12. janúar 2024

Auðlegð þjóðar

Anna Hrefna Ingimundardóttir

1 MIN

Auðlegð þjóðar

Það þarf varla að tíunda alla þá efnahagslegu mælikvarða þar sem Ísland stendur fremst meðal þjóða. Þá þekkjum við vel og stærum okkur reglulega af. Náttúruöflin, smæð og fjarlægð hafa skapað hindranir en okkur hefur tekist að nýta þær auðlindir sem við erum rík af á skynsaman og sjálfbæran hátt. Ávinningurinn hefur skilað sér til almennings enda er jöfnuður hvergi meiri en hér, í einu ríkasta landi heims.

Hvað er það nákvæmlega sem ákvarðar auðlegð þjóða? Gnægð náttúruauðlinda virðist hvergi nærri duga enda búa íbúar landa, sem eru rík af náttúruauðlindum, víða við fátæktarmörk. Gull- og demantanámur og olíulindir virðast raunar hafa verið mörgum böl, jarðvegur spillingar og blóðugra átaka. Þrátt fyrir auðævin ríkir örbirgð.

Til eru menn í dag sem lifðu þann tíma þegar Argentína var glæst efnahagslegt veldi. Landsframleiðsla á hvern íbúa landsins, sem byggði á útflutningi fjölbreyttra landbúnaðarafurða, var ein sú mesta í heimi. Í dag er landsframleiðsla á mann ríflega fimmfalt meiri á Íslandi en í Argentínu.

Hvað gerðist? Veigamesta skýringin hefur ekkert að gera með náttúruauðlindir, heldur stjórnarfar. Hnignunin átti sér heldur ekki stað á einni nóttu. Frá hátindi efnahagslegs ferils síns hefur saga Argentínu einkennst af röð alvarlegra hagstjórnarmistaka sem fólust í ofurtrú á ríkisvaldið, miðstýringu og verndarhyggju sem leiddu til óðaverðbólgu og óhóflegrar skuldsetningar. Ekki hefur enn tekist að vinda ofan af þessum mistökum. Afleiðingin er efnahagslegur og mannlegur harmleikur.

Bölmóðurinn er ekki slíkur að hér sé ýjað að því að Íslendingar muni feta í fótspor Argentínumanna. Hins vegar er vert að hafa í huga að efnahagsstefnur skipta máli. Miklu máli. Og að enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 9. janúar.

Anna Hrefna Ingimundardóttir

Aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins