Menntamál - 

26. júlí 2024

Menntun án mælikvarða?

Anna Hrefna Ingimundardóttir

1 MIN

Menntun án mælikvarða?

Ísland skarar fram úr á ýmsum sviðum, en þegar kemur að menntun gunnskólabarna sitjum við aftarlega á merinni. Nýjustu niðurstöður PISA kannana gefa ekki tilefni til bjartsýni. Um helmingur drengja og þriðjungur stúlkna getur ekki lesið sér til gagns eftir grunnskólagöngu. Þetta er sláandi tölfræði sem vekur upp réttmætar áhyggjur og áleitnar spurningar.

Kerfisbreytinga er þörf sé markmiðið að skila ungu fólki vel undirbúnu út í lífið, til frekara náms, virkni á vinnumarkaði og lýðræðislegrar þátttöku. Frammistaða íslenskra grunnskólabarna er skýrt dæmi þess að ekki dugir að henda fjármunum í brotið kerfi, en fá lönd verja meiri opinberum fjármunum í grunnskólakerfið en Ísland.

Til að greina vandann þarf samræmda mælikvarða sem sýna til hvers er ætlast og hvenær markmiðum er náð. Áform mennta- og barnamálaráðuneytisins um breytingar á fyrirkomulagi námsmats fela aftur á móti í sér að alfarið verði horfið frá samræmdum prófum en svokallaður matsferill innleiddur í staðinn. Gagnrýnisraddir heyrast um að slík aðferðafræði sé aðeins áframhald á þeirri röngu braut sem hefur verið fetuð á undanförnum árum. Námsmat sé óskýrt og ósamræmt, nemendur viti ekki til hvers sé ætlast af þeim, foreldrar átti sig ekki á stöðu barna sinna og skólar á æðri námsstigum séu í vandræðum með inntökuferli nýrra námsmanna. Þetta getur leitt til aukins brottfalls úr námi og skerðinga á kröfum í framhaldsskólum og háskólum.

Engum er greiði gerður með því að draga upp loðna mynd af getu nemenda til að standast þær kröfur sem ætti að gera á æðri skólastigum. Í stað þess að leggja niður samræmd próf ætti þvert á móti að skerpa á hönnun og framkvæmd samræmdra mælikvarða. Síðast en ekki síst ætti að nýta niðurstöðurnar í þágu umbóta í þjónustu við grunnskólabörn.

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 25. júlí 2024

Anna Hrefna Ingimundardóttir

Aðstoðarframkvæmdastjóri og forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins