1 MIN
Menningin er mannanna verk
Það kemur sumum Íslendingum á óvart að ekki haldi öll jól og páska og að ekki fagni öll áramótum þann 31. desember. Sumt fólk neytir hvorki matar né drykkjar frá sólarupprás til sólseturs í mánuð á ári hverju, í sumum menningarheimum er virðing borin fyrir þér eldri og þeim hlýtt og þá skiptir engu hvort það eldra vinni samskonar starf og þú. Sumt fólk sem búsett er hér á landi hefur upplifað styrjaldir og neyð vegna þeirra og annað hefur alist upp þar sem mannréttindi eru að vettugi virt. Í ljósi þess er mikilvægt að muna að utanaðkomandi þættir samfélagsins hafa mismunandi áhrif á starfsfólk og þar með áhrif inn á vinnustaðinn.
Hér á landi er hlutfall erlendra ríkisborgara hátt þegar horft er til vinnumarkaðarins í heild og fer hækkandi með ári hverju. Um 23% alls starfsfólks á íslenskum vinnumarkaði eru erlendir ríkisborgarar en voru aðeins 8% árið 2012. Rík þörf hefur verið fyrir erlent starfsfólk á íslenskum vinnumarkaði á síðustu árum og ekkert bendir til annars en að svo verði áfram. Rannsóknir sýna að aukinn fjölbreytileiki og þar með fjölmenning styrkir vinnustaði og eykur samkeppnishæfni þeirra. Hins vegar fylgja ólíkum bakgrunni, menningu og viðhorfum áskoranir. Ef ekki er haldið vel í stjórnartaumana geta slíkar áskoranir oft haft neikvæð áhrif á vinnustaðamenningu. Til að bregðast við þessu tóku Samtök atvinnulífsins og Fjölmenningarsetrið, í lok síðastliðins árs, höndum saman við að móta verkfæri fyrir stjórnendur fyrirtækja til að inngilding fjölmenningar á vinnustaði heppnist sem berst.
Í fjölbreyttum og góðum starfshóp þekkja öll sitt hlutverk og sína stöðu og öll þurfum við, hvort sem við erum stjórnendur eða annað starfsfólk, að horfast í augu við eigin hlutdrægni þegar að fjölmenningu kemur.
Það er mikilvægt að fyrirtæki setji sér fjölmenningarstefnu en með slíkri stefnu einsetja fyrirtæki sér að auka og styðja við fjölmenningu á vinnustaðnum. Í fjölbreyttum og góðum starfshóp þekkja öll sitt hlutverk og sína stöðu og öll þurfum við, hvort sem við erum stjórnendur eða annað starfsfólk, að horfast í augu við eigin hlutdrægni þegar að fjölmenningu kemur. Því er mikilvægt að stuðla að inngildingu fjölmenningar með ýmiskonar fræðslu til dæmis með fræðslu í menningarnæmi. Menningarnæmi felur það í sér að læra að vinna með og skilja ólíkan menningarlegan bakgrunn, til að mynda hvers vegna sum fagna nýju ári út frá ólíkum tímatölum eða áhrifa ólíkrar menningar á viðbrögð og hegðun inn á vinnustað. Einnig er mikilvægt að skilja fjölbreyttar sjálfsmyndir á skilvirkan hátt til að tryggja að allt starfsfólk upplifi sig sem hluta af vinnustaðnum.