15. nóvember 2024

Leiðir til að lækka vexti

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Leiðir til að lækka vexti

Í gær, 14. nóvember, stóðu Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu ásamt Samtökum atvinnulífsins, fyrir morgunfundi undir yfirskriftinni „Leiðir til að lækka vexti“, þar sem ræddar voru ýmsar leiðir sem stuðlað gætu að lægra vaxtastigi hér á landi til framtíðar.

Á fundinum kynnti Gunnar Haraldsson hagfræðingur skýrslu Intellecon á Þjóðhagslegum áhrifum og rekstrarumhverfi fjármálageirans á Íslandi. Meðal þess sem fram kom í skýrslunni er að skattgreiðslur íslenskra banka eru mjög háar í evrópsku samhengi, ekki síst vegna hárra sértækra skatta sem gilda um fjármálastarfsemi. Þrír sértækir skattar eru lagðir á fjármálafyrirtæki til viðbótar við önnur sértæk gjöld á fjármálafyrirtæki hér á landi og eru skattarnir bæði fleiri og hærri en tíðkast í nágrannaríkjum Íslands.

Í kynningunni kom fram að um 100 milljarðar króna hafi skilað sér til ríkis og sveitarfélaga af rekstri fjármálafyrirtækja í fyrra í formi skattgreiðslna og arðs af hlutafjáreign ríkisins í bönkunum. Þar af nema sértækir skattar og gjöld sem einungis eru lögð á fjármálafyrirtæki um 20,5 milljörðum króna á þessu ári. Fjárhæðin í heild samsvari um 34 milljónum króna á hvern starfsmann bankanna og sem er langt umfram meðaltal hjá öðrum atvinnugreinum í landinu.

Gunnar Haraldsson, hagfræðingur skýrslu Intellecon

Á sama tíma sé arðsemi eigin fjár af rekstri banka hér á landi undir því sem að jafnaði hafi verið í Evrópu og Bandaríkjunum á undanförnum árum og ýmist álíka eða heldur lægri en í viðskiptalífinu almennt hér á landi. Þá benti Gunnar einnig á í samhengi við afkomuna að bankar á Íslandi væru að mestu beint og óbeint í eigu almennings enda ættu ríkið og lífeyrissjóðir sameiginlega um 73% hlut í viðskiptabönkum á Íslandi.

Íslandsálagið

Í skýrslu Intellecon var lagt mat á svokallað Íslandsálag. Þar kemur fram að vegna hvers kyns álaga og skilyrða sem stjórnvöld hafa sett á rekstur bankanna, sem einu nafni eru nefnd Íslandsálag, kunni útlánavextir íslenskra viðskiptabanka að vera allt að 0,96-1,15 prósentustigum hærri af algengum lánum. Þessi tala er sett fram með þeim fyrirvara að áhrifin komi einungis fram í útlánavöxtum bankanna og er sú nálgun notuð til einföldunar. Gunnar minnti á í þessu samhengi að ákvörðun um vaxtakjör og aðra verðlagningu væri alltaf í höndum hvers lánveitenda fyrir sig. Í skýrslunni er einnig minnt á að áhrifin kunni að koma fram með öðrum leiðum s.s. niðurskurði kostnaðar eða þjónustu, minni arðgreiðslu til eigenda, lægri innlánsvöxtum og einnig geta áhrifin verið mismikil á útlánakjör einstakra banka. Þannig megi ætla að áhrifin skiptist að einhverju leyti milli viðskiptavina fjármálafyrirtækjanna og eigenda þeirra og áhrifin séu ólík hvort sem um er að ræða innlánsvexti, útlánsvexti eða önnur kjör. Gunnar sagði að væri þetta Íslandsálag reiknað miðað við 50 milljóna króna lán kunni viðbótarvaxtakostnaður að nema allt að 480-575 þúsund krónum á ári.

Hægt er að kynna sér efni skýrslunnar og kynningu Gunnars nánar hér.

Benedikt: Ný nálgun við fjármögnun íbúðarlána að norrænni fyrirmynd

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, hélt einnig erindi undir yfirskriftinni „Íslandsálag og leiðir til að lækka vexti á íbúðalánum“. Þar kynnti Benedikt leiðir sem hann taldi að myndu stuðla að lægra vaxtastigi hér á landi.

Benedikt benti á að líkindum næði Íslandsálagið til mun fleiri þátta en þeirra þriggja sem fjallað væri um í úttekt Intellecon. Einn þáttur í þeim efnum væru hömlur á uppgreiðslugjöldum lána, sem hefðu verið innleiddar í nafni neytendaverndar en leiddu meðal annars til þess að erfiðara en ella væri að bjóða lán á föstum vöxtum til langs tíma.

Benedikt sagði einnig frá því að matsfyrirtækið Moody‘s, hafi talið í tengslum við lánhæfismöt á íslenskum bönkum, að opinber umræða um bankana hér á landi, til að mynda af hálfu stjórnmálamanna, væri meðal sérstakra áhættuþátta í rekstrinum. Í því samhengi benti Benedikt á að álag á erlenda fjármögnun íslenskra banka væri mun hærra en lánshæfiseinkunnin gæfi tilefni til. Því skipti máli hvernig talað væri opinberlega um fjármálastarfsemi og sú umræða þyrfti að byggja á staðreyndum.

Þá talaði Benedikt einnig fyrir nýrri nálgun við fjármögnun íbúðalána að norrænni fyrirmynd. Hugmyndin væri að auðvelda útgáfu skuldabréfa í evrum til langs tíma samhliða gjaldeyrisskiptasamningum við íslensku lífeyrissjóðina. Slíkt væri til þess fallið að búa til ódýrari fjármögnun á íbúðalánum til almennings.

Bankar hvorki áhugamenn um víðtæka verðtryggingu eða háa vexti

Þá benti Benedikt á að hvorki verðtryggingin né háir vextir væru hagsmunamál fyrir banka, ólíkt því sem stundum mætti ætla á opinberri umræðu. Vextir sem bankar greiddu af sínum lánum hækkuðu einnig samhliða hækkandi vaxtastigi. Þá skapaði verðtryggingin ýmsar flækjur og áskoranir í rekstrinum sem hann sagðist frekar vilja vera án.

Því sagðist Benedikt fylgjandi því að leita leiða til að draga úr vægi verðtryggingarinnar hér á landi. Þá ættu íslenskir lífeyrissjóðir um 40% af öllum fjármunaeignum á Íslandi og væri kerfið enn í vexti. Ein leið sem mætti skoða er hvort áfram væri rétt að miða við verðtryggingu í tryggingafræðilegu uppgjöri lífeyrissjóða sem miðast við 3,5% raunávöxtun á ári. Margt hafi breyst frá því að lífeyrissjóðslögin voru sett árið 1997. Slík breyting myndi ekki hafa áhrif á réttindi þar sem tryggingafræðilegt uppgjör sem styðst við verðbólgureikningsskil búi ekki til réttindi, og ávöxtun sjóðanna muni áfram standa undir lífeyrisgreiðslum. Slíkt væri til þess fallið að búa til náttúrulega eftirspurn eftir löngum nafnvaxtaskuldabréfum í stað verðtryggðra og væri líklega stærsta einstaka skrefið sem hægt væri að taka til að draga úr vægi verðtryggingar á Íslandi.

Kynning Benedikts: Íslandsálag og leiðir til að lækka vexti á íbúðalánum

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka

Tækifæri í efnahagsumhverfinu til að stuðla að lækkun vaxta

Þá fjallaði Már Guðmundsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, um þróun vaxta í fortíð, nútíð og framtíð og umgjörð fjármálaþjónustu og fjármálakerfisins. Már sagði frá því að sögulega séð hefðu vextir verið á niðurleið á heimsvísu, hvort sem litið sé áratugi eða aldir aftur í tímann, og vísaði þar til tölfræði sem náði allt aftur til ársins 1311. Takmörk væru þó fyrir því hve lengi slík þróun gæti haldið áfram enda færu vextir almennt vart undir 0%.

Hvað varðar horfur hér á landi sagði Már að Seðlabankinn stefni að jafnaði að 1-2% jafnvægisraunvöxtum en þeir væru mun hærri nú um stundir sökum hárrar verðbólgu og þenslu í hagkerfinu. Ef hjöðnun ofþenslu og verðbólgu gengi vel á næstu misserum væri ekki óráðlegt að ætla að vextir gætu lækkað sem nemur fimm prósentum, svo lengi sem alþjóðleg þróun spilli ekki fyrir. Slíkt væri stærsta tækifæri til lækkun vaxta hér á landi.

Þá minnti Már á að eftirlit og eiginfjárkröfur væru nauðsynlegur hluti af fjármálastarfsemi og þyrfti að taka mið af aðstæðum í hverju landi á hverjum tíma. Þó væru líklega tækifæri til að draga úr kostnaði við slíkt eftirlit, til að mynda með því að nýta gervigreind og upplýsingatækni án þess að draga úr kröfum sem í eftirlitinu séu fólgnar. Enda sé einfaldara regluverki ekki hið sama og slakara regluverk.

Kynning Más: Vextir og umgjörð bankastarfsemi

Líflegar umræður í pallborði

Í kjölfarið mættu frambjóðendur stjórnmálaflokka til Alþingiskosninganna og ræddu sína framtíðarsýn fyrir fjármálaþjónustu hér á landi á næsta kjörtímabili og hvernig stuðla mætti að lækkun vaxta hér á landi til framtíðar. Hlýða má á upptöku af umræðunum sem og erindum framsögumanna í spilaranum hér að neðan.

Samtök atvinnulífsins