25. nóvember 2024

Hver eru áhrif tekjuskattsbreytinga?

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Hver eru áhrif tekjuskattsbreytinga?

Nú þegar styttast fer í úrslit þessa óvæntu kosninga og flestir flokkar hafa kynnt sín áherslumál er vert að horfa fram á veginn. Hófleg skattheimta er undirstaða velferðar framtíðarinnar en lykilatriði næstu stjórnar verður að nýta skattfé með góðum hætti.

Samtök atvinnulífsins hafa útbúið reiknivél sem sýnir áhrif breytinga á tekjuskattskerfinu á tekjur hins opinbera. Í reiknivélinni má velja um nokkur fyrirfram gefin dæmi eða skapa sitt eigið skattkerfi. Hægt er að skoða áhrif breytinganna á tekjur hins opinbera, tekjur einstaklinga og skattbyrði eftir tekjuhlutföllum.

Reiknivélin tekur ekki tillit til afleiddra áhrifa af breytingunum á aðra skattstofna eða þess hvernig hegðun einstaklinga breytist þegar sköttum er breytt. Sem dæmi má nefna að lækkun skatta hefur almennt jákvæð áhrif á hagvöxt, sem mildar áhrifin af tekjutapi ríkissjóðs vegna skattalækkana. Á sama hátt hafa skattahækkanir öfug áhrif, þ.e. draga úr hvata til verðmætasköpunar og skila því gjarnan minni tekjum en áætlað er. Þessa hvata þarf að hafa í huga þegar breytingar á skattkerfi eru lagðar til.

Þó reiknivélin sé ekki fær um að meta öll áhrif breytinga á kerfinu getur hún gefið grófa mynd af áhrifum tillagna að breytingum á tekjuskattskerfinu út frá sjónarhóli hins opinbera, hvort sem um ræðir breytingar á persónuafslætti, þrepamörkum eða skatthlutföllum.

Í reiknivélinni er einnig hægt að meta áhrif breytinganna út frá einstaklingnum sem greiðir skatt, skoða hvar sá einstaklingur lendir í tekjustiganum. Reiknivélin metur ekki önnur launatengd gjöld, né metur hún umfang millifærslukerfisins. Því geta ráðstöfunartekjur einstaklinga verið aðrar en reiknivélin segir til um.

Ath. Það getur tekið smá tíma fyrir reiknivélina að birtast.

*Niðurstöðurnar eru reiknaðar niður á tekjuhópa, en ekki einstaklinga, og því er ekki hægt að taka tillit til samsköttunar eða samnýtingar persónuafsláttar. Einnig ber að geta þess að gögn um tekjur eru frá 2023 á meðan reiknivélin endurspeglar tekjuskattskerfið eins og það er á árinu 2024.

Samtök atvinnulífsins