1 MIN
Kjósum með næsta vaxtarskeiði Íslands
„Það eru áratugir þar sem ekkert gerist og svo eru vikur þar sem áratugir gerast,“ á Vladimir Lenín að hafa sagt. Við hjá Samtökum atvinnulífsins leggjum það ekki í vana okkar að vitna til gamalla leiðtoga ráðstjórnarríkjanna sálugu, en meira að segja biluð klukka er rétt tvisvar á dag.
Við Íslendingar höfum tækifæri nú til að marka framtíð Íslands og næstu vikur skipta sköpum fyrir komandi ár. Ef græn orkuöflun, efnahagslegur stöðugleiki og samkeppnishæfni atvinnulífsins verða sett á dagskrá þann 30. nóvember þegar við göngum til kosninga, munum við um leið leggja grunninn að næsta vaxtarskeiði Íslands. Við ættum öll að geta verið samtaka um að grípa tækifærið.
Framtíðarsýnin er græn
Græn orka og grænar lausnir verða meginviðfangsefni þeirra sem vilja fylgja Íslandi í gegnum næsta vaxtarskeið. Tæplega þrír fjórðu allrar losunar gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu má rekja til orkunotkunar og því ljóst að stærsta loftslagsverkefni heimsins alls er orkuskipti.
Orkuskipti - en ekki að draga úr orkunotkun. Orka knýr áfram hagkerfi heimsins. Við sköpum engin verðmæti án orku. Orka er undirstaða hagsældar á heimsvísu og eftir því sem orkunotkun landa eykst, eykst landsframleiðsla og lífskjör batna.
Atvinnulífið hefur skýra sýn – við viljum ná árangri í loftslagsmálum og við viljum bæta lífskjör. Grunnforsenda þess að ná árangri er aukin græn hagkvæm orkuframleiðsla. Samkvæmt spá Landsnets sem miðar við full orkuskipti árið 2050 þá þarf að tvöfalda orkuframboð á Íslandi.
Við búum í dag við orkuskerðingar og fyrirséðan orkuskort. Sem betur fer hefur aukinn kraftur færst í orkumálin á ný, en virkjanir eru ekki byggðar á einum degi og við erum því í dag að borga fyrir margra ára aðgerðaleysi í orkumálum. Við þurfum þjóðarsátt um fjölbreytta framleiðslu á grænni hagkvæmri orku og raunhæfar og skýrar áætlanir um aukið framboð á næsta kjörtímabili. Til þess að svo megi verða þurfa stjórnmálin á stefnufestu að halda; skýrri sýn, lögum sem styðja við hana og raunverulegum aðgerðum í orkumálum.
Á næstu áratugum, samhliða áherslu á kolefnishlutleysi á heimsvísu verða til mörg hundruð milljónir nýrra starfa. Spurningin sem verður svarað í komandi kosningum er hversu mörg þeirra við viljum að verði til á Íslandi.
Fyrirtækin í landinu eru burðarás okkar góða samfélags. En til þess að það haldi áfram að vaxa og dafna þarf rekstrarumhverfið að standast alþjóðlegum keppinautum snúning.
Loforð um stöðugleika, ekki útgjaldaaukningu
Efnahagslegur stöðugleiki er forsenda þess að fólk og fyrirtæki geti gert framtíðaráætlanir sem halda. Undanfarna mánuði höfum við verið samtaka um að skapa skilyrði til þess að verðbólga minnki svo vextir geti lækkað. Mikilvægum árangri hefur þegar verið náð, verðbólga hefur lækkað markvert og vextir eru teknir að lækka. Við verðum að halda út og klára verkefnið. Það er ekki í boði að komandi kosningarnar snúist um innistæðulaus kosningaloforð eða skýjaborgir sem ýta upp verðbólguvæntingum.
Efnahagslegur stöðugleiki þýðir ríkisfjármál í jafnvægi og hann þýðir vinnumarkaður í jafnvægi. Hlutverk ríkissáttasemjara þarf að vera skýrt, að tryggja að launastefnu stefnumótandi kjarasamninga sé fylgt í öllum öðrum kjarasamningum. Sáttasemjari þarf síðan tól til þess að geta fylgt hlutverki sínu eftir. Undanfarin ár höfum við séð að laun á opinberum vinnumarkaði hafa tilhneigingu til að hækka meira en á almennum markaði og réttindi opinberra starfsmanna eru mun meiri en okkar hinna - slíkt gengur ekki til lengdar.
Engir sigurvegarar í keppninni um þyngsta regluverkið
Fyrirtækin í landinu eru burðarás okkar góða samfélags. En til þess að það haldi áfram að vaxa og dafna þarf rekstrarumhverfið að standast alþjóðlegum keppinautum snúning. Skattar skapa ekki verðmæti. Þvert á móti geta illa ígrundaðir skattar dregið úr verðmætasköpun og fjárfestingu.
Að baki hverju einasta fyrirtæki er hugrakkt fólk sem leggur mikið undir, hefur atvinnurekstur og býður vörur og þjónustu sem eftirspurn er eftir á hagkvæman hátt. Fyrirtækjarekstur er krefjandi verkefni sem lýkur ekki klukkan fimm á daginn – raunar lýkur því aldrei. Atvinnulífið vill skynsamlega og skilvirka skattlagningu.
Það er allra hagur að atvinnulífið búi við skýrar og góðar reglur. Úttektir og skýrslur sýna að meirihluti þess regluverks sem sett er á Alþingi og hefur áhrif á atvinnulífið er íþyngjandi. Þar að auki er stór hluti lagaumgjarðar atvinnulífsins EES reglur sem eru í þriðjungi tilfella innleiddar með meira íþyngjandi hætti en þarf. Ef reglur eru óþarflega íþyngjandi fylgja þeim hærri rekstrarkostnaður sem dregur úr samkeppnishæfni. Það er ekki að ástæðulausu að Evrópusambandið hefur sett af stað sérstakt átak sem á að draga úr skyldum um upplýsingagjöf fyrirtækja um 25%.
Það eru engir sigurvegarar í keppninni um þyngsta regluverkið. Við ættum frekar að beina kröftum okkar að því að sigra í keppninni um að skapa hér verðmæti og lífskjör. Atvinnulífið kallar eftir raunhæfum áætlunum um hvernig stjórnmálaflokkar hyggjast draga úr reglubyrði á Íslandi á næsta kjörtímabili. Þann 30. nóvember næstkomandi ganga landsmenn að kjörkössunum og kjósa um sína framtíð – það er von atvinnulífsins að þar verði grunnurinn lagður að næsta vaxtarskeiði Íslands.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu þann 25. október 2024.