Fréttir - 

28. desember 2017

400 stærstu: Minnkandi skortur á starfsfólki

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

400 stærstu: Minnkandi skortur á starfsfólki

Niðurstöður nýrrar könnunar Gallup meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins sýna að þeir telja aðstæður vera góðar í atvinnulífinu en að þær fari versnandi á næstunni.

Niðurstöður nýrrar könnunar Gallup meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins sýna að þeir telja aðstæður vera góðar í atvinnulífinu en að þær fari versnandi á næstunni.

Þrír af hverjum tíu stjórnendum fyrirtækjanna finna fyrir vinnuaflsskorti sem er mun minna en síðustu misseri. Búast má við 1,5% fjölgun starfsmanna á almennum vinnumarkaði á næstu sex mánuðum eða sem nemur tvö þúsund störfum.

Stjórnendur búast við 2,5% verðbólgu á næstu 12 mánuðum.

Góðar aðstæður
Vísitala efnahagslífsins, sem endurspeglar mun á fjölda stjórnenda sem meta aðstæður góðar og slæmar, er enn mjög há. Þrír af hverjum fjórum stjórnendum telja aðstæður góðar í atvinnulífinu, en einungis 3% að þær séu slæmar. Litlu munar á mati stjórnenda fyrirtækja í alþjóðlegri samkeppni og annarra atvinnugreina þar sem 71% þeirra fyrrnefndu telja aðstæður góðar en 77% hinna síðarnefndu.

Fleiri en áður telja aðstæður fara versnandi
Flestir stjórnendur telja að aðstæður í atvinnulífinu verði svipaðar eftir sex mánuði. 65% þeirra telja að þær verði óbreyttar, 11% að þær batni, en 24% að þær versni. Þetta er svipuð niðurstaða og í síðustu könnun sem gerð var í september sl. en um margra ára skeið hafa fleiri talið aðstæður batna en versna. Enginn munur er á mati stjórnenda fyrirtækja í alþjóðlegri samkeppni og annarra atvinnugreina.

Minnkandi skortur á starfsfólki
Skortur á starfsfólki er minni en hann hefur verið síðastliðin tvö ár. Aðeins 30% stjórnenda telja fyrirtæki þeirra búa við skort á starfsfólki en hlutfallið hefur verið um 40% á árunum 2016 og 2017. Skorturinn er minnstur í sjávarútvegi og verslun, um 15%, en mestur í flutningum og ferðaþjónustu og byggingarfjármálastarfsemi, 35-50%.

Starfsmönnum fjölgar á næstunni
28 þúsund starfsmenn starfa hjá fyrirtækjunum í könnuninni. 27% stjórnenda þeirra sjá fram á fjölgun starfsmanna á næstu sex mánuðum, 13% sjá fram á fækkun en 60% búast við óbreyttum fjölda. Þegar svör stjórnenda eru vegin með stærð fyrirtækjanna fæst að starfsmönnum þeirra fjölgi um 1,5% á næstu sex mánuðum. Sé sú niðurstaða færð yfir á almenna markaðinn í heild má búast við störfum þar fjölgi um tæplega 2.000 á næstu sex mánuðum. Búist er við mestri starfsmannafjölgun í flutningum og ferðaþjónustu en starfsmannafækkun í sjávarútvegi.

Verðbólguvæntingar vel undir markmiði
Verðbólguvæntingar stjórnenda eru nákvæmlega við verðbólgumarkmið Seðlabankans. Stjórnendur vænta að jafnaði 2,5% verðbólgu næstu 12 mánuði sem er 0,1% hækkun frá septemberkönnuninni. Stjórnendur vænta þess að verðbólgan verði 3,0% eftir tvö ár sem er sama niðurstaða og í síðustu könnunum.

Eftirspurn eykst bæði innanlands og erlendis
Fjórðungur stjórnenda býst við aukinni eftirspurn á innanlandsmarkaði næstu sex mánuði en 13% að hún minnki. Búist er við mestri aukningu eftirspurnar í fjármálastarfsemi, þjónustu og verslun en minnstri í sjávarútvegi og flutningum og ferðaþjónustu. Helmingur stjórnenda býst við aukinni eftirspurn á erlendum mörkuðum en 7% að hún minnki.

Helmingur fyrirtækja með fullnýtta framleiðslugetu
Rúmlega helmingur stjórnenda telur það vera nokkuð vandamál eða mjög erfitt að bregðast við óvæntri aukningu í eftirspurn eða sölu. Hæsta nýting framleiðslugetu er í byggingarstarfsemi en minnst í verslun.


Um könnunina
Samtök atvinnulífsins eru í samstarfi við Seðlabanka Íslands um reglubundna könnun á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja á Íslandi. Könnunin er gerð ársfjórðungslega og er framkvæmd hennar í höndum Gallup. Einföld könnun með 9 spurningum er gerð í annað hvort skipti, en hin skiptin er gerð ítarlegri könnun með 19 spurningum.

Að þessu sinni var könnunin gerð á tímabilinu 17. nóvember til 7. desember og voru spurningar 9. Í úrtaki voru 430 fyrirtæki sem teljast stærst miðað við heildarlaunagreiðslur og svöruðu 246, þannig að svarhlutfall var 57%. Niðurstöður eru greindar eftir staðsetningu fyrirtækis, atvinnugrein, veltu, starfsmannafjölda og hvort fyrirtækið starfi á útflutnings- eða innanlandsmarkaði. Atvinnugreinaflokkar eru sjö: (1) Sjávarútvegur, (2) iðnaður, (3) byggingarstarfsemi og veitur, (4) verslun, (5) samgöngur, flutningar og ferðaþjónusta, (6) fjármála- og tryggingastarfsemi og (7) ýmis sérhæfð þjónusta. Ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðilanna á niðurstöðum könnunarinnar.

Samtök atvinnulífsins