Efnahagsmál - 

23. ágúst 2017

Ákvörðun um óbreytta stýrivexti veldur vonbrigðum

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Ákvörðun um óbreytta stýrivexti veldur vonbrigðum

Seðlabankinn tilkynnti í morgun að vöxtum bankans yrði haldið óbreyttum. Í yfirlýsingu peningastefnunefndar kemur fram að þrátt fyrir að verðbólga hafi reynst minni en spár bankans gerðu ráð fyrir þá ríki óvissa um verðbólguhorfur. Það vekur athygli að sérstaklega er tiltekið í yfirlýsingunni að vísbendingar eru um að breytingar gætu verið framundan í utanríkisviðskiptum og á húsnæðismarkaði.

Seðlabankinn tilkynnti í morgun að vöxtum bankans yrði haldið óbreyttum. Í yfirlýsingu peningastefnunefndar kemur fram að þrátt fyrir að verðbólga hafi reynst minni en spár bankans gerðu ráð fyrir þá ríki óvissa um verðbólguhorfur. Það vekur athygli að sérstaklega er tiltekið í yfirlýsingunni að vísbendingar eru um að breytingar gætu verið framundan í utanríkisviðskiptum og á húsnæðismarkaði.

Ekki verður betur séð en að peningastefnunefndin sé að gefa til kynna að það sé að hægja á hagkerfinu. Ákvörðunin veldur vonbrigðum þar sem gott tækifæri var til staðar til að halda áfram lækkun vaxta, styðja við hagkerfið og draga úr vaxtamun við útlönd. Áhugavert er að rifja upp að á vaxtaákvörðunarfundinum í júní síðastliðnum kusu allir nefndarmenn að lækka vexti og vildu tveir meðlimir lækka vexti meira en raunin varð. Talsverðar sviptingar eru því að eiga sér stað milli vaxtaákvörðunarfunda.

Það er óboðlegt fyrir fyrirtæki og heimili í landinu að halda stýrivöxtum óbreyttum

Seðlabankinn virðist staðráðinn í því að halda raunvaxtastiginu háu og eru meginrök fyrir óbreyttum vöxtum nú að raunvaxtastigið hafði lækkað. Það er þó mikilvægt að hafa í huga að nú hefur verðbólga verið undir markmiði samfleytt í 42 mánuði og á sama tíma hefur Seðlabankinn kerfisbundið spáð meiri verðbólgu en raunin hefur orðið. Aðhald peningastefnunnar hefur því þegar reynst meira en upphaflega var lagt upp með. Þá hafa langtímaverðbólguvæntingar á skuldabréfamarkaði verið undir eða við markmið síðastaliðið ár.

Ekki verður betur séð en að gengisveiking krónunnar sé meginskýringin að baki óbreyttu vaxtastigi þrátt fyrir að flestar undirliggjandi hagstærðir gefi tilefni til annars. Það er eðlilegt að spurt sé hvað gerist þegar góðærinu lýkur og efnahagsslaki myndast, krónan veikist og verðbólguhorfur versna - mun Seðlabankinn þá lækka vexti verulega? Það má efast um það.

Hvaða vísbendingar gefa undirliggjandi hagstærðir?

1) Það er að hægja á hagkerfinu. Vöxtur ferðaþjónustunnar hefur verið megin drifkraftur hagvaxtar undanfarin ár. Nú eru vísbendingar þess efnis að það sé að hægja á þeim vexti og það er að gerast nokkuð hratt. Þá benda leiðandi hagvísar Analytica til þess að það sé að hægja sé á hagvexti.

2) Það hægir á hækkun fasteignaverðs. Í tvo mánuði samfleytt hafa verðvísitölur fasteigna á höfuðborgarsvæðinu bent til þess að það sé að hægja umtalsvert á hækkunartaktinum. Eins og Samtök atvinnulífsins hafa áður bent á þá er hækkun húsnæðisverðs fyrst og fremst tilkomin vegna framboðsskorts og hátt vaxtastig er síður en svo til þess komið að leysa þann vanda sem upp er kominn.

3) Núverandi uppsveifla er óskuldsett. Núverandi hagvaxtarskeið er um margt ólíkt því sem áður hefur sést í íslensku hagkerfi. Ekki aðeins stefnir í að hagsveiflan verði ein sú allra lengsta í hagsögunni heldur er vöxturinn óskuldsettur. Heimili og fyrirtæki hafa nýtt núverandi uppsveiflu til að greiða niður skuldir. Mikill útlánavöxtur ætti því ekki að halda vöku fyrir nefndarmönnum.

4) Langtímaverðbólguvæntingar eru enn við markmið. Verðbólguvæntingar hafa verið undir eða við markmið síðastliðið ár. Seðlabankinn sjálfur hefur metið sem svo að þær væntingar hafi náð traustri kjölfestu. Þó svo að verðbólguvæntingar hafi hækkað nokkuð samfara veikingu krónunnar þá eru þær enn við markmið. Það virðist sem Peningastefnunefndin sjálf hafi hins vegar misst trúna á kjölfestu væntinga.

Um það er ekki deilt að á tímum góðæris að það er mikilvægt að peningastefnan sé aðhaldssöm til að tryggja verðstöðugleika enda er það meginmarkmið Seðlabankans. Hins vegar hafa Samtök atvinnulífsins gagnrýnt vaxtastefnu Seðlabankans einkum út frá tveimur meginatriðum:

Í fyrsta lagi þá eru raunvextir á Íslandi allt of háir. Á sama tíma og ríki erlendis eru með raunvexti í sögulegu lágmarki og jafnvel neikvæða þá eru raunvextir hér margfalt hærri. Mikill vaxtamunur við útlönd er lítið til umræðu á fundum peningastefnunefndarinnar.

Í öðru lagi þá brást Seðlabankinn við þeim vanda sem fylgir því að hafa viðvarandi mikinn raunvaxtamun við útönd að setja hér á innflæðishöft. Slík höft eru skaðleg og ber á engan hátt að líta á sem varanlega lausn. Innflæðishöftin sem hafa verið hér við lýði í rúmlega ár eru þvert á ráðleggingar AGS sem ítrekar í nýrri úttekt sinni á íslensku efnahagsumhverfi að slík höft eiga ekki að gegna lykilhlutverki í almennri hagstjórn. Innflæðishöft hefta erlenda fjárfestingu á sama tíma og skaða þar með íslenskt efnahagslíf til lengri tíma. Það er e.t.v. ekki að undra að hvergi í þeim ríkjum sem við viljum bera okkur saman við eru innflæðishöft en þau eru að finna í ríkjum eins og Indónesíu, Tyrklandi, Suður-Kóreu og Tælandi. Það er varla að Seðlabankinn geti lengur falið sig bakvið þá staðreynd að innflæðishöft séu neyðarúrræði fyrir íslenskt efnahagslíf.

Með eina af hæstu raunvöxtum í heimi og innflæðishöft við lýði er verið að grafa undan efnahagslegu jafnvægi. Vaxta- og haftastefna Seðlabankans dregur úr fjárfestingu í landinu og hvata til nýsköpunar. Á sama tíma og lífeyrissjóðir og íslensk fyrirtæki og kjósa nú að fjárfesta erlendis eftir að hafa verið lokuð innan hafta í átta ár þá eru hömlur settar á erlenda fjárfestingu inn í landið. Það er óboðlegt fyrir fyrirtæki og heimili í landinu að halda stýrivöxtum óbreyttum.

Sjá nánar:

Yfirlýsing peningastefnunefndar 23. ágúst 2017

 

Samtök atvinnulífsins