24. mars 2025

400 stærstu: Bjartsýni eykst en blikur á lofti

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

400 stærstu: Bjartsýni eykst en blikur á lofti

Reglubundin könnun á stöðu og horfum í efnahagslífinu meðal stærstu fyrirtækja landsins var gerð á tímabilinu 12. febrúar til 10. mars. Yfir spurnar tímabilið hefur ríkt töluverð óvissa, sérstaklega í tengslum við tolla og alþjóðaviðskipti. Því kann það að hafa áhrif á svör viðmælenda hvenær könnuninni var svarað.

Staða efnahagslífsins góð

Vísitala efnahagslífsins, sem endurspeglar mun á fjölda stjórnenda sem metur aðstæður góðar eða slæmar, hefur hækkað talsvert frá haustinu. Stjórnendur meta stöðuna í efnahagslífinu nokkuð góða og hefur vísitalan ekki mælst hærri í þrjú ár. Blikur eru hins vegar á lofti og fellur vísitalan milli kannana þegar spurt er um horfur sex mánuði fram á við. Í fyrsta skipti í tvö ár telja stjórnendur framtíðarhorfur lakari en núverandi stöðu. Fyrirtæki sem selja ekki vörur til útlanda telja horfurnar almennt betri en þau sem selja vörur út. Þá telja fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu stöðuna talsvert betri en fyrirtæki á landsbyggðinni.

Eftirspurn áfram metin sterk

Eftirspurn sex mánuði fram í tímann eftir vörum og þjónustu íslenskra fyrirtækja heldur áfram að aukast samkvæmt svörum stjórnenda. Mesta aukning í eftirspurn er talin eiga sér stað hjá sjávarútvegi ásamt iðnaði og framleiðslu en hafa ber í huga að matið gæti hafa breyst í kjölfar umræðu um mögulegt tollastríð milli Bandaríkjanna og Evrópu. Þær atvinnugreinar sem horfa fram á mesta aukningu í innlendri eftirspurn eru fjármálafyrirtækin ásamt bygginga- og veitustarfsemi.

Fleiri ætla fjölga starfsfólki en starfsmannaskortur stendur í stað

Hlutfall þeirra fyrirtækja sem telja vera skort á starfsfólki mælist óbreytt milli kannana, eða 23%. Fjöldi fyrirtækja sem ætlar að fjölga starfsfólki á næstu sex mánuðum eykst hins vegar milli kannana og er nú um 29%. Um 28% fyrirtækja á landsbyggðinni skortir starfsfólk, en 22% fyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu. Skortur er eftir sem áður mestur í byggingariðnaði og veitustarfsemi.

Aðfangaverð fellur

Stjórnendur telja að 6 mánaða breyting á aðfangaverði muni nema 2,9% til hækkunar. Þá dregur lítillega úr verðbólguvæntingum stjórnenda og telja stjórnendur nú verðbólgu verða um 4% eftir 12 mánuði. Stjórnendur eru heilt yfir mjög sammála um verðbólguvæntingar þar sem staðalfrávik svara hefur aldrei verið lægra frá upphafi könnunarinnar.

Launakostnaður vegur þyngst í verðhækkunum

Þrátt fyrir að meirihluti stjórnenda telji launakostnað vera helsta áhrifaþátt verðhækkana fellur hlutfallið skarplega milli ára, en Stöðugleikasamningurinn var undirritaður rétt fyrir lok könnunartímabilsins í mars í fyrra. Vægi eftirspurnar, aðfangaverðs og annarra þátta fer vaxandi á móti. Sé horft til verðlækkana þá er það helst eftirspurnarþrýstingur ásamt samkeppnisstöðu og álagningu sem hefur áhrif til lækkunar. Þá telja stjórnendur að gengið veikist lítillega eða um 0,7%.

Samtök atvinnulífsins