1 MIN
Fyrirtækin og velferðin
Snemma á þessu ári gerðu Samtök atvinnulífsins og verkalýðsfélögin kjarasamning með hóflegum launahækkunum sem gildir til loka janúar 2028. Með þessu var lagður grunnur að lækkun verðbólgu og vaxta. Þetta hefur þegar gengið eftir að hluta.
Að auki er tryggður friður á almennum vinnumarkaði. Fyrirtækin búa við ákveðinn fyrirsjáanleika og geta tekið ákvarðanir um fjárfestingar og uppbyggingu, vöruþróun og markaðssókn án þess að búa við óvissu um launaþróun.
Kjarasamningar hins opinbera hljóta einnig að taka mið af þessu og óhugsandi er að launaþróun á þeim markaði verði önnur en í almennu kjarasamningunum.
Samningarnir hafa einnig í för með sér ákveðna vissu fyrir rekstur ríkis og sveitarfélaga sem geta gert sínar áætlanir á sömu forsendum og almennt gilda.
Verðmætasköpunin
Hagsæld byggir á þeim verðmætum sem verða til í atvinnulífinu. Hagur fólks og fjölskyldna batnar ekki til lengri tíma nema með aukinni verðmætasköpun. Á þetta leggja allar þjóðir áherslu. Við hljótum því að leggja áherslu á stöðugar framfarir, rannsóknir og nýsköpun. Fjárfesting í atvinnulífinu er nauðsynleg og því verður að búa fyrirtækjunum sambærileg rekstrarskilyrði og best geta orðið. Án þessa er hætta á stöðnun sem býður upp á afturför í samanburði við aðrar þjóðir sem sækja stöðugt fram.
Grundvöllur þess að unnt sé að sækja fram er að fyrirtækin eigi aðgang að raf- og hitaorku á samkeppnishæfu verði. Sama hvort um er að ræða hótel, fiskeldi, framleiðslu eða þjónustu hvers konar; uppbygging án orku er ekki möguleg. Brýnasta verkefnið sem blasir við er að auka orkuframleiðslu í landinu og koma í veg fyrir orkuskort. Það verða að auki engin umfangsmikil orkuskipti án þess.
Það er engin leið heldur að auka skattheimtuna, Ísland er þegar háskattaland og hærri skattar verða einungis til þess að draga úr getu atvinnulífsins til fjárfestinga og nýsköpunar og hefur því neikvæð áhrif á verðmætasköpun. Um leið dregur úr getu þjóðfélagsins til að bæta hag fólks til lengri tíma.
Íslenskt atvinnulíf byggir á auðlindum landsins til sjávar og sveita, hugviti fólks og frumkvæði þess.
Fyrirtækin
Íslenskt atvinnulíf byggir á auðlindum landsins til sjávar og sveita, hugviti fólks og frumkvæði þess . Um margt hefur okkur tekist vel til. Öflug menntun, stuðningur við rannsóknir og nýsköpun og skynsamleg endurnýjanleg nýting náttúruauðlinda hefur tryggt að við búum í velferðarríki í fremstu röð.
Um þetta má finna dæmi um allt land í öllum atvinnugreinum.
Sjávarútvegurinn er öflugri en nokkru sinni, hagræðing og fjárfesting hefur skilað þjóðfélaginu miklum ábata. Samvinna sjávarútvegsfyrirtækja við fyrirtæki í öðrum greinum skapar gríðarleg verðmæti og stundum óvænt. Hverjum gat dottið í hug að samvinna sjávarútvegs og fólks í heilbrigðis- og næringargreinum myndu finna afurðir sem seljast fyrir milljarðatugi um heim allan og hafa skapað frumkvöðlum góðan arð af vinnu sinni og hugviti.
Fyrirtæki sem tengjast heilsu fólks vaxa hratt og ánægjulegt er að fylgjast með vexti fyrirtækja sem fyrir nokkrum árum voru einungis til á tilraunastofu en eru nú skráð á verðbréfamarkað bæði hér og erlendis.
Hugverkaðiðnaður blómstrar einnig og mörg fyrirtæki hafa sýnt ótrúlega seiglu við að koma upp útibúum í nálægum löndum og að þjónusta viðskiptavini um víða veröld.
Fiskeldi er sérstakur kapítuli og mun á næstu árum skapa gríðarleg útflutningsverðmæti og er þegar orðið mikilvægur þáttur í matvælaframleiðslu og útflutningi matvæla hér á landi.
Það er einnig gaman að fylgjast með framþróun ferðaþjónustunnar sem er smám saman að breytast í atvinnugrein sem þjónar viðskiptavinum sínum allt árið. Það sama gildir hér og annars staðar, það eru fyrst og fremst einstaklingar og heimamenn sem standa fyrir uppbyggingunni á hverjum stað.
Það er hlutverk stjórnvalda að tryggja að rekstrarumhverfi fyrirtækjanna sé þannig að þau nái að blómstra.
Rekstrarskilyrðin
Það er hlutverk stjórnvalda að tryggja að rekstrarumhverfi fyrirtækjanna sé þannig að þau nái að blómstra. Að skattar séu hóflegir og sambærilegir því sem best gerist, að reglur séu ekki séríslenskar og íþyngjandi um of. Að frumkvöðlar og fjölskyldur sem leggja allt undir til að byggja upp arðvænlegan rekstur fái að njóta afrakstursins þegar vel gengur.
Takist þetta munu fyrirtækin skila auknum tekjum til ríkis og sveitarfélaga og þannig styrkja undirstöður velferðarþjónustunnar og tryggja að Ísland verði enn um sinn í fremstu röð.
Þessi grein birtist fyrst í Morgunblaðinu þann 31. desember.