16. september 2024

Breytingar á innri markaði Evrópu

Eyjólfur Árni Rafnsson

1 MIN

Breytingar á innri markaði Evrópu

Innri markaði Evrópu var komið á á níunda áratug síðustu aldar og felur í sér hið svokallaða fjórfrelsi. Í því felst að fólk, vörur, þjónusta og fjármagn geti farið hindrunarlaust um öll ríki Evrópusambandsins. Íslendingar gerðust aðilar að innri markaðnum með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið sem tók gildi fyrir um 30 árum þann 1. janúar 1994.

Miklar breytingar hafa orðið síðan innri markaðnum var komið á fót bæði á efnahagsstarfsseminni, með fjölgun aðildarríkja ESB og ekki síst á samkeppnisstöðu Evrópu þegar horft er til annarra svæða eins og Bandaríkjanna og Kína.

Því ákvað leiðtogaráð ESB að gera úttekt á innri markaðnum, þróun hans og framtíð. Til verksins var fenginn fyrrum forsætisráðherra Ítalíu Enrico Letta og skilaði hann skýrslu sinni í apríl síðastliðnum. Skýrslan mun án efa hafa víðtæk áhrif og skila sér í breytingum á löggjöf innri markaðarins en einnig hér á landi vegna aðildar okkar að EES samningnum.

Evrópusambandið er mikilvægasti markaður Íslands hvort sem litið er til inn- eða útflutnings. Því skiptir máli að fylgjast með fyrirhuguðum breytingum og nýta tækifæri sem kunna að gefast til að efla samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja.

Í skýrslunni er lagt til að fjórfrelsið verði útvíkkað og til komi fimmta stoðin sem felist í frjálsu flæði þekkingar, rannsókna, nýsköpunar og menntunar. Hér geta skapast tækifæri fyrir fyrirtæki m.a. á sviði heilbrigðistækni, lífvísinda og nýtingu auðlinda t.d. úr hafinu með aðgangi að samstarfi um rannsóknir og nýsköpun.

Lögð er áhersla á að virkja samstarf opinberra aðila og einkageirans um sameiginlega fjármögnun m.a. um uppbyggingu innviða (e. public-private partnership) og samstarf um stafræna þróun.

Í skýrslunni telur Enrico Letta nauðsynlegt að innri markaðurinn styðji við stækkun og vöxt evrópskra fyrirtækja þannig að þau verði samkeppnishæf við risafyrirtæki á öðrum svæðum. Hér er meðal annars átt við fyrirtæki í fjarskiptageiranum, fjármála- og orkufyrirtæki. Í þessu skyni er mikilvægt að ekki séu lagðar óhæfilegar byrðar á lítil og meðalstór fyrirtæki heldur fái þau einnig tækifæri til að njóta ávinnings af eflingu innri markaðarins.

Nauðsynlegt er að draga úr skrifræði og tryggja að einstök ríki beiti ekki strangari kröfum en nauðsynlegt er og að draga úr svokallaðri gullhúðun regluverksins. Þetta stuðlar að samræmdri framfylgd reglna innri markaðarins og tryggir samkeppnishæfni Evrópskra fyrirtækja við þau sem eru á öðrum svæðum. Loks þarf að tryggja að tekið sé tillit til umhverfisþátta (græn umskipti) við lagasetningu.

Skýrsla Enrico Letta er hvatning til íslenskra stjórnvalda að fylgjast vel með þannig að íslenskt atvinnulíf njóti ávaxtanna af þeim breytingum sem tillögur hans hafa í för með sér án þess að búa við þá áráttu að reglur séu innleiddar meira íþyngjandi en nauðsynlegt er. Gæta verður hagsmuna fyrirtækja sem hér eru langflest minni en gengur og gerist í nálægum ríkjum Evrópu.

Með augun á samkeppnishæfni atvinnulífsins og fyrirtækjanna má bæta möguleika þeirra til rannsókna, nýsköpunar og fjárfestinga þannig að allir njóti góðs af.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu, 14. september

Eyjólfur Árni Rafnsson

Formaður Samtaka atvinnulífsins