því engan að undra að fólk greini á um hvernig skipta eigi verðmætunum. Það væri tímasóun að þræta um skiptingu á litlu sem engu.

Kannanir sýna að svigrúmið er mismikið eftir fyrirtækjum. Hjá sumum er það nokkuð, hjá öðrum er það minna en ekkert. Þetta hefur komið fram í uppsögnum og gjaldþrotum undanfarið.

Útgangspunkturinn ætti að vera svigrúm í rekstri fyrirtækja til þess að hækka laun. Ef við hækkum laun umfram það þá mun verðbólga fara af stað og launahækkanir skila sér ekki í auknum kaupmætti til fólks. Vöruverð, vextir og verðtryggð húsnæðislán hækka. Íslensku útflutningsfyrirtækin munu tapa hlut í samkeppni við fyrirtæki í öðrum löndum. Störf verða færri en ella og starfsöryggi minnkar.

Kannanir sýna að svigrúmið er mismikið eftir fyrirtækjum. Hjá sumum er það nokkuð, hjá öðrum er það minna en ekkert. Þetta hefur komið fram í uppsögnum og gjaldþrotum undanfarið. Vandinn er sá að launhækkanir ganga jafnan jafnt yfir öll fyrirtæki, sama hvert svigrúm þeirra er.

Hvernig er hið dæmigerða íslenska fyrirtæki? Af ríflega 20.000 fyrirtækjum sem sjá fólki fyrir vinnu í landinu eru 99% lítil og meðalstór þ.e. hvert þeirra er með færri en 250 starfsmenn og langflest með færri en 10 starfsmenn. Þessi litlu og meðalstóru fyrirtæki skapa 73% af rúmlega 150.000 störfum á almennum vinnumarkaði og greiða 69% af laununum. Þetta eru fyrirtækin sem myndu þurfa að mæta stærstum hluta krafna sem forsvarsmenn launþegahreyfingarinnar hafa lagt fram.

Íslenskt launafólk fær stærri hluta af virðisauka í samfélaginu en launafólk í nokkru öðru iðnvæddu ríki, eða 63%. Meðallaun á Íslandi eru þau næsthæstu í heimi, lágmarkslaun þau þriðju hæstu í heimi, tekjujöfnuður er sá mesti í heimi og eignajöfnuður er að aukast. Við borgum há laun á Íslandi og viljum hafa það þannig. En hóflegar launhækkanir innan þess svigrúms sem er til staðar eru lykilforsenda þess að við getum gert það áfram.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. janúar 2019

Samtök atvinnulífsins