10. júní 2024

Leiðandi í að auka hæfni í atvinnulífinu

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Leiðandi í að auka hæfni í atvinnulífinu

Aðalfundur Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins (FA) var haldinn þann 5. júní. Á fundinum var m.a. farið yfir ársskýrslu FA sem nú er komin út á rafrænu formi hér .

Maj-Britt Hjördís Briem (SA) vék úr sæti stjórnarformanns í sæti varaformanns stjórnar og tók Bergþóra Hrönn Guðjónsdóttir (ASÍ) við stjórnarformennsku.

Í ársskýrslunni er að finna yfirlit yfir starfsemina og tölur yfir árangur starfsins. Alls fóru 644 einstaklingar í gegnum mat á raunfærni á vegum framhaldsfræðslunnar á árinu, 2.261 einstaklingar luku námi í námsleiðum FA og 9.444 ráðgjafarviðtöl um nám og störf fóru fram.

Árið einkenndist af framsækni, samvinnu og samstarfi við ýmsa hagaðila, þróun á verkfærum, kynningar á starfsemi FA og verkfærum hérlendis sem og erlendis. Mikið nýmæli varð við gerð kjarasaminga þar sem hæfnigreiningar og Fagbréf atvinnulífsins varð hluti af kjarasamingum verkafólks. Á vinnumarkaði sem tekur örum breytingum er mikilvægt að færni til starfa sé sýnileg og staðfest. Með hliðsjón af því voru samningsaðilar sammála um að fjölga þyrfti starfaprófílum í samráði við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, þar sem hæfniviðmið starfa eru greind með hæfnigreiningu, matslistar þróaðir fyrir störf, og í kjölfarið er hæfni staðfest með útgáfu Fagbréfa. Í kjarasamningunum eru ákvæði um hæfnilaunakerfi sem tengt er við Fagbréf atvinnulífsins og ferli þess við að draga fram viðurkennda hæfni fólks í starfi.

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins er í eigu ASÍ, SA, BSRB, Sambands íslenskra sveitarfélaga (SÍS) og fjármála- og efnahagsráðuneytisins (fjr) og er samstarfsvettvangur og verkfærasmiðja eigenda í fullorðins- og starfsmenntun á íslenskum vinnumarkaði. Framtíðarsýn FA er að vera leiðandi í að greina, meta og auka hæfni í atvinnulífinu.

Tengt frétt

Skortur á starfsfólki dragbítur á vöxt hagkerfisins
Lesa meira

Samtök atvinnulífsins