Vinnumarkaður - 

30. maí 2020

Hlutabótaleið framlengd til 31. ágúst 2020

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Hlutabótaleið framlengd til 31. ágúst 2020

Alþingi hefur samþykkt framlengingu á hlutabótaleiðinni svokölluðu til 31. ágúst næstkomandi. Heimilt verður að greiða bætur á móti 25 prósent starfshlutfalli í júní og 50 prósent starfshlutfalli í júlí og ágúst. Gerð er sú krafa að tekjur atvinnurekanda eftir 15. mars 2020 hafi dregist saman um a.m.k. 25 prósent samanborið við eitt af tímabilum sem tilgreind eru í lögunum.

Alþingi hefur samþykkt framlengingu á hlutabótaleiðinni svokölluðu til 31. ágúst næstkomandi. Heimilt verður að greiða bætur á móti 25 prósent starfshlutfalli í júní og 50 prósent starfshlutfalli í júlí og ágúst. Gerð er sú krafa að tekjur atvinnurekanda eftir 15. mars 2020 hafi dregist saman um a.m.k. 25 prósent samanborið við eitt af tímabilum sem tilgreind eru í lögunum.

Auk forsendu um tekjusamdrátt er gert ráð fyrir ýmsum skilyrðum svo heimilt verði að greiða launamönnum atvinnuleysisbætur á grundvelli þessa úrræðis, t.d.:

  • Atvinnurekandi hafi ekki eftir 1. júní 2020 ákvarðað úthlutun arðs, lækkun hlutafjár með greiðslu til hluthafa eða kaup eigin hluta, innt af hendi aðra greiðslu til eiganda á grundvelli eignaraðildar hans, greitt óumsaminn kaupauka, greitt af víkjandi láni fyrir gjalddaga eða veitt eiganda eða aðila nákomnum eiganda lán eða annað fjárframlag sem ekki varðar öflun, tryggingu eða viðhald rekstrartekna eða greitt eigendum sínum eða æðstu stjórnendum mánaðarlaun sem nema hærri fjárhæð en 3.000.000 kr. til hvers og eins. Hann jafnframt skuldbindi sig til þess að gera enga framangreinda ráðstöfun fyrir 31. maí 2022.

  • Atvinnurekandi hafi staðið í skilum með launatengd gjöld og opinber gjöld á þeim degi er launamaður sækir um atvinnuleysisbætur samkvæmt ákvæðinu eða tilkynnir um áframhaldandi nýtingu á rétti sínum til atvinnuleysisbóta.

  • Atvinnurekandi hafi staðið skil á skattframtali og fylgigögnum þess, þ.m.t. skýrslu um eignarhald á CFC-félagi, sbr. 10. gr. reglugerðar um skattlagningu vegna eignarhalds í lögaðilum á lágskattasvæðum, nr. 1102/2013, og öðrum skýrslum og skilagreinum, svo sem staðgreiðsluskilagreinum og virðisaukaskattsskýrslum, til Skattsins síðastliðin þrjú ár áður en umsókn barst eða síðan hann hóf starfsemi ef það var síðar. Að auki skal hann, eftir því sem við á og á sama tímabili, hafa staðið skil á ársreikningum, sbr. lög um ársreikninga, nr. 3/2006, og upplýst um raunverulega eigendur, sbr. lög um skráningu raunverulegra eigenda, nr. 82/2019.

Uppfært ákvæði laganna má finna hér.

SA skiluðu ásamt SI, SAF, SVÞ og SFS umsögn um frumvarpið sem nálgast má hér.

Samtök atvinnulífsins