Covid-19 - 

10. mars 2020

Mikilvægt skref ríkisstjórnarinnar

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Mikilvægt skref ríkisstjórnarinnar

Rétt í þessu kynnti ríkisstjórnin aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum COVID-19. Beðið hefur verið eftir viðbrögðum stjórnvalda síðustu daga enda mikil óvissa í íslensku efnahagslífi. Það er fyrirséð að sú niðursveifla sem nú er hafin verði dýpri og lengri en hagvaxtarspár stjórnvalda og Seðlabankans gerðu ráð fyrir.

Rétt í þessu kynnti ríkisstjórnin aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum COVID-19. Beðið hefur verið eftir viðbrögðum stjórnvalda síðustu daga enda mikil óvissa í íslensku efnahagslífi. Það er fyrirséð að sú niðursveifla sem nú er hafin verði dýpri og lengri en hagvaxtarspár stjórnvalda og Seðlabankans gerðu ráð fyrir.

Ríkisstjórnin boðar að ný fjármálastefna verði kynnt á næstu vikum og frumvarp um sérstakar ráðstafanir verði lagt fram innan skamms. Aðgerðir stjórnvalda munu miða af því að aðstoða fyrirtæki sem lenda í tímabundnum rekstrarörðugleikum, frestir verði veittir á opinberum gjöldum, skoðað verði að fella niður skatta sem eru íþyngjandi fyrir fyrirtæki landsins og setja aukinn kraft í opinberar framkvæmdir svo dæmi séu tekin. Aðgerðirnar eru hins vegar ekki útfærðar og þótt mörgum spurningum sé ósvarað er yfirlýsing stjórnvalda mikilvægt skref í rétta átt.

Nú þegar má greina að efnahagsleg áhrif vegna COVD-19 hér heima, en áhrifin vega fyrst um sinn þyngst í ferðaþjónustu. Í því samhengi er mikilvægt að hafa í huga að hlutur ferðaþjónustu í útflutningstekjum er meiri á Íslandi en í flestum öðrum ríkjum, og hærri en í öllum þeim ríkjum sem Ísland ber sig yfirleitt saman við.  Verulegur samdráttur í íslenskri ferðaþjónustu mun áður en langt um líður smitast út um allt efnahagslífið. Aukin óvissa magnar einnig upp frekari neikvæð áhrif og því er yfirlýsing ríkisstjórnarinnar mikilvæg fyrir öll fyrirtæki landsins.

Hér má sjá aðgerðir stjórnvalda í sjö liðum:

  1. Fyrirtækjum sem lenda í tímabundnum rekstrarörðugleikum vegna tekjufalls verði veitt svigrúm, t.d. með lengri fresti til að standa skil á sköttum og opinberum gjöldum.
  2. Skoðað verði að fella tímabundið niður tekjuöflun sem er íþyngjandi fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu, t.d. gistináttaskatt sem verður afnuminn tímabundið.
  3. Markaðsátaki verður hleypt af stokkunum erlendis þegar aðstæður skapast til þess að kynna Ísland sem áfangastað, auk átaks til að hvetja til ferðalaga Íslendinga innanlands.
  4. Gripið verði til ráðstafana sem örvað geta einkaneyslu og eftirspurn, t.d. með skatta- eða stuðningskerfum.
  5. Aukinn kraftur verði settur í framkvæmdir á vegum opinberra aðila á yfirstandandi ári og þeim næstu.
  6. Efnt verði til virks samráðs milli stjórnvalda og samtaka fjármálafyrirtækja um viðbrögð þeirra við fyrirsjáanlegum lausafjár- og greiðsluörðugleikum fyrirtækja í ferðaþjónustu.
  7. Innstæður ÍL-sjóðs í Seðlabankanum verði fluttar á innlánsreikninga í bönkum til að styðja við svigrúm banka og lánardrottna til að veita viðskiptamönnum sínum lánafyrirgreiðslu.

Samtök atvinnulífsins fagna þeim fyrstu skrefum sem hér eru stigin en hvetja um leið stjórnvöld til að huga að frekari aðgerðum sem munu hjálpa atvinnulífinu á næstu vikum og mánuðum. Óvissan er enn mikil. Viðbrögð stjórnvalda og Seðlabankans munu því skipta höfuðmáli á næstu dögum og vikum.

 

Samtök atvinnulífsins