20. mars 2025

Alþjóðaviðskipti eru lífæð Íslands

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Alþjóðaviðskipti eru lífæð Íslands

Fulltrúar SA beita sér í Brussel

Fulltrúar Samtaka atvinnulífsins hafa síðustu daga átt fundi með fulltrúum framkvæmdastjóra viðskipta- og efnahagsöryggis í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) til að undirstrika mikilvægi þess að Ísland verði undanskilið í verndaraðgerðum ESB gagnvart Bandaríkjunum. Hefur einnig verið fundað með sendiherra Íslands í Brussel og starfsmönnum í sendiráðinu auk viðskiptafulltrúa hjá fastanefndum nokkurra Norðurlanda.

Líkt og kunnugt er þá hefur Donald Trump Bandaríkjaforseti sett tolla á allt innflutt ál og stál til Bandaríkjanna og er búist við að hann muni tilkynna um frekari tollaaðgerðir í byrjun apríl.

„Fulltrúar Íslands hafa mætt miklum skilningi og áheyrn af hálfu forsvarsmanna ESB, hins vegar hafi ekki verið hægt að lofa því að Ísland verði undanskilið í mögulegum verndaraðgerðum gagnvart Bandaríkjunum,“ segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA, en hún er ein þeirra sem eru stödd í Brussel fyrir hönd SA.

Líkt og kunnugt er þá hefur Donald Trump Bandaríkjaforseti sett tolla á allt innflutt ál og stál til Bandaríkjanna og er búist við að hann muni tilkynna um frekari tollaaðgerðir í byrjun apríl.

„Alþjóðaviðskipti eru lífæð Íslands og á meðan þessar aðgerðir Trump kalla á mótvægisaðgerðir af hálfu ESB þá hefur sambandið þegar tilkynnt um gagnkvæma tolla sem beinast gegn Bandaríkjunum. Við eigum allt eins von á því að það verði gripið til verndarráðstafanna og þá er svo mikilvægt að Ísland sé undanskilið þeim aðgerðum, en það er hvorki staðfest né sjálfsagt og því erum við mætt hingað út,“ segir Sigríður.

evrópumál brussel sigríður margrét Sendiherra ESB

James Hendrik Dopheide, ráðgjafi í teymi Maros Sefcovic, Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA og  Kristján Andri Stefánsson, sendiherra Íslands í Brussel  

Fundirnir í Brussel hafa fyrst og fremst gengið út á það að afla frekari upplýsinga og fá frekari innsýn inn í þá stöðu sem er uppi. Helstu rök fulltrúa SA fyrir að Ísland verði undanskilið téðum verndarráðstöfunum er að með aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu og innri markaðnum sé Ísland mikilvægur samstarfsaðili. Þannig eru 24% þeirra sem starfa á íslenskum vinnumarkaði erlendir ríkisborgarar og af þeim eru 80% frá Evrópska efnahagssvæðinu. Þá nemur vöruútflutningur og –innflutningur íslenskra fyrirtækja til ESB á hverju ári um 14-15% af vergri landsframleiðslu.

Heiðrún Björk Gísladóttir, lögmaður og alþjóðafulltrúi SA, er meðal fulltrúa á fundinum í Brussel:

„Fyrir íslenskar vörur er Evrópa mikilvægasti markaðurinn en það er einna helst af tveimur ástæðum. Annars vegar er íslenskur vinnumarkaður mjög Evrópumiðaður, fimmti hver vinnandi maður á Íslandi kemur frá Evrópska efnahagssvæðinu. Hins vegar er ál, kísill og aðrir málmar stærsti hluti vöruútflutnings Íslands til ESB en 25% af álþörf Evrópu kemur frá íslenskum fyrirtækjum,” segir Heiðrún Björk.

„Síðast en ekki síst hefur Ísland einstaka stöðu þegar kemur að sjávarútvegi en þrátt fyrir að íbúafjöldi Íslands sé einungis 0,005% af íbúum heims veiðum við 1,3% af fiski í heiminum en fiskur er sú próteinvara sem er með minnst kolefnisspor á heimsvísu.”

Áhugavert verður að sjá hvernig næstu vikur þróast milli Bandaríkjanna og ESB. Það er þó ljóst að mikill stígandi hefur verið í hagsmunagæslunni af hálfu Íslands og skilaboðin skýr.

Tengt frétt

Tollar Evrópusambandsins gilda ekki um Ísland
Lesa meira

Tengt frétt

Einföldum!
Lesa meira

Tengt frétt

Tvær stórar tillögur frá Evrópusambandinu
Lesa meira

Samtök atvinnulífsins