1 MIN
Hver er raunveruleg færniþörf á vinnumarkaði?
Niðurstöður úr Gallup könnun kunngjörðar
Menntadagur atvinnulífsins var haldinn í tíunda sinn í dag undir yfirskriftinni Færniþörf á vinnumarkaði.
Á fundinum kynntu SA og aðildarsamtök greiningu á eftirspurn eftir vinnuafli þvert á atvinnugreinar í því augnamiði að skilgreina hvaða aðgerðir eru nauðsynlegar svo vinnuaflsskortur, hvort sem um er að ræða hæfni og færni eða einfaldlega í fjölda vinnandi handa, verði ekki til þess að vöxtur í atvinnu- og efnahagslífi verði minni en ella hefði orðið.
Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, kynnti niðurstöðurnar í öflugu erindi um færniþörf á vinnumarkaði.
„ Aðgerðir í mennta- og fræðslumálum er varða námsframboð, breytingar varðandi dvalar- og atvinnuleyfi erlends starfsfólks og öðru sem aukið gæti sveigjanleika á íslenskum vinnumarkaði gagnast best ef ákvörðunin er byggð á áreiðanlegum gögnum. Marktæk spá um færniþörf er þar lykilatriði .“ - sagði hún meðal annars í erindi sínu
Dagskrá dagsins var fjölbreytt en á meðal þeirra sem komu fram, ásamt Önnu Hrefnu voru:
- Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra
- Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra
- Fjöldi atvinnurekenda og mannauðsstjóra þvert á atvinnugreinar tjáðu sig um færniþörf síns geira og framtíð menntamála á Íslandi
- Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, veitti loks menntaverðlaun atvinnulífsins venju samkvæmt þeim fyrirtækjum sem hafa staðið sig vel á sviði fræðslu- og menntamála. Bláa lónið er Menntafyrirtæki ársins og Vaxtarsprotar OR hlutu Menntasprota ársins.
Menntadagur atvinnulífsins er samstarfsverkefni Samorku , Samtaka ferðaþjónustunnar , Samtaka fjármálafyrirtækja , Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi , Samtaka iðnaðarins , Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka atvinnulífsins .
Hér má horfa á upptöku af fundinum: