Fréttir - 

11. október 2024

Áfram með smjörið

Anna Hrefna Ingimundardóttir

1 MIN

Áfram með smjörið

Flestir eru orðnir langþreyttir á tali um verðbólgu og vexti. Eftir rúmt ár af 9,25% stýrivöxtum Seðlabankans var fyrsta varfærna skrefið loks tekið og standa þeir nú í 9,0%.

Þó margir andi ögn léttar er enn langt í land og ekkert gefið varðandi framhaldið. Til að vaxtalækkunarferlið haldi áfram skjótt og örugglega þarf að sjást frekari árangur í minnkun verðbólgu og verðbólguvæntinga.

Þegar langtímakjarasamningar voru undirritaðir á almennum vinnumarkaði í byrjun árs eftir langt og strangt samningaferli var sameiginlegt markmið aðila að samningarnir myndu styðja við minnkun verðbólgu og lækkun vaxta. Yfirvöld komu með myndarlegan aðgerðapakka að borðinu til að tryggja að samningar næðust og að friður myndi skapast á vinnumarkaði. Deila má um hversu viðeigandi það sé að yfirvöld hafi aðkomu að samningum á almennum vinnumarkaði, eins og tíðkast hefur um áratuga skeið, en látum það liggja milli hluta.

Áðurnefndar aðgerðir yfirvalda, sem munu auka ráðstöfunartekjur talsvert til viðbótar við þær launahækkanir sem samið er um, virðast samstundis hafa fallið í gleymskunnar dá hjá þeim hópum sem eftir eru.

Enn á eftir að semja við stóran hluta hins opinbera vinnumarkaðar. Verkalýðsleiðtogar stórra opinberra bandalaga eða félaga innan þeirra hafa komið með fremur djarfar yfirlýsingar að undanförnu. Þessi tilraun til höfrungahlaups er því miður engin nýlunda. Opinberi markaðurinn hefur gjarnan leitt launahækkanir á umliðnum árum, svo ekki sé minnst á öll þau fríðindi sem opinberir starfsmenn njóta umfram starfsfólk á almennum markaði, hvort sem þau tengjast viðveruskyldu, orlofi, veikindarétti eða starfsöryggi.

Áðurnefndar aðgerðir yfirvalda, sem munu auka ráðstöfunartekjur talsvert til viðbótar við þær launahækkanir sem samið er um, virðast samstundis hafa fallið í gleymskunnar dá hjá þeim hópum sem eftir eru. Ætla þeir sem hæst hafa í eftirstandandi kjarasamningum virkilega að tefla í tvísýnu friði á vinnumarkaði, jafnvægi í opinberum fjármálum og vaxtalækkunarferli Seðlabankans öllu í senn?

Launastefnan hefur verið mörkuð. Áfram með smjörið.

Pistillinn birtist fyrst í Viðskiptablaðinu þann 8. október.

Anna Hrefna Ingimundardóttir

Aðstoðarframkvæmdastjóri og forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins