1 MIN
Ávarp formanns á Ársfundi atvinnulífsins 2024
Forsætisráðherra, ráðherrar, góðir félagar og gestir nær og fjær,
Að baki er drjúgt hálft ár frá því Samtök atvinnulífsins og þorri verkalýðsfélaga á almennum vinnumarkaði undirrituðu svonefndan stöðugleikasamning sem gildir til janúarloka 2028. Helstu markmið samningsins eru að ná niður verðbólgu og stuðla að lækkun vaxta. Seinna markmiðið á enn eftir að raungerast en hálft ár er nú ekki langur tími í þessu samhengi, hér þarf þolinmæði.
Verðbólga hefur heldur minnkað og mælist nú 6,0% en án húsnæðisliðar um 3,6%. Áhrif húsnæðisliðar er áhyggjuefni, þrátt fyrir hátt vaxtastig hefur verð á fasteignum hækkað umtalsvert umfram verðlagsþróun á seinustu 12 mánuðum. Þessu veldur fyrst og fremst of lítið framboð nýrra íbúða inn á markaðinn og líklega eru of fáar lóðir tilbúnar til uppbyggingar þó nóg sé af álitlegum byggingasvæðum.
Stýrivextir Seðlabankans hafa nú verið óbreyttir í meira en ár eða 9,25% og hafa án efa áhrif á afkomu margra heimila og fyrirtækja. Verðbólguvæntingar hafa verið hærri en vonast hefur verið eftir og hægt hefur dregið úr einkaneyslu. Á fyrri hluta þessa árs dróst landsframleiðslan saman og er skýringar að finna m.a. í loðnubresti. Vegna þessa m.a. og á meðan raunvextir haldast háir má búast við að dragi úr fjárfestingu í atvinnulífinu. Til lengri tíma dregur það úr verðmætasköpuninni og getu fyrirtækja til að standa undir launahækkunum.
Í þessu samhengi eru kjarasamningar til næstu fjögurra ára mikilvægir, þeir skapa festu og stöðugleika. En samhliða verður að auka framboð húsnæðis, þar er framboðsskorturinn fíllinn í herberginu. Ennfremur þarf að sýna aukið aðhald í ríkisbúskapnum því kjarasamningarnir duga ekki til einir og sér. Þess er vænst að verðbólga minnki enn frekar á næstunni og að Seðlabankinn geti hafið lækkun vaxta innan tíðar. Óþolinmæði má ekki ráða för núna.
Í áratugi hafa Íslendingar virkjað jarðhita og vatnsafl til farsældar fyrir þjóðina. Íslenska orkukerfið er eitt hið umhverfisvænasta sem finna má. Við höfum búið við gott raforkuöryggi og hagstætt verð á raforku um langan tíma. Græn orka hefur laðað að fjárfestingar á fjölmörgum sviðum og þannig skapað verðmæti, störf og velferð fyrir samfélagið. Íslenskt atvinnulíf hefur lagt áherslu á sjálfbæra nýtingu auðlinda til lands og sjávar og haft umhverfismál í hávegum um langa hríð.
En nú hefur ríkt pattstaða um orkuöflun í meira en áratug. Skammta hefur þurft rafmagn, tækifæri til verðmætasköpunar hafa glatast og að auki verður erfiðara að ná settum markmiðum um orkuskipti og í loftslagsmálum. Verðmæti tapast, hagvöxtur verður minni en ella, hagur fólks líður fyrir og það sama á við um afkomu ríkissjóðs og sveitarfélaga.
Að koma verkefnum af undirbúningsstigi til framkvæmda er erfitt og full flókið. Smám saman hefur skriffinnska verið aukin, leyfisveitingar ganga fram og til baka, allt er kært og það er nánast útilokað að sjá fyrir hve langan tíma getur tekið þar til öll leyfi eru til staðar um einstakar framkvæmdir frá því undirbúningur þeirra hófst. Þrátt fyrir góð orð stjórnvalda um einföldun regluverks og leyfisveitingaferla þá hefur miðað hægt, hér verðum við að gera betur. Við megum ekki gleyma að öll atvinnustarfsemi þarf orku hvort sem eru hótel, fiskeldi, gagnaver, iðnfyrirtæki stór og smá, framleiðsla matvæla eða alls kyns þjónusta að ógleymdum heimilum landsmanna. Þó að nú hilli undir að kyrrstaða í orkumálum hafi verið rofin þá megum við ekki við bakslagi.
Svo það sé endurtekið þá hefur þetta leitt til þess að erfitt getur orðið að ná settum markmiðum um minnkandi losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi sem reyndar er ein sú minnsta í allri Evrópu þegar hún er sett í samhengi við landsframleiðslu. Markmið um orkuskipti verða hjóm eitt við þessar aðstæður og ef það er hugsun einhverra að ná þeim markmiðum sem og markmiðum um kolefnisjöfnun með því að hrekja atvinnustarfsemi frá okkur þá verður erfitt að halda uppi þeim lífskjörum hér sem við höfum vanist undanfarna áratugi. Það verður að virkja því ekki viljum við sem ein umhverfisvænasta þjóð í Evrópu þegar litið er til orkunotkunar verða í þeirri stöðu að þurfa að auka innflutning á jarðefnaeldsneyti enn frekar eða kaupa losunarheimildir frá ríkjum sem standa okkur langt að baki í framleiðslu grænnar orku.
Viðskiptakerfi ESB um losunarheimildir gerir fyrirtækjum að draga úr losun og kaupa viðbótarheimildir á markaði ef þau ná ekki tilteknum markmiðum. Markmið kerfisins er að hvetja til umhverfisvænni framleiðsluferla og lausna en það er auðvelt að færa rök fyrir því að hönnun kerfisins þarfnist úrbóta. Það er svo að umhverfiskröfur sem settar hafa verið í Evrópu og tilheyrandi álögur á fyrirtæki hafa þrengt verulega að starfsemi margra þeirra með þeim afleiðingum að ýmis framleiðsla hefur færst til annarra heimshluta þar sem umhverfiskröfur eru minni eða jafnvel engar. Heildar niðurstaðan er til skaða fyrir umhverfi og loftslag heimsins því engin þjóð getur verið eyland í þessum málum.
Á þessum vettvangi hefur gjarnan verið fjallað um gullhúðun regluverks þar sem opinberar stofnanir beita áhrifum sínum til að lög og reglur verði meira íþyngjandi en í nálægum löndum og leggi þar með meiri byrðar á fyrirtækin og allan almenning en nauðsynlegt er. Sterk tilhneiging er til þess að leggja talsvert þyngri byrðar á lítil fyrirtæki hér á landi en annars staðar vegna þess hve fá þau fyrirtæki eru hérlendis sem ná stærðarmörkum sem sett eru í löggjöf ESB til að flokkast sem meðalstór eða stór fyrirtæki.
Þetta nær þó ekki einungis til lagasetningar sem leiðir af aðild okkar að EES heldur einnig til heimagerðra laga- og reglugerðasetningar, innanlands gullhúðunar, sem leggja of oft stein í götu auðlindanýtingar og aukinnar verðmætasköpunar íslensku samfélagi til hagsældar. Það er af mörgu að taka frá undanförnum árum en sem dæmi vil ég nefna lög um skeldýrarækt sem sett voru fyrir um 13 árum síðan og svo þekkta afleiðingu þeirra. Á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins árið 2012 segir svo í ræðu forvera míns um þá nýlega sett lög um skeldýrarækt: „ Kræklingarækt er í grunn afar einföld og felst í því að leggja kaðla í sjó og bíða eftir því að kræklingar festi sig þar á og vaxi upp í tiltekna stærð. En það þarf eftirlit þriggja aðila; Fiskistofu, Landhelgisgæslu og Matvælastofnunar með starfseminni undir stjórn ráðherra. Tilraunaleyfi eru veitt til að hámarki 6 ára og um þau fjalla Fiskistofa, viðkomandi sveitarstjórn, Matvælastofnun, Landhelgisgæslan, Hafrannsóknastofnun, Siglingastofnun, Umhverfisstofnun, Orkustofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands. Svo þarf að sækja um ræktunarleyfi að loknu tilraunatímabili og þá þurfa sömu aðilar að fjalla um málið að nýju. Að sjálfsögðu er allur kostnaður innheimtur hjá umsækjanda. Hvenær sem er má afturkalla leyfin af ýmsum ástæðum. Þegar þetta er hugleitt er miklu nær að kalla þetta lög um bann við skeldýrarækt. Það er erfitt að sjá fyrir að þessi lög verði til að hvetja til fjárfestingar á þessu sviði.“ Þetta er lýsandi dæmi um hvernig eftirlitsaðilar og stofnanir tryggja vald sitt og ég rifja þetta upp hér vegna þess að nú, 12 árum frá því þessi orð voru sögð, hefur verið birt skýrsla ráðherra um skeldýrarækt þar sem fram kemur að framleiðsla í greininni er nánast að engu orðin og öll leyfi sem í gildi voru við lagasetninguna hafa runnið út án endurnýjunar. Það er þó bót í máli að ráðherra hefur lýst því að staðan sé óviðunandi og að stefnumótun sé hafin fyrir atvinnugreinina. Ég legg til að í þeirri stefnumótun verði gluggað í þessa ræðu, orsökinni fyrir dauða greinarinnar er þar vel lýst. Þessi dæmisaga er því miður lýsandi fyrir margt reglugerða- og lagaverkið hérlendis og áhrifin á íslenskt atvinnulíf og samfélag. Ég óska þess að við hverfum frá svona íþyngjandi hugsun.
Svo ég hverfi frá frekari umfjöllun um þungt laga- og reglugerðarverk að bjartari tíð þá stefnum við í átt að betra jafnvægi í þjóðarbúskapnum – það dregur úr spennu á vinnumarkaði, verðbólga fer minnkandi og líkur eru á að vaxtalækkunarferli hefjist innan tíðar. Þrátt fyrir stormasamt tímabil hafa undirstöðuútflutningsgreinar landsins sýnt af sér ótrúlega seiglu og þjóðarbúið stendur á flesta mælikvarða styrkum stoðum í sögulegu og alþjóðlegu samhengi. Horft fram á veg er lykilatriði að ná tökum á húsnæðismálunum og við munum áfram þurfa að vera vakandi fyrir þróun mála utan landsteinanna en alþjóðlegar efnahagshorfur eru tvísýnar, ekki síst vegna áframhaldandi stríðsátaka.
Fyrir hönd allra þeirra sem sitja í stjórn og starfa hjá Samtökum atvinnulífsins þá þakka ég fyrirtækjum okkar og öllum okkar hagaðilum fyrir samstarfið á síðastliðnu starfsári. Ennfremur þakka ég starfsfólki SA og annarra samtaka í Húsi atvinnulífsins fyrir gott og gefandi samstarf. Á þessu starfsári munum við halda ótrauð áfram að vera málsvari íslensks atvinnulífs og styðja fyrirtæki til verðmætasköpunar svo þau geti haldið áfram að vera burðarás samfélagsins.
Að lokum.
Hér á sviðinu sjáum við tákn um okkar dýrasta djásn, orkuna okkar, og ég ætla, fyrir hönd íslensks atvinnulífs, að afhenda orkuna til stjórnvalda og biðla til þeirra um að skapa heilbrigðan jarðveg sem nærir grænar lausnir og skapa jákvætt og hvetjandi umhverfi fyrir fyrirtæki og fólk til þess að virkja orkulindir okkar öllum til góðs.
Frá atvinnulífinu er loforð um að halda áfram á þeirri vegferð að leiða grænar lausnir. En það dugir lítið að tala um loforð ef ekki kemur til framkvæmda.
Á borðunum hér í salnum og frammi og á vefnum okkar má sjá greinargott gagn sem Samtök atvinnulífsins tóku saman um stöðuna í orku- og loftslagsmálum sem ber heitið Orka er undirstaða hagsældar . Ég hvet ykkur til að lesa það spjaldanna á milli. Þar greinum við stöðuna og bjóðum fram lausnir við þeim áskorunum sem blasa við okkur í dag.
Stjórnvöld og hugsjónafólk úr atvinnulífinu hefur á undanförnum áratugum byggt upp þá stöðu að Ísland er í dag í forystu meðal þjóða í grænum lausnum og sjálfbærri nýtingu auðlinda. Við skulum halda þessari forystu okkar um ókomna tíð.
Takk fyrir.