05. desember 2024

Fagbréf atvinnulífsins lykilatriði á vinnumarkaði

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Fagbréf atvinnulífsins lykilatriði á vinnumarkaði

Ársfundur FA, Frá færni til vottunar – í námi, starfi og samfélagi , var haldinn miðvikudaginn 13. nóvember s.l. á Grand hótel og í streymi og tóku yfir 130 manns þátt í fundinum. Fundurinn var haldinn í samstarfi við NVL – Norrænt tengslanet um nám fullorðina, undir yfirskriftinni Frá færni til vottunar – í námi, starfi og samfélagi.

Á fundinum var lögð áhersla á „Fagbréf atvinnulífsins,“ verkfæri sem hefur verið þróað af Fræðslumiðstöð atvinnulífsins í samstarfi við Samtök atvinnulífsins (SA), Alþýðusamband Íslands (ASÍ) og Samtök iðnaðarins (SI). Vorið 2024 voru ákvæði um hæfnilaunakerfi innleidd í kjarasamninga, meðal annars í samningi Starfsgreinasambands Íslands (SGS), Eflingar og VR/LÍV við SA sem tók gildi 1. febrúar 2024.

Markmið nýs hæfnilaunakerfis er að skapa hlutlægt mat á störfum, auka fjölda þátta sem litið er til við launasetningu og koma á skýrum viðmiðum fyrir launasetningu og starfsþróun. Með nýju kerfi fær starfsfólk og atvinnurekendur öflugt tæki í hendur sem hefur góð áhrif á starfsþróun, gagnsæi í launasetningu, starfsánægju og betra vinnuumhverfi.

Sigurður Kristinn Guðmundsson og Noelinie Namayanja fengu viðurkenningu.

Til fyrirmyndar

Á ársfundinum fengu fyrirmyndir í námi fullorðinna viðurkenningu en þau voru tvö að þessu sinni, Noelinie Namayanja og Sigurður Kristinn Guðmundsson sem voru bæði vel að henni komin með árangri sínum. Viðurkenningin er veitt árlega þeim einstaklingum sem hafa bætt stöðu sína á vinnumarkaði með verkfærum framhaldsfræðslunnar og sýnt framúrskarandi árangur.

Noelinie, er tilfnefnd af Fræðslunetinu á Suðurlandi. Hún kom til Íslands frá Úganda árið 2013, Haustið 2015 skráði hún sig í Íslensku II. Haustið 2018 skráði Noelinie sig í nám á Félagsliðabrú eftir viðtal hjá náms- og starfsráðgjafa Fræðslunetsins. Það sama haust skráði hún sig líka í Menntastoðir. Hún lauk 28 einingum í Menntastoðum vorið 2019 og útskrifaðist sem félagsliði frá Fræðslunetinu vorið 2020. Noelinie hefur lokið fjöldamörgum námskeiðum fyrir sjúkraliða hjá Framvegis og þetta haustið er hún skráð á 3 námskeið. Haustið 2020 hóf Noelinie nám á sjúkraliðabrú við Fjölbrautarskólann í Breiðholti og útskrifaðist sem sjúkraliði í desember 2022. Samhliða félagsliðanáminu var Noelinie að vinna á hjúkrunarheimili á Seltjarnarnesi en í dag starfar hún á Landsspítala, Grensásdeild.

Í umfjöllun á heimasíðu Fræðslumiðstöðvarinnar segir að Noelinie hafi sýnt framfarir í námi og haldið ótrauð áfram og fylgt þeim markmiðum sem hún setti sér. Hún hafi látið drauma sína rætast, lært íslensku, farið í nám og náð sér í starfsréttindi. Hún hafi sýnt mikla seiglu og er því verðugur fulltrúi sem fyrirmynd í námi fullorðinna. Á ársfundinum deildi hún vegferð sinni í námi og sagði frá því að markmið hennar sé að læra hjúkrun.

Sigurður er tilnefndur af Mími, símenntun. Hann er fertugur og starfar hjá Krónunni. Hann hóf framhaldskólanám að loknum grunnskóla en missti áhugann og hætti. Í kjölfarið ályktaði hann að skólaganga væri ekki fyrir sig og fór út á vinnumarkaðinn og hefur unnið við verslunarstörf síðastliðin 20 ár. Á síðasta ári fékk Sigurður kynningu á raunfærnimati í verslun og þjónustu í Krónunni þar sem slíkt mat stóð starfsfólki til boða. Það kveikti áhuga hans og tók hann þátt í raunfærnimatinu hjá Mími. Hann fann fyrir stuðningi og áhuga í ferlinu sem lauk með fagbréfi sem staðfestir þekkingu hans og kunnáttu eftir tuttugu ár í verslunarstarfi. Á ársfundi FA hvatti Sigurður aðra til að nýta sér tækifærið og fá þessa mikilvægu viðurkenningu.

Saga fyrirmyndanna endurspeglar upplifun fjölmargra fullorðinna sem sækja námsleiðir, raunfærnimat og önnur verkfæri framhaldsfræðslunnar. Mikilvægt er að fullorðnir eigi möguleika á að hefja nám að nýju og fái viðeigandi stuðning til þess að fá hæfni og reynslu metna. Samtök atvinnulífsins óskar þeim báðum innilega til hamingju með viðurkenninguna.

Upptöku af fundinum má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

Samtök atvinnulífsins