20. nóvember 2024

Áframhaldandi lækkun stýrivaxta í kortunum

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Áframhaldandi lækkun stýrivaxta í kortunum

Lækkun stýrivaxta Seðlabankans voru ánægjuleg tíðindi og í takt við það sem greiningar- og markaðsaðilar áttu von á. Þá var jákvætt að sjá verðbólguspá bankans hliðrast talsvert niður fyrir næstu misseri sem gefur tilefni til að ætla að vextir geti haldið áfram að lækka tiltölulega hratt. Spá bankans frá því í ágúst gerði til að mynda ráð fyrir að verðbólga á fyrsta fjórðungi næsta árs yrði 5,1% að meðaltali en ný spá áætlar að hún verði 4,1%.

Spá Seðlabankans gerir ráð fyrir að launastefnan sem mörkuð var á almennum vinnumarkaði síðastliðið vor muni halda, sem er mikilvæg forsenda þess að vaxtalækkunarferlið haldi áfram hratt og örugglega. Þá gefa vísbendingar til kynna að framleiðniþróun í hagkerfinu sé óhagfelld um þessar mundir. Svigrúm til launahækkana er því minna en talið var. Í því ljósi er sérlega mikilvægt að þeir aðilar sem enn eiga eftir að ljúka við gerð kjarasamninga haldi sig innan þeirrar stefnu sem almenni vinnumarkaðurinn hefur markað.

Um 85% vinnumarkaðar hafa nú samið í takt við markaða launastefnu. Á samningssviði Samtaka atvinnulífsins hefur verið samið fyrir um 99% launafólks en enn á eftir að semja við um helming launafólks hjá ríkinu og sveitarfélögum utan Reykjavíkurborgar eins og fram kemur í nýrri skýrslu Kjaratölfræðinefndar .

Áframhaldandi minnkun verðbólgu með tilheyrandi vaxtalækkunum er sameiginlegt hagsmunamál allra heimila og fyrirtækja landsins. Til að ná þeim markmiðum skiptir höfuðmáli að opinberi markaðurinn raski ekki þeirri sátt og samstöðu sem náðist á almennum vinnumarkaði fyrr á árinu.

Samtök atvinnulífsins