28. október 2022

Máltækni lykillinn að blómstrandi fjölmenningu

Vinnumarkaðsmál

Jafnréttismál

Vinnumarkaðsmál

Jafnréttismál

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Máltækni lykillinn að blómstrandi fjölmenningu

Hlutfall starfandi innflytjenda á vinnumarkaði er 21%

Samhent átak atvinnulífs og stjórnvalda er að brjóta niður tungumálamúrinn. Það þýðir ekki að sitja námskeið svo vikum og mánuðum skiptir og þar er ég sannfærður um að máltækni sé leiðin til að læra íslensku með sveigjanlegri hætti.

- Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins á Jafnréttisþingi 2022

Jafnréttisþing 2022

Forsætisráðherra bauð til jafnréttisþings á dögunum þar sem fjallað var um stöðu kvenna af erlendum uppruna á íslenskum vinnumarkaði. Umfjöllunarefnið sneri að aðgengi, möguleikum og hindrunum sem konur af erlendum uppruna mæta á íslenskum vinnumarkaði. Saga erlendra kvenna af ólíkum stéttum og uppruna heyrðist skýrt á þinginu og vakti gesti til umhugsunar.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, benti ráðstefnugestum á að það hefði ekki breyst á vinnumarkaðnum að konur bera hitann og þungann í lægst launuðu störfunum og í þeim hópi séu konur af útlendum uppruna fjölmennar. Hlutfall starfandi innflytjenda á vinnumarkaði er nú 21%.

Í frásögnum kvennanna kom ítrekað fram að menntun, reynsla og bakgrunnur þeirra virðist ekki metin til jafns við innfædda. Margar konur af erlendum uppruna sem hingað koma hafa menntað sig til allt annarra og betri launaðra starfa en fá menntun sína ekki metna á vinnumarkaði, festast í láglaunastörfum og eiga ekki möguleika á framgangi. Þá er aðgengi að íslenskukennslu verulega ábótavant.

Máltækni er lykillinn að blómstrandi fjölmenningu

Einn af dagskrárliðum þingsins var sófaspjall með konum af erlendum uppruna auk fulltrúa frá aðilum vinnumarkaðar og var Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA á meðal þátttakenda.

Halldór fékk dynjandi lófatak er hann benti góðlátlega á að vagga menntunar í heiminum væri ekki í Háskóla Íslands, þegar kemur að því að meta menntun aðfluttra til jafns við innfæddra. Eins kom hann inn á að dræm kosningaþátttaka fólks af erlendum uppruna á Íslandi ætti sér skýringu í að framboðslistarnir endurspegluðu ekki undirliggjandi fjölbreytileika á Íslandi. Fjölbreytileikinn muni aðeins aukast á Íslandi á næstu 10 - 20 árum og stjórnmálin þurfi að endurspegla það.

„Samhent átak atvinnulífs og stjórnvalda er að brjóta niður tungumálamúrinn. Það þýðir ekki að sitja námskeið svo vikum og mánuðum skiptir og þar er ég sannfærður um að máltækni sé leiðin til að læra íslensku með sveigjanlegri hætti. Við sem erum í þessum valdastöðum þurfum að finna lausnir til að gera fólki auðveldara að læra íslensku. Máltækni er lykillinn í því.“ - sagði Halldór að lokum.

Hér má horfa á sófaspjallið á Jafnréttisþingi 2022:

Í sófaspjallinu voru, auk forsætisráðherra:

  • Aleksandra Leonardsdóttir, sérfræðingur í fræðslu og málefnum innflytjenda á skrifstofu ASÍ
  • Fida Abu Libdeh, framkvæmdastýra Geosilica
  • Jasmina Vajzović Crnac, stjórnarkona í félagasamtökunum Hennar Rödd
  • Paola Cardenas, formaður innflytjendaráðs
  • Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB
  • Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA

Samtök atvinnulífsins