28. nóvember 2024

Jafnlaunavottun - mikill kostnaður, lítill ávinningur

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Jafnlaunavottun - mikill kostnaður, lítill ávinningur

Samtök atvinnulífsins framkvæmdu í annað sinn könnun meðal félagsmanna sinna um reynslu þeirra af jafnlaunavottun. Könnunin fór fram dagana 12. september til 16. október 2024. Alls svöruðu 598 fyrirtæki könnuninni sem gaf 32,1% svarhlutfall.

Fyrri könnunin var framkvæmd árið 2021 en er nú komin umtalsvert meiri reynsla af framkvæmd jafnlaunavottunar. Auk þess er hægt að bera ferli jafnlaunavottunar saman við ferli jafnlaunastaðfestingar, sem fyrirtækjum með 25-49 starfsmenn er heimilt að undirgangast í stað jafnlaunavottunar. Af þeim sem var heimilt að velja jafnlaunastaðfestingu hjá Jafnréttisstofu, í stað jafnlaunavottunar, kusu 62% staðfestingu í stað vottunar.

Almennt neikvætt viðhorf

Viðhorf fyrirtækja gagnvart innleiðingunni er nokkuð afgerandi neikvætt samkvæmt könnuninni en einungis 22% þeirra sem svöruðu töldu ávinninginn af ferlinu vera meiri en kostnaðinn.

Mikillar neikvæðni gætti jafnframt gagnvart ferlinu í opnum svörum atvinnurekenda þar sem yfirgnæfandi meirihluti svarenda veitti ferlinu neikvæða endurgjöf. Þar kom helst fram að ferlið væri kostnaðarsamt, framkvæmdin væri erfið og tímafrek, þjónaði ekki tilgangi miðað við eðli fyrirtækjanna, samræmdist illa framkvæmd kjarasamninga, úttektir væru of tíðar, erfitt væri að umbuna framúrskarandi starfsfólki óháð kyni og að vottunin ætti að vera valkvæð. Þó voru einhverjir jákvæðir gagnvart ferlinu og töldu staðalinn geta hjálpað fyrirtækjum að auka formfestu í launaákvörðunum.

Meðal jákvæðra áhrifa af innleiðingunni voru jákvæðari ímynd fyrirtækisins (29%) og ánægðara starfsfólk (22%). Athygli vakti þó að einhverjir töldu innleiðinguna hafa neikvæð áhrif á ímynd fyrirtækisins (5%) og töldu starfsfólkið óánægðara (11%) vegna hennar.

Um 40% svarenda taldi ákvarðanir um laun í fyrirtækinu verða betri eftir ferlið og 45% töldu að aðhald í launabreytingum hefði aukist eftir að hafa gengið í gegnum ferlið.

Kostnaður við innleiðingu

Spurt var hver raunkostnaður við ferlið hefði verið hjá fyrirtækjunum. Samkvæmt eigin mati fyrirtækjanna var kostnaðurinn að meðaltali 2,7 milljónir króna, lægsta gildið var 200 þúsund á meðan hæsta gildið var 20 milljónir króna. Kostnaðurinn var mismunandi eftir því hvort um var að ræða jafnlaunastaðfestingu, jafnlaunavottun eða endurnýjun vottunar en ekki var skýr fylgni milli stærðar fyrirtækis og kostnaðar. Meðalkostnaðurinn var mestur hjá fyrirtækjum með 50-149 starfsmenn.

  • Af þeim sem voru að innleiða jafnlaunastaðalinn var raunkostnaður 7,6 m.kr. að meðaltali. 
  • Af þeim sem voru að innleiða jafnlaunastaðfestingu var raunkostnaður 2,7 m.kr. að meðaltali. 
  • Af þeim sem voru að endurnýja jafnlaunavottunina var raunkostnaður 2,1 m.kr. að meðaltali 

Miðað við þann fjölda fyrirtækja sem þegar hefur hlotið jafnlaunavottun eða -staðfestingu má gera ráð fyrir að beinn kostnaður atvinnulífsins hlaupi þegar á um 5-6 milljörðum króna miðað við eigin mat fyrirtækjanna. Enn á nokkur fjöldi fyrirtækja eftir að undirgangast vottun eða staðfestingu auk þess sem áframhaldandi kostnaður hlýst af viðhaldi vottunar. Þá er ekki ljóst að hve miklu leyti kostnaður vegna tíma eigin starfsfólks er reiknaður inn í mat fyrirtækjanna.

Aðgreining á kostnaði við ferlið gefur til kynna að aðkeypt ráðgjöf og þjónusta sérfræðinga standi fyrir stórum hluta kostnaðarins en 45% svarenda höfðu varið einni milljón eða meira í aðkeypta ráðgjöf og þjónustu vegna innleiðingarinnar.

Kostnaður við hugbúnaðarkerfi er nokkru minni en 53% svarenda greiddu 500 þúsund krónur eða minna fyrir hugbúnað vegna innleiðingarinnar.

Um helmingur svarenda greiddi minna en milljón krónur fyrir þriggja ára samning við vottunaraðila.

Notkun á tíma

Fyrir flesta svarendur tók ferlið minna en 12 mánuði. Þó tók ferlið lengri tíma en áætlað var í nær helmingi tilvika.

Fyrirtækin voru beðin um að meta áætlaðan fjölda árs-stöðugilda í fyrirtækinu í vinnu við ferlið. Meirihluti, eða 58%, áætluðu að um minna en ¼ úr árs-stöðugildi væri að ræða og enginn taldi þurfa meira en 1 og ½ árs stöðugildi við vinnuna. Það hvort fyrirtæki hafi áætlað þennan kostnað sem hluta af raunkostnaði við innleiðingu liggur ekki ljóst fyrir og gæti því verið um vanmat á endanlegum kostnaði fyrirtækjanna að ræða í þeim tilvikum sem kostnaður vegna eigin starfsfólks var ekki reiknaður til raunkostnaðar.

Önnur atriði

Í ferlinu töldu flestir að mikil áhersla væri lögð á skjölun gagna og að vinnubrögð væru í samræmi við ISO staðla. Þá töldu 35% svarenda að vottunaraðili legði áherslu á kröfur umfram þær sem staðallinn gerir.

Þær kröfur sem vottunaraðilar gerðu umfram staðalinn fólust helst í framkvæmd innri úttekta, verklagsreglum, tiltekinni framkvæmd launagreininga (aðhvarfsgreiningu, útlagagreiningu) eða flokkun starfa á tiltekinn hátt.

Samtök atvinnulífsins