Fréttir - 

15. október 2024

400 stærstu: Aukinnar svartsýni gætir

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

400 stærstu: Aukinnar svartsýni gætir

Niðurstöður nýrrar könnunar Gallup á meðal 400 stærstu fyrirtækja landsins gefa til kynna að stjórnendur telji að aðstæður í efnahagslífinu fari versnandi á næstu 6 mánuðum, hvort sem horft er til afkomu, eftirspurnar, fjárfestinga eða ráðninga starfsfólks.

Spenna á vinnumarkaði fer minnkandi þar sem um 27% stjórnenda finna nú fyrir skorti á starfsfólki, miðað við 56% þegar mest lét fyrir tveimur árum. Þá telja 62% stjórnenda að fjöldi starfsmanna muni standa í stað á næstu mánuðum á meðan fleiri telja nú að þeim muni fækka en fjölga.

Versnandi mat á núverandi aðstæðum

Vísitala efnahagslífsins, sem endurspeglar mun á fjölda stjórnenda sem telja aðstæður góðar, slæmar eða hvorki né, lækkar skarpt og hefur ekki verið lægri síðan á tímum heimsfaraldurs. Tæplega helmingur stjórnenda telja aðstæður nú vera slæmar fremur en góðar, á meðan innan við þriðjungur taldi aðstæður slæmar í seinustu könnun.

Stjórnendur svartsýnir á framhaldið

Hlutfall stjórnenda sem telur aðstæður fara batnandi á næstu sex mánuðum lækkar þó nokkuð á milli kannana og mælist nú 26%. Hlutfall þeirra sem telur aðstæður fara versnandi hefur aftur á móti hækkað úr 17% í tæplega 31% frá seinustu könnun.

Skortur á starfsfólki fer minnkandi

Skortur á starfsfólki fer minnkandi á milli kannana en 73% stjórnenda telja sig ekki búa við skort á starfsfólki, samanborið við 69% í síðustu könnun. Skorturinn er minnstur hjá fyrirtækjum í fjármála- og tryggingastarfsemi en sem fyrr mestur í byggingariðnaði.

Einungis 15% stjórnenda sjá fram á fjölgun á starfsfólki á næstu 6 mánuðum, 22% sjá fram á fækkun en 62% búast við óbreyttum fjölda. Eru það fyrirtæki í byggingaiðnaði sem helst búast við fjölgun á starfsfólki á næstu sex mánuðum. Væntingavísitalan yfir fjölgun starfsmanna næstu 6 mánuði hefur þá ekki verið lægri síðan á tímum heimsfaraldurs.

Minni hagnaður á milli ára

Stjórnendur búast við minni hagnaði (sem hlutfall af veltu) á þessu ári heldur en árinu áður. 44% stjórnenda gera ráð fyrir að hagnaður minnki, 16% að hann aukist og 38% að hann verði svipaður.

Verðbólguvæntingar enn yfir markmiði

Verðbólguvæntingar hafa verið talsvert umfram verðbólgumarkmið á síðastliðnum tveimur árum en lækkuðu lítillega í seinustu könnun. Væntingar stjórnenda 400 stærstu um verðbólgu til eins árs eru nú 5,1% (voru 5,2%). Væntingar um verðbólgu eftir 2 ár eru 4,2% (voru 4,3%).

Fjárfestingar dragast saman

Fjárfestingavísitalan sem vísar til breytinga í fjárfestingu á milli ára hefur ekki verið lægri í rúm þrjú ár. 34% stjórnenda gera ráð fyrir minni fjárfestingu í ár samanborið við árið áður, 21% gera ráð fyrir meiri fjárfestingu og 45% áætla að fjárfesting verði óbreytt milli ára. Fjárfestingar dragast mest saman í verslun og ýmissi sérhæfðri þjónustu en eykst mest í samgöngum, flutningum og ferðaþjónustu, fjármála- og tryggingastarfsemi og sjávarútvegi.

Launahækkanir helsti áhrifaþáttur verðlagsbreytinga

Sem fyrr telja stjórnendur að launahækkanir séu megin áhrifaþáttur verðhækkana hjá fyrirtækjunum sem þeir stýra. 52% stjórnenda setja launakostnað í fyrsta sæti sem verðhækkunartilefni, sem er þó lækkun um 17 prósentustig frá síðustu könnun. Hækkun aðfangaverðs er afgerandi í öðru sæti þar sem 24% stjórnenda telja að aðföng hafi mest áhrif. Aðrir þættir vega talsvert minna.

Auðveldara að mæta aukinni eftirspurn

Rúmlega helmingur fyrirtækja telur ekkert vandamál að bregðast við óvæntri aukningu í eftirspurn eða sölu. Einungis 5% stjórnenda telja það mjög erfitt. Minnstur er vandinn hjá fyrirtækjum í verslun og fjármála- og tryggingastarfsemi en mestur í byggingastarfsemi og veitum.

Dregur úr væntingum um eftirspurn

Um 24% stjórnenda væntir aukinnar innlendrar eftirspurnar á næstu 6 mánuðum, 54% telja að hún muni standa í stað og 22% búast við minnkun. Tæplega þriðjungur væntir aukinnar eftirspurnar á erlendum mörkuðum en um fimmtungur væntir minnkandi eftirspurnar.

Vænta lækkunar á meginvöxtum Seðlabankans

Stjórnendur vænta þess að Seðlabankinn lækki meginvexti sína á næstu 12 mánuðum. Meginvextir bankans voru 9,25% á könnunartímabilinu og bjuggust stjórnendur við því að þeir yrðu komnir niður í 7,3% eftir 12 mánuði. Seðlabankinn lækkaði hins vegar stýrivexti sína í 9,0% eftir að könnunartímabilinu lauk.

Um könnunina

Samtök atvinnulífsins eru í samstarfi við Seðlabanka Íslands um reglubundna könnun á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja á Íslandi. Könnunin er gerð ársfjórðungslega og er framkvæmd hennar í höndum Gallup. Minni og stærri kannanir skiptast á með 9 og 20 spurningum.

Þessi könnun var gerð á tímabilinu 22. ágúst til 17. september 2024 og voru spurningar 20.

Í úrtaki voru 468 fyrirtæki sem teljast stærst á landinu miðað við heildarlaunagreiðslur og svöruðu 218, þannig að svarhlutfall var 47%. Niðurstöður eru greindar eftir staðsetningu fyrirtækis, atvinnugrein, veltu, starfsmannafjölda og hvort fyrirtækið starfi á útflutnings- eða innanlandsmarkaði. Atvinnugreinaflokkar eru sjö: (1) Sjávarútvegur, (2) iðnaður og framleiðsla, (3) byggingastarfsemi og veitur, (4) verslun, (5) samgöngur, flutningar og ferðaþjónusta, (6) fjármála- og tryggingastarfsemi og (7) ýmis sérhæfð þjónusta. Ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðilanna á niðurstöðum könnunarinnar.

Samtök atvinnulífsins