1 MIN
Frambjóðendur í fjársjóðsleit
Frægasti faldi fjársjóður okkar Íslendinga er vafalaust silfur Egils Skallagrímssonar. Sagan segir að Egill hafi farið í skjóli nætur ásamt tveimur þrælum og falið silfrið, en til þrælanna spurðist ekki meir og talið er að Egill hafi myrt þá til að ekki myndi spyrjast út hvar það væri niður komið.
Í gegnum tíðina hafa margir hugsað sér gott til glóðarinnar og freistað þess að finna fjársjóð Egils til að öðlast frægð og frama, svo ekki sé talað um fullar kistur fjár. Til dæmis var leit hleypt af stokkunum í kjölfar þess að kona ein sagði Egil hafa vitjað sín í draumi árið 2008. Silfrið hefur þó enn ekki fundist.
Fjársjóðsleit á Íslandi einskorðast þó ekki við silfur Egils, heldur er annarra falinna fjársjóða nú leitað í síauknum mæli. Fer sú leit einkum fram meðal frambjóðenda til Alþingis sem sumir telja að þá megi finna í vösum skattgreiðenda. Margir hafa talið sig geta fundið digra sjóði með sértækri skattlagningu á fjármálafyrirtæki, sem reyndar hefur fyrst og fremst skilað hærri vöxtum en fyrir þessar kosningar hafa sjónir beinst að auðlindagreinum. Þar eru helst reifaðar hugmyndir um sértæka nýja eða hærri skatta á sjávarútveg, fiskeldi, orkuinnviði og ferðaþjónustu sem eiga að skila ríkissjóði tugmilljarða tekjum.
Sjávarútvegur
Í dag er innheimt sértækt veiðigjald af sjávarútvegi umfram hefðbundna skatttöku. Veiðigjaldið nemur 33,3% af hagnaði í fiskveiðum en undanfarið hafa hugmyndir verið reifaðar um að hækka það í 45%. Í dag er því samtals verið að greiða um 58% af hagnaði í fiskveiðum í skatta en yrði á bilinu 70-85% ef hugmyndir um hækkun veiðigjalds ná fram að ganga. Sjávarútvegurinn greiðir því nú þegar há sértæk auðlindagjöld og raunar eru Íslendingar heimsmethafar í skattlagningu hans, grein sem víðast hvar í heiminum nýtur ríkisstyrkja.
Aukin og sértæk skattlagning á orkuframleiðslu myndi draga úr hvötum til þess að fara í nauðsynlegar fjárfestingar og hægja á orkuskiptum á Íslandi, þvert á þverpólitísk markmið Íslands í loftslagsmálum.
Fiskeldi
Sjókvíaeldi er ung grein á Íslandi sem hefur vaxið fiskur um hrygg á síðustu árum. Áður fyrr voru gerðar nokkrar tilraunir til þess að hefja laxeldi hér á landi en það gekk ekki eftir. Nú er blessunarlega að takast vel til í uppbyggingu, en því miður hefur sú mýta grafið um sig að fiskeldið greiði lítið til sameiginlegra sjóða. Það er rangt. Íslensk fiskeldisfyrirtæki greiða í dag há auðlindagjöld. Þau greiddu til að mynda 643 milljónir í auðlindagjöld á síðasta ári en hefðu ekki greitt nema 76 milljónir væru þau rekin í Noregi – áttfalt hærra gjald á Íslandi en í Noregi, helsta samkeppnislandi Íslendinga í þessum geira.
Orkuinnviðir
Fyrir liggur að töluverð uppbygging þarf að eiga sér stað í orkuframleiðslu og dreifingu á Íslandi næstu áratugina. Áætluð fjárfestingaþörf er um 800 milljarðar króna til að standa straum af orkuskiptum á Íslandi. Fjárfesting í orku var vanrækt í meira en áratug þar til fyrst nýlega að eitthvað fór að hreyfast. Aukin og sértæk skattlagning á orkuframleiðslu myndi draga úr hvötum til þess að fara í nauðsynlegar fjárfestingar og hægja á orkuskiptum á Íslandi, þvert á þverpólitísk markmið Íslands í loftslagsmálum.
Falda fjársjóði er ekki að finna í auðlindadrifnum greinum, heldur eru þær ásamt hugverkaiðnaði hinir sönnu fjársjóðir þjóðarinnar.
Ferðaþjónusta
Á ferðaþjónustu eru nú þegar lagðir sértækir skattar sem til stendur að hækka í fjárlögum næsta árs, með hækkuninni er gert ráð fyrir að ferðaþjónustan greiði gistináttaskatta og innviðagjöld sem nema 5,8 milljörðum á næsta ári til viðbótar við almenna skatta. Þá leggur hið opinbera á ýmis gjöld tengd einstaka ferðamannastöðum, svo sem bílastæðagjöld í þjóðgörðum. Í ofanálag verður að teljast einkennilegur tímapunktur nú að reifa hugmyndir um nýja gjaldtöku af ferðaþjónustu í ljósi þess að undanfarið ár eða svo hefur greinin átt á brattann að sækja. Ljóst er að ferðamenn eru frekar að stytta dvalartíma sinn og draga úr neyslu en að auka við sig. Ný og aukin gjaldtaka á greinina kynni því að breyta krefjandi stöðu í afar erfiða, með slæmum áhrifum fyrir þjóðarbúið.
Fjársjóðir sem skemmast ef of greitt er gengið á þá
Allar þær greinar sem svokölluð auðlindagjöld myndu ná til greiða nú þegar sértæka skatta, sem eru hærri en í helstu samkeppnislöndum, eða þurfa að fara í miklar fjárfestingar á næstu árum. Falda fjársjóði er ekki að finna í auðlindadrifnum greinum, heldur eru þær ásamt hugverkaiðnaði hinir sönnu fjársjóðir þjóðarinnar. Of mikil skattlagning getur orðið til þess að glutra niður þessum fjársjóðum ef hún dregur úr svigrúmi til nauðsynlegra fjárfestinga eða getu til að keppa á alþjóðlegum mörkuðum. Gjörvulegra væri að styrkja umhverfi þessara greina svo þær geti vaxið áfram og skilað þar með meiri hagsæld og skatttekjum, okkur öllum til hagsbóta.