22. október 2024

BM Vallá og Kapp hrepptu verðlaunin

Sjálfbærni

Umhverfismál

Sjálfbærni

Umhverfismál

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

BM Vallá og Kapp hrepptu verðlaunin

Umhverfisfyrirtæki og -framtak atvinnulífsins 2024

Umhverfisverðlaun atvinnulífsins voru tilkynnt við hátíðlega athöfn á Umhverfisdegi atvinnulífsins í dag. Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA, afhenti verðlaunin ásamt verðlaunahöfum fyrra árs. Umhverfisfyrirtæki ársins er BM Vallá en framtak ársins á sviði umhverfismála á KAPP.

Það er ljóst á þeim fjölda tilnefninga sem bárust inn til Umhverfisverðlauna atvinnulífsins að umhverfis- og loftslagsmál eru órjúfanlegur hluti af daglegum rekstri og ákvarðanatöku fyrirtækja á Íslandi. Fjölmargar umsóknir bárust og fjöldi fyrirtækja vinna ötult starf á þessu sviði.

Í dómnefnd Umhverfisverðlauna atvinnulífsins sitja formaður dómnefndar, Reynir Smári Atlason, CreditInfo, Elma Sif Einarsdóttir, Stiku umhverfislausnum og Jóna Bjarnadóttir, Landsvirkjun.

BM Vallá

Umhverfisfyrirtæki ársins 2024

BM Vallá framleiðir hágæða byggingarvörur fyrir mannvirkjagerð, má þar helst nefna steinsteypu, forsteyptar húseiningar, hellur og múrvörur.

Umhverfismál og sjálfbær nýting auðlinda er rauður þráður í starfsemi BM Vallá sem hefur sett sér það markmið að verða umhverfisvænasti steypuframleiðandi landsins með því að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum, efla hringrásarhugsun og stuðla að aukinni sjálfbærni. Markvisst er stefnt að því að starfsemi og steypuframleiðsla BM Vallár verði kolefnishlutlaus árið 2030.

Fyrirtækið er með skýra umhverfisstefnu og forgangsröðun sem miðar meðal annars að því að taka ábyrgð á losun steypunnar í gegnum alla virðiskeðjuna. Markviss fræðsla og innri hvatar (umhverfisátak/keppni) hafa stuðlað að mælanlegum árangri í daglegum rekstri.

Markmið um kolefnishlutleysi í starfseminni kallar á markvissa vöruþróun og nýsköpun ásamt breytingum á verkferlum og metnaðarfullum mótvægisaðgerðum svo hægt verði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í öllu sem viðkemur framleiðslu og rekstri fyrirtækisins.

Það er forgangsverkefni hjá BM Vallá að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum steypu með því að nota vistvænna sement ásamt því að draga úr notkun þess. Sementshlutinn er um 85-90% af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í starfsemi fyrirtækisins og er það því forgangsmál að bjóða upp á nýjar tegundir steypu sem eru með vistvænna sementi.

Mikil gróska og nýsköpun hefur átt sér stað hjá fyrirtækinu með samstarfsaðilum um vistvænni lausnir í mannvirkjagerð. Fyrirtækið vinnur í samstarfi við birgja og þjónustuaðila við að ná settu marki og hefur það nú þegar skilað vistvænna sementi inn á markað hér á landi. Nú þegar getur fyrirtækið boðið viðskiptavinum sínum upp á Berglindi, vistvænni steypu, sem er með allt að 45% minna kolefnisspor en hefðbundin steypa samanborið við steypu samkvæmt kröfu byggingarreglugerðar.

Nýjar steypu uppskriftir með umhverfisvænna sementi skipta lykilmáli í vöruframboði fyrirtækisins. Þannig styður vegferð BM Vallár við framkvæmdaraðila á byggingarmarkaði sem vilja umhverfisvænni lausnir.

Slagorð fyrirtækisins „Byggjum vistvænni framtíð“ endurspeglar stefnu fyrirtækisins í umhverfismálum, þar sem lögð er áhersla á sjálfbærni og þróun endingargóðra vara fyrir komandi kynslóðir.

Stefna BM Vallá í vistvænni hönnun mannvirkja endurspeglar ekki aðeins umhverfislega ábyrgð heldur einnig fjárhagslegan ávinning, bætt lífsgæði og náttúruvernd. Með skapandi hugsun og sjálfbærum lausnum hefur fyrirtækið sýnt fram á hæfni sína til að stuðla að sjálfbærari framtíð.

Þorsteinn Víglundsson, forstjóri BM Vallár, þakkaði verðlaunin og þá viðurkenningu sem í þeim fælist „ Við erum þakklát fyrir þennan heiður sem er til marks um að áherslur okkar í umhverfismálum séu eftirtektarverðar og hafi skilað raunverulegum árangri. Þennan árangur eigum við öflugu starfsfólki, viðskiptavinum og samstarfsaðilum að þakka sem deila þeirri sýn að breyta þurfi nálgun við hönnun og byggingu mannvirkja. Samnefnari þeirra áherslna er metnaður, drifkraftur og þor til að leiða fram breytingar þar sem umhverfisvænni lausnir gegna lykilhlutverki. Að vera valin umhverfisfyrirtæki ársins er mikil hvatning til að gera enn betur í þróun lausna sem hafa jákvæðari umhverfisáhrif. Við hlökkum til að halda áfram til að leggja okkar af mörkum til að byggja vistvænni framtíð ,“ sagði Þorsteinn.

KAPP

Umhverfisframtak ársins 2024

KAPP er tæknifyrirtæki sem sérhæfir sig í kæliþjónustu, vélasmíði, innflutningi og þjónustu á tækjabúnaði fyrir sjávarútveg, fiskeldi og annan iðnað. Í 25 ár hefur fyrirtækið framleitt OptimICE® krapavélar fyrir sjávarútveg sem notaðar eru í bátum og skipum af nánast öllum stærðum við fjölbreyttar veiðar víða um heim.

OptimICE® krapakerfið kemur í staðinn fyrir hefðbundinn flöguís. Krapaísinn er framleiddur úr sjóvatni eða saltvatni bæði um borð og í landvinnslu. Fljótandi krapaísinn umlykur fiskinn og kælir hann fljótt niður fyrir frostmark og heldur hitastiginu í kringum -0.5°C. Þannig helst hitastigið meðan á veiðiferðinni stendur, við löndun, við flutning til framleiðslu og til neytanda, án þess að frjósa. Hraðkælingin, sem er um 10x hraðari en kæling með flöguís, tryggir ferskleika og hámarksgæði afurðarinnar. Hillutíminn eykst um 5-7 daga. Hraðkælingin minnkar myndum baktería umtalsvert auk þess sem OptimICE® ískrapinn er framleiddur í lokuðu kerfi án snertingar við utanaðkomandi óhreinindi.

Nú er komin ný krapavél, sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum, sem nýtir koldíoxíð sem kælimiðli í stað F-gasa með mjög háan hlýnunarmátt. Vélin er hönnuð og framleidd af KAPP ehf í höfuðstöðvum þess við Turnahvarf í Kópavogi.

Krapavélin er nýjung sem stuðlar að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda með því að skipta út kælimiðlum með mjög mikinn hlýnunarmátt. Auk sjávarútvegs eru möguleikar á að nýta krapavélina til kælingar í annarri matvinnslu eins og í kjúklingavinnslu og stærri bakaríum.

Samtök atvinnulífsins