29. september 2022

„Lífskjör fólks haldi áfram að batna“

Eyjólfur Árni Rafnsson

1 MIN

„Lífskjör fólks haldi áfram að batna“

Góðir félagar

Sá er hér stendur er fæddur og uppalinn í sveit, átti lengst af heima í Holti, jörð vestan Fjaðrárgljúfurs sem gat á góðviðrisdögum verið leikvangur okkar barnanna. Á jörðinni var tvíbýlt og talsverður barnaskari sem varð enn fjölmennari á sumrin. Ef okkur sinnaðist, sem kom fyrir, var ekki um að ræða að flýja stöðuna með því að fá skutl í bíó eða í annan vinahóp. Friðar- og samningaumleitanir voru því óumflýjanlegar ef dagurinn átti að verða skemmtilegur. Það kenndi manni að bera virðingu fyrir skoðunum og sýn annarra og einnig það hvað hrein og bein samskipti eru mikilvæg til að ná niðurstöðu öllum til hagsbóta. Á þessum bæjum var Morgunblaðið og Tíminn keyptur og voru bæði blöðin lesin upp til agna. Af lestrinum lærði maður að helsta leiðin til að rétta af efnahag landsins væru gengisfellingar. Af samtali þeirra fullorðnu skildi maður að þetta væri líklega illskásta lausnin í stöðunni en að á henni græddi samt enginn. Orðið verðbólga var mér ekki tamt á þessum árum en það lærðist síðar þegar hún varð um og yfir 80% á ársgrundvelli og ekki hjá komist að taka eftir þeim hamförum. Þrátt fyrir mörg þúsund prósenta launahækkanir yfir þessi nær 20 ár jókst kaupmáttur launa ekkert. En aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld réðust í sameiningu að rót vandans og nú höfum við í góð 30 ár búið við ágætan efnahagslegan stöðugleika, lága verðbólgu og launahækkanir sem hafa skilað margföldun á kaupmætti, mest til þeirra lægst launuðu. Nú er verðbólgan komin aftur, sem betur fer enn innan tveggja stafa tölu, en nógu slæm samt því áhrif verðbólgu á landsmenn alla hafa ekkert breyst á þessum 30 árum. Það er því áhyggjuefni þegar umræðan er á þeim nótum að verðbólgan sé eingöngu innflutt eða vegna húsnæðisliðar vísitölunnar en ekki einnig vegna þeirra ákvarðana sem við tökum dags daglega, m.a. af aðilum vinnumarkaðarins.

Við höfum í gegn um margar aldir mótað hér á landi friðsælt og gott samfélag þar sem fólk umgengst hvert annað af virðingu og tillitssemi. Einstaklingar fá að njóta sín og skapa sér eigin aðstæður innan þess ramma sem almenn lög og reglur setja. Öfgar njóta lítils stuðnings og eru yfirleitt litin hornauga þótt að seinni misserin virðist sem svo að hávært suð samfélagsmiðla yfirgnæfi of oft opin, heilbrigð og jákvæð skoðanaskipti. Smám saman hafa lífskjör allra batnað, jafnrétti aukist, ævi okkar lengst og jafnt og þétt sækjum við fram á flestum sviðum. Fólk nýtir tækifæri til að stofna fyrirtæki, býður nýjar lausnir og þegar vel tekst til skapar sjálfu sér og öðrum arðbær störf og hagnað. Við eigum fjölmörg dæmi um einstaklinga sem hafa auðgast af eigin frumkvæði og framtakssemi þar sem rannsóknir og nýsköpun leggja grunn að velsæld þeirra og leggur að auki ómælt til samfélagsins með sköttum og margs konar framlagi.

Það er sama til hvaða atvinnugreina er horft, alls staðar má sjá frumkvæði fólks bera ríkulegan ávöxt. Hvort sem er í sjávarútvegi, orkugeiranum, ferðaþjónustunni, öflugri heilbrigðisstarfsemi, iðnaði, verslun, tölvuþjónustu eða hugbúnaðargerð – alls staðar blasa við nýjungar, ný fyrirtæki og einnig rótgróin fyrirtæki sem ganga í endurnýjun lífdaga. Alls staðar er sótt fram og tekist á við áskoranir og lausnir fundnar.

Lýðveldið okkar stendur traustum fótum og Alþingi og ríkisstjórn móta leikreglurnar sem fólk og fyrirtæki starfa eftir. Á síðustu áratugum hafa sífellt verið lagðar á auknar kvaðir sem atvinnulífið þarf að búa við. Sérstaklega hefur verið leidd í lög Evrópulöggjöf sem er oft afar flókin og þess því miður ekki gætt að nýta undanþágur og ívilnandi heimildir sem í tilskipunum má finna. Þvert á móti hafa gjarnan verið lögleidd þyngstu ákvæði sem unnt er og jafnvel bætt í. Hér gætum við lært af öðrum. Þetta hefur m.a. leitt til þess að samkeppnishæfni Íslands er í dag ekki eins og best getur orðið.

Ekki verður hjá því komist að minnast á vinnulöggjöfina sem í grunninn nálgast það að vera 90 ára. Frá því löggjöfin var sett hefur þjóðfélagið breyst, störfin og vinnumarkaðurinn er allt annar en á millistríðsárum fyrri aldar og allur aðbúnaður fólks er allur annar hvort sem er við störf í lofti, á láði eða legi. Hér er eins og klukkan hafi stoppað og viðgerðar er þörf, hér þurfum við að taka til hendinni. Öllum fyrirtækjum er nú gert að skila ársreikningum sem eru aðgengilegir þeim sem áhuga hafa. Á sama tíma búa verkalýðsfélögin yfir milljarða sjóðum sem lúta fáum reglum og nánast engri innsýn hvorki fyrir félagsmenn, almenning eða eftirlitsstofnanir. Skipulag verkalýðshreyfingarinnar er einnig verulega frábrugðið því sem tíðkast umhverfis okkur. Allt kallar þetta á heildarendurskoðun vinnulöggjafarinnar og verður það brýnna með hverju árinu sem líður.

Góðir félagar

Innan skamms rennur Lífskjarasamningurinn sem gerður var fyrir drjúgt þremur árum sitt skeið á enda. Efnahagsaðstæður eru nú aðrar en voru við gerð hans. Verðbólgan er meiri en við höfum séð lengi eins og ég nefndi áður, vextir hafa hækkað og þótt landsframleiðslan hafi vaxið eftir að Covid – faraldurinn gekk yfir, þá má lítið út af bregða. Við fylgjumst með átökum innan verkalýðshreyfingarinnar og orðræðu sem líkist mest því sem verst er á samfélagsmiðlunum. Kröfugerðir stéttarfélaganna hafa verið að koma fram og auk mikilla launahækkana er þar farið fram á breytingar á heilbrigðiskerfi þjóðarinnar, millifærslum ríkis og sveitarfélaga og fjármálastefnu ríkisins svo dæmi séu tekin. Þetta líkist meira því að forystumenn stéttarfélaganna vilji taka fram fyrir hendurnar á stjórnvöldum sem kjósendur velja í þing- og sveitarstjórnarkosningum en að gera kjarasamninga. En til þess hefur þetta fólk takmarkað umboð – hvort sem er í skjóli vinnulöggjafarinnar eða frá félagsmönnum sínum sem taka sjálfir þátt í kosningum til þings og sveitastjórna.

Við stöndum hins vegar frammi fyrir því að gera kjarasamninga sem ekki hleypa upp verðbólgunni og samrýmast getu fyrirtækjanna og framleiðniaukningu atvinnulífsins. Eins og áður segir höfum allt of mörg dæmi frá fyrri tímum um stórkostlegar launahækkanir sem engu skiluðu nema tjóni fyrir atvinnulífið og fólkið sem sinnir störfum sínum af kostgæfni á degi hverjum. Man einhver eftir því að á níunda áratug síðustu aldar hækkuðu laun um 1850% en verðbólgan sá um að éta upp allar launahækkanir tímabilsins og gott betur.

Það blasir við að fulltrúar atvinnulífsins þurfa í komandi kjaraviðræðum að sýna ákveðni en um leið koma fram af hógværð og auðmýkt fyrir verkefninu. Samstaða okkar skiptir öllu. Við getum staðið frammi fyrir erfiðum áskorunum áður en samningar nást. Okkar hlutverk er að tryggja að niðurstaðan feli í sér stöðugleika og að unnt sé að sækja fram með aukinni nýsköpun, vöruþróun og markaðssókn þannig að lífskjör fólks haldi áfram að batna í takti sem samræmist getu fyrirtækjanna.

Atvinnulífið sækir markvisst fram á löngum tíma og getur ekki mælt árangurinn einungis með skammtíma ávinningi. Hlutverk okkar er að tryggja að fólk komi til starfa sem skila arði, veita ánægju og skapa stolt. Þar eigum við samleið með löggjafanum og framkvæmdavaldinu að tryggja að þjóðin sé stolt af árangri sínum, þróun samfélagsins og framtíðarhorfum.

Að lokum þetta. Einn af burðarásum í starfi Samtaka atvinnulífsins lætur af störfum í dag eftir 37 ára starf fyrir samtökin og forvera þeirra. Hannes G. Sigurðsson, lítum yfir farinn veg í farsælum störfum þínum fyrir íslenskt atvinnulíf í tæpa fjóra áratugi.

Eyjólfur Árni Rafnsson

Formaður Samtaka atvinnulífsins