Efnahagsmál - 

01. mars 2019

Aukinn kaupmáttur knúði hagvöxtinn

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Aukinn kaupmáttur knúði hagvöxtinn

Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu Íslands var hagvöxtur 4,9% árið 2018. Leiðrétt fyrir fólksfjölgun var hagvöxturinn 1,9% og er það þokkalegur vöxtur í alþjóðlegum samanburði. Það er þó heldur minna en árið 2017 þegar hagvöxtur á mann var 2,8%.

Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu Íslands var hagvöxtur 4,9% árið 2018. Leiðrétt fyrir fólksfjölgun var hagvöxturinn 1,9% og er það þokkalegur vöxtur í alþjóðlegum samanburði. Það er þó heldur minna en árið 2017 þegar hagvöxtur á mann var 2,8%.

Hagvöxtur síðasta árs var fyrst og fremst knúinn áfram af einkaneyslu sem jókst að raunvirði um 4,8% milli ára og skilaði hlutfallslega mestu framlagi til hagvaxtar. Á sama tíma hægði heldur hratt á vexti fjárfestingar en vöxturinn á  árinu 2018 mældist 3,5% samanborið við 12% vöxt árið á undan. Útflutningur jókst um 1,6% og var að öllu leyti tilkominn vegna vaxtar í vöruútflutningi en á sama tíma stóð þjónustuútflutningur í stað. Halli var á vöru- og þjónustujöfnuði í lok ársins.

Núverandi hagvaxtarskeið hefur staðið yfir í átta ár samfleytt og  hefur landsframleiðsla vaxið um rúmlega þriðjung að raunvirði á tímabilinu. Mikill hagvöxtur hefur skilað sér í vaxandi tekjum heimila en frá árinu 2010 hefur kaupmáttur heimila aukist um 40%. Aukinn kaupmáttur skapar svigrúm til aukinnar neyslu sem endurspeglast greinilega í hagtölum Hagstofunnar.

Hraður viðsnúningur - kólnun framundan
Það er engum blöðum um það að fletta að hagvöxtur var nokkuð kröftugur á síðasta ári. Því miður stefnir ekki í viðlíka vöxt á þessu ári. Fyrir því eru margar ástæður og ljóst að þeir þættir sem unnu með okkur á síðustu árum vinna ekki með okkur í dag. Seðlabankinn og Hagstofan spá því að hagvöxtur í ár verði sá minnsti frá árinu 2012 og leiðrétt fyrir fólksfjölda muni hagkerfið dragast saman, það gerðist síðast á árinu 2010. Krónan hefur gefið töluvert eftir, viðskiptakjör hafa rýrnað, samdráttur er í komu ferðamanna til landsins, gistinætur á hótelum dragast saman og rekstur flugfélaganna hefur verið erfiður. Reglulegar tilkynningar um hópuppsagnir einskorðast ekki við eina atvinnugrein heldur breiða flóru fyrirtækja. Þá berast fréttir þess efnis að loðnan sé horfin og útlit fyrir að gjaldeyristekjutap þjóðarbúsins muni hlaupa á tugum milljarða króna vegna þess. Óvissa vegna komandi kjarasamninga og boðuð verkföll verða enn frekar til þess að heimili og fyrirtæki halda að sér höndum sem ýtir undir hraðari kólnun í hagkerfinu.

Ljóst er að þeirri efnahagsuppsveiflu sem hófst í ársbyrjun 2010 er lokið og framundan er slaki í þjóðarbúinu. Laun hækka yfirleitt hraðar í efnahagsuppgangi þegar atvinnuleysi er lítið og var það raunin árin 2010-2018. Launþegar hafa borið mest úr bítum á þessu hagvaxtarskeiði en hlutfall launagreiðslna af verðmætasköpun hefur farið úr 57% við upphaf tímabilsins í 65% skv. síðustu mælingum. Nú þegar hægir á umsvifum í efnahagslífinu og atvinnuleysi eykst minnkar hins vegar svigrúmið til að launahækkana. Líkt og saga síðustu ára kennir okkur er meginforsenda hækkandi launa góður gangur í efnahagslífi landsins og því allra hagur að unnt verði að vinna fljótt úr þeim áskorunum sem við blasa í íslensku efnahagslífi.

Samtök atvinnulífsins