Efnahagsmál - 

25. september 2019

Grænir skattar

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Grænir skattar

Það er eðlilegt að skattheimta þjóni í auknum mæli loftslagsmarkmiðum. Stjórnvöld hafa beitt svokölluðum grænum sköttum til að hafa áhrif á hegðun og gera umhverfisvæna kosti fýsilegri. Nái slík skattheimta að draga úr neyslu óumhverfisvænna kosta mun hún skila minni tekjum til framtíðar. Það er því mikilvægt að hið opinbera sé ekki háð tekjum af slíkri skattheimtu til að fjármagna grunnþjónustu.

Það er eðlilegt að skattheimta þjóni í auknum mæli loftslagsmarkmiðum. Stjórnvöld hafa beitt svokölluðum grænum sköttum til að hafa áhrif á hegðun og gera umhverfisvæna kosti fýsilegri. Nái slík skattheimta að draga úr neyslu óumhverfisvænna kosta mun hún skila minni tekjum til framtíðar. Það er því mikilvægt að hið opinbera sé ekki háð tekjum af slíkri skattheimtu til að fjármagna grunnþjónustu.

Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er áætlað að grænir skattar skili 56 milljörðum króna. Er það rúmlega fjórum milljörðum meira en árið á undan og fimmtán milljörðum meira en fimm árum fyrr. Undir þá samtölu falla vörugjöld á ökutæki og bensín, bifreiðagjald, olíugjald, kílómetragjald, kolefnisgjald og aðrir umhverfisskattar, þ.m.t. nýir skattar á urðun og F-gös.

Vegakerfið hefur hingað til verið fjármagnað að meginþorra með ofantöldum sköttum á eldsneyti og bifreiðar, en nú þegar árangur er að nást þá fjarar undan skattheimtunni. Frá árinu 2010 hefur fjöldi vistvænna bíla meira en tólffaldast. Á sama tíma hafa tekjur ríkisins af eldsneytis- og vörugjöldum á hverja bifreið helmingast á föstu verðlagi. Við blasir áframhald á þessari þróun enda miðar aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum að því að banna nýskráningar bensín- og díselbíla eftir 2030. Vegakerfið þarf samt áfram að fjármagna og því eðlilegt að veggjöld komi til umræðu. Slík gjaldtaka er þó í grunninn ný skattheimta og hljóta því aðrir almennir skattar að lækka til mótvægis, enda skattheimta mikil á Íslandi.

Grænar skatttekjur eru að vaxa um nokkra milljarða ár frá ári þrátt fyrir t.a.m. verulega fjölgun vistvænna bíla. Um leið og svonefndir grænir skattar eru orðnir tekjuöflunartæki fyrir hið opinbera þá hefur tilgangurinn eitthvað skolast til. Það væri því til bóta ef stjórnvöld birtu bókhald yfir ráðstöfun grænna skatttekna og myndu þannig stuðla að auknu gagnsæi skattkerfisins.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 19. september 2019.

Samtök atvinnulífsins