25. september 2024

Nýr forstöðumaður málefnasviðs SA

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Nýr forstöðumaður málefnasviðs SA

Ísak Einar Rúnarsson er tekinn til starfa

Ísak Einar Rúnarsson hefur verið ráðinn nýr forstöðumaður málefnasviðs Samtaka atvinnulífsins. Ísak hóf störf 1. september síðastliðinn. Hann tekur við starfinu af Páli Ásgeiri Guðmundssyni, en Páll verður samtökunum áfram innan handar sem ráðgjafi í stjórnsýslu.

Ísak er með BA gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands, MBA gráðu frá Dartmouth háskóla og MPA gráðu frá Harvard háskóla.

Ísak kemur til samtakanna frá alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækinu Boston Consulting Group. Áður starfaði hann hjá Alþjóðamálastofnuninni í Róm, á hagfræðisviði Viðskiptaráðs og sem blaðamaður á Viðskiptablaðinu. Þá var hann forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands á háskólaárum sínum.

„Það er frábært að fá tækifæri til að starfa í þágu íslensks atvinnulífs og samfélags alls, í samvinnu við allt það góða fólk sem starfar hjá samtökunum. Ísland hefur verið í örum vexti undanfarin ár, hvort sem litið er til fólksfjölda eða efnahags. Samtök atvinnulífsins hafa mikinn slagkraft og við þurfum að beita okkur fyrir því að hagsæld aukist enn og tækifærum haldi áfram að fjölga,“ segir Ísak.

„Við hjá Samtökum atvinnulífsins njótum krafta öflugs starfsfólks í hverju hlutverki. Við munum leggja áherslu á efnahagslegan stöðugleika, samkeppnishæfan útflutningsgeira, mannauðinn, tæknina, græna orku og grænar lausnir á komandi misserum. Við bjóðum Ísak velkominn og vitum að hann mun ekki láta sitt eftir liggja á þeirri vegferð,“ segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Samtök atvinnulífsins