Vinnumarkaður - 

12. júní 2019

Lífskjaraþróun í hálfa öld

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Lífskjaraþróun í hálfa öld

Mikill óstöðugleiki einkenndi efnahagsmál Íslendinga á árunum 1970-1990. Laun launafólks og lífeyrisþega hækkuðu oft á ári samkvæmt lögum og kjarasamningum en ávinningurinn gufaði jafnharðan upp í verðbólgu og gengislækkunum. Lægstu launataxtar hækkuðu að jafnaði árlega um 33,7% en verðbólgan var að jafnaði 33,3%. Kaupmáttur lágmarkslauna jókst þannig um 0,2% árlega. Kaupmáttur meðallauna á almennum vinnumarkaði hækkaði þó töluvert meira, eða um 1,4% árlega. Í heild jókst kaupmáttur lágmarkslauna um 5% á þessum tveimur áratugum og kaupmáttur meðallauna um liðlega 30%. Þannig jókst launaójöfnuður á þessum áratugum sem oft eru kenndir við óðaverðbólgu.

Mikill óstöðugleiki einkenndi efnahagsmál Íslendinga á árunum 1970-1990. Laun launafólks og lífeyrisþega hækkuðu oft á ári samkvæmt lögum og kjarasamningum en ávinningurinn gufaði jafnharðan upp í verðbólgu og gengislækkunum.  Lægstu launataxtar hækkuðu að jafnaði árlega um 33,7% en verðbólgan var að jafnaði 33,3%. Kaupmáttur lágmarkslauna jókst þannig um 0,2% árlega. Kaupmáttur meðallauna á almennum vinnumarkaði hækkaði þó töluvert meira, eða um 1,4% árlega. Í heild jókst kaupmáttur lágmarkslauna um 5% á þessum tveimur áratugum og kaupmáttur meðallauna um liðlega 30%. Þannig jókst launaójöfnuður á þessum áratugum sem oft eru kenndir við óðaverðbólgu.

Með Þjóðarsáttinni 1990 urðu vatnaskil þegar aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld ákváðu að snúa baki við verðbólguhegðun fyrri áratuga og settu markmið um efnahagslegan stöðugleika, þ.m.t. um stöðugt gengi og verðlag ásamt hægfara uppbyggingu kaupmáttar launa. Nú þremur áratugum síðar er unnt að skoða þróunina síðustu hálfa öld og skipta tímabilinu í tvennt, þ.e. fyrir og eftir Þjóðarsátt.

Á síðustu tæplega þremur áratugum, 1990-2018, hefur kaupmáttur launa aukist að jafnaði um 2,1% árlega og kaupmáttur lágmarkslauna enn meira, eða um 3,2%. Laun samkvæmt launavísitölu hækkuðu um 6,4% og lágmarkslaun um 7,5%, en verðbólga var 4,2% að jafnaði árlega.

Áhugavert er að bera saman áratugina frá Þjóðarsáttinni 1990. Spurningi er hvort grundvallarbreytingar hafi orðið á þróun þeirra hagstærða sem mestu skipta varðandi lífskjörin, þ.e. þróun launa, verðlags og kaupmáttar.

Á meðfylgjandi súluriti kemur fram að hækkun lágmarkslauna var að jafnaði svipuð áratugina þrjá, eða 7-8%, og laun skv. launavísitölu hækkuðu um 5-7% árlega. Verðbólgan var hins vegar  mjög misjöfn, eða um 3% á áratugunum 1990-2000 og 2010-2018, en 6% á fyrsta áratug aldarinnar. Kaupmáttur óx mun minna á fyrsta áratug þessarar aldar en á hinum áratugunum, en þar skiptir bankahrunið sköpum. Súluritið sýnir jafnframt að kaupmáttur lágmarkslauna jókst töluvert umfram kaupmátt skv. launavísitölu alla þrjá áratugina, en mest á tíunda áratugnum.

Þrátt fyrir frábæran árangur við að skapa hér betri lífskjör undanfarna áratugi hefur Ísland ekki enn náð því markmiði að koma á samærilegum stöðugleika og í nágrannalöndunum. Samanburður við þrjú Norðurlönd; Danmörku, Noreg og Svíþjóð, sýnir að launahækkanir á Íslandi voru tvöfalt til þrefalt meiri að jafnaði árlega, verðbólga tvöfalt til fjórfalt meiri og nafnvextir einnig tvöfalt til fjórfalt hærri.

Skuggahlið batnandi lífskjara á Íslandi var því meiri verðbólga, hærri vextir og meiri sveiflur í efnahagslífi en annars staðar. Mikil verðbólga leikur þá verst sem við lökust kjör búa og bera þunga framfærslubyrði. Háir vextir leggjast hlutfallslega þyngst á ungt fólk sem er að koma sér upp húsnæði og leigjendur, en ætla má að í báðum hópum sé hátt hlutfall lágtekjufólks. Velferð landsmanna hefði aukist meira en ella ef breytingar launa og verðlags hefðu verið minni og vextir lægri.

Markmið Lífskjarasamningsins 2019-2022 er að festa stöðugleika í sessi og stuðla að lægri vöxtum til frambúðar. Ábyrg efnahagsstjórn og lítið launaskrið umfram samninga er forsenda þess að markmiðin náist.

Samtök atvinnulífsins