07. maí 2024

FFR og Sameyki semja um stöðugleika 

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

FFR og Sameyki semja um stöðugleika 

Langtímasamningur hefur verið undirritaður milli Samtaka atvinnulífsins, Isavia, Félags flugmálastarfsmanna ríkisins og Sameykis. Byggir samningurinn á Stöðugleikasamningnum sem undirritaður var í mars við meirihluta félaga á almennum vinnumarkaði. Samningurinn gildir frá 1. febrúar 2024 til 1. febrúar 2028.

Tengt frétt

Stöðugleikasamningur í höfn
Lesa meira

„Samningurinn felur í sér sömu launahækkanir og samið var um í Stöðugleikasamningnum. Við náðum jafnframt árangri í því að samræma ákveðin atriði hjá þeim félögum sem að honum standa og hagræðingu fyrir Isavia byggt á innanhússtillögu frá ríkissáttasemjara, því þurfa bæði félög að samþykkja hann til þess að hann haldi gildi sínu,“ segir Sigríður Margrét Oddsdóttir framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Stöðugleikasamningurinn styður markmið samningsaðila um minnkun verðbólgu og lækkun vaxta. Af því leiðir að kaupmáttur eykst, aukinn fyrirsjáanleiki verður í efnahagslífinu, dregið er úr verðbólguvæntingum og samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs styrkist. Slíkur stöðugleiki er eitt stærsta hagsmunamál heimila og fyrirtækja á óvissutímum.

„Verðbólga er á niðurleið og verðbólguvæntingar eru lægri núna en þær voru fyrir ári síðan. Það má því færa rök fyrir því að raunstýrivextir séu ansi háir og það hlýtur því að styttast í að vaxtalækkunarferli Seðlabankans hefjist. Þessi samningur er liður í því að skapa efnahagslegar aðstæður sem styðja við það,“ segir Sigríður Margrét enn fremur.

Samtök atvinnulífsins