1 MIN
Er gjáin djúp og breið?
Beintenging bóta almannatrygginga við þróun launavísitölu er óskynsamleg
„Þótt hagur flestra hafi farið að vænkast eftir hrun sátu örorkulífeyrisþegar eftir – og gera enn… Í dag er gjáin milli greiðslna almannatryggingar og almennrar launaþróunar orðin svo djúp að eldra fólk og öryrkjar eru dæmd til sárafátæktar.“ Þessa staðhæfingu má finna í nýlegri grein félags- og húsnæðismálaráðherra á Vísi. Tilefni greinarinnar var fyrirliggjandi frumvarp þess efnis að framvegis skuli beintengja bætur almannatrygginga við þróun launavísitölu.
Skoðum nokkur atriði í þessu samhengi, til dæmis hvers konar gjá um ræðir. Á þar síðasta löggjafarþingi bárust fyrirspurnir til annars vegar félags- og vinnumarkaðsráðherra og hins vegar fjármála- og efnahagsráðherra um það hvernig bætur almannatrygginga hefðu þróast í samanburði við laun og verðlag. Svör beggja ráðherra sýndu að frá aldamótum höfðu bætur almannatrygginga hækkað tvöfalt meira en verðlag og um 18% umfram laun. Gjáin milli bóta og launa liggur því ekki í þá átt sem ráðherra heldur fram.
Hvernig má þetta vera og hvert er þá tilefni fyrirliggjandi frumvarps? Núgildandi lög kveða nú þegar á um að við ákvörðun bóta almannatrygginga skuli taka mið af launaþróun, þó þannig að bæturnar hækki aldrei minna en verðlag. Lögin fela þannig í sér tvöfalda tryggingu, sem launafólk nýtur ekki. Til viðbótar við þessa lögbundnu tvöföldu tryggingu hafa stjórnmálamenn reglulega, með sértækum ákvörðunum, hækkað bætur enn frekar.
Ef lögin kveða nú þegar á um að miða skuli við launaþróun, hví þá ekki að skýra ákvæðið og nota einfaldlega launavísitölu? Fyrir því eru fjölmargar ástæður. Í greinargerð með frumvarpinu sjálfu er varað sérstaklega við því að tvöfalda tryggingin geti leitt til tvöfaldrar hækkunar bóta í tilviki verðbólguskots, þar sem vísitala neysluverðs hækkar verulega og launavísitala fylgir í kjölfarið (s.s. eftir fjármálahrun). Í öðru lagi hækkar hlutfall þess hluta fjárlaga sem tekur sjálfvirkum breytingum, óháð stöðu ríkissjóðs eða efnahagsaðstæðum hverju sinni. Um fimmtungur á fjárlögum er hér undir. Fremur ætti að draga úr vægi sjálfvirkrar útgjaldaaukningar hjá ríkissjóði ef standa á vörð um sjálfbærni ríkisrekstrar. Metið er að heildaráhrif þeirra breytinga sem í frumvarpinu felast muni auka útgjöld ríkissjóðs um 3-4 milljarða árlega. Síðast en ekki síst er vakin athygli á því að viðbúið er að verðbólguþrýstingur aukist þar sem breytingin nær til fjölmenns hóps, eða um og yfir 60 þúsund manns.
Fleiri fróðleiksmola er að finna í áðurnefndu svari fjármálaráðherra þar sem útlistað er af hverju tekin var meðvituð ákvörðun um það á sínum tíma að beintengja bætur almannatrygginga ekki við þróun launavísitölu þar sem löggjafanum þótti það ,,ekki ráðlegt”. Skynsamlegra þótti að horfa til kjarasamningsbundinna launahækkana en viðhalda jafnframt einhverju svigrúmi til að meta hvaða viðmið um launaþróun væri viðeigandi í samhengi við efnahagsaðstæður hverju sinni. Við mat á ,,launaþróun“ hefur almennt verið miðað við áætlaða meðalhækkun launataxta í kjarasamningsbundnum launabreytingum á almennum vinnumarkaði. Hafa ber í huga að launavísitalan hækkar iðulega umfram kjarasamningsbundnar launabreytingar, enda inniheldur hún hækkanir sem tengjast t.d. starfsþróun og öðrum einstaklingsbundnum þáttum. Eins og fram kemur í svari fjármálaráðherra ,,á ekki við“ að reikna slíkar breytingar inn í bætur almannatrygginga ,,enda eru þær ekki laun fyrir vinnuframlag”.
Ósjálfbær þróun launavísitölu hefur raunar lengi verið sjálfstætt efnahagslegt vandamál á Íslandi og óskiljanlegt að ríkisstjórnin telji skynsamlegt að beintengja fimmtung fjárlaga við slíka þróun. Fyrir þá sem er annt um rekstur ríkissjóðs væri nærtækara að ráðast í löngu tímabærar breytingar á umgjörð vinnumarkaðarins. Fyrirliggjandi frumvarp gerir hins vegar lítið annað en að binda í lög að bætur almannatrygginga, sem þegar hafa hækkað umfram launavísitölu, skuli sannarlega gera það áfram - algjörlega óháð stöðu ríkissjóðs eða vinnumarkaðar hverju sinni. Þessi breyting mun draga úr hvata til atvinnuþátttöku, stuðla að ósjálfbærri útgjaldaaukningu ríkissjóðs og valda auknum verðbólguþrýstingi. Erfitt er að sjá að slík breyting samræmist vel áherslum nýrrar ríkisstjórnar um aukna framleiðni, sjálfbæran ríkisrekstur og minnkun verðbólgu. Enda gerir hún það ekki.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. mars 2025