1 MIN
23 athugasemdir við greiningu SKE
Samkeppniseftirlitið komst nýlega að þeirri niðurstöðu að fyrirtæki á íslenskum dagvörumarkaði væru að skila óeðlilega hárri framlegð í núverandi efnahagsástandi. Aftur á móti er greining Samkeppniseftirlitsins haldin ágöllum sem leiða til þess að ályktanir stofnunarinnar eiga í ýmsu tilliti ekki við rök að styðjast.
Samtök atvinnulífsins og Samtök verslunar og þjónustu hafa tekið saman athugasemdir sínar við áðurnefnda greiningu Samkeppniseftirlitsins.
Nauðsynlegt er að frekari upplýsingar um gagnasafnið séu birtar samhliða greiningunni svo áreiðanleiki sé tryggður og ályktanir, ef einhverjar eru, verði byggðar á traustum og sterkum grunni. Öðrum kosti er örðugt að tryggja að aðkoma fyrirtækja og samtaka leiði af sér nákvæmari upplýsingar og ályktanir.
Í ljósi þess hve mjög tímabilið sem valið er í greiningunni litast af áhrifamiklum atburðum má velta fyrir sér hversu næmar niðurstöður greiningarinnar eru fyrir því að upphafs- og lokapunktum sé hnikað til. Tímabilið á sér vart hliðstæðu. Erfitt, ef ekki ómögulegt, er að fullyrða að þær ályktanir og niðurstöður sem af greiningunni leiða myndu skila sér með líkum hætti ef annað tímabil væri undir, eða hvort hægt sé að yfirfæra þær niðurstöður á nokkurt annað tímabil í hagsögunni.
Hér ber að nefna uppgang í ferðaþjónustu sem og heimsfaraldur kórónuveiru. Til viðbótar má m.a. nefna opnun verslunar Costco hér á landi í maí árið 2017 og loks stríðið í Úkraínu sem hófst með innrás Rússa þann 24. febrúar 2022. Framlegð og framlegðarhlutfall dagvöru fyrir fyrstu fjóra mánuði ársins 2022 er birt í samanburði við fyrstu fjóra mánuði áranna 2019, 2020 og 2021. Dugar sá samanburður þó skammt, enda nær hann ekki utan um áhrif stríðsins í Úkraínu þar sem afleiðingar þess á verðlagsþróun ýmissa vara koma ekki fram, nema að litlu leyti, fyrr en um mitt ár 2022. Þetta má t.d. sjá af upplýsingum Hagstofu Íslands um CIF-verð/kg í tilviki tollskrárnúmera sem innibera einsleitar vörur, sérstaklega á fjórða ársfjórðungi 2022.
Það skýtur skökku við að ekki sé gætt samræmis milli mismunandi hluta greiningarinnar og litið til þróunar frá og með árinu 2017. Er þá ekki síst haft í huga að Samkeppniseftirlitið hefur litið svo á að Costco hafi haft nokkra markaðshlutdeild á dagvörumarkaði undanfarin ár og gefið til kynna að innkoma fyrirtækisins á íslenskan markað hafi verið jákvæð m.t.t. hagsmuna neytenda. Má því ætla að nánari mynd hefði fengist ef þróun framlegðar Costco hefði fengið sambærilega umfjöllun.
Verðlag á mat- og drykkjarvöru á Íslandi er hátt í alþjóðlegum samanburði. Er þetta óumdeild staðreynd og margvíslegar ástæður sem liggja þar að baki sem fá þó ekki nánari umfjöllun í greiningu SKE. Hér má nefna sem dæmi; smæð markaðar og fjarlægð frá öðrum mörkuðum sem leiðir til hærra innkaupaverðs og hærri flutningskostnaðar en ella, háan launakostnað, háa skatta og tollvernd meðal annarra þátta. Þau lönd sem raða sér efst í þessum samanburði, auk Íslands, eru Sviss, Noregur og Lúxemborg sem eiga það sameiginlegt að vera meðal ríkustu þjóða heims, en verðlag er almennt hærra í löndum þar sem lífskjör eru góð og kaupmáttur mikill.
Í umræðuskjali SKE kemur fram að vegin framlegð af dagvörusölu hafi aukist um 29% á föstu verðlagi á milli áranna 2017 og 2021. Á sama tíma eykst hlutfall framlegðar af rekstrartekjum, þ.e.a.s. hið svokallaða framlegðarhlutfall, einungis um 0,7 prósentustig. Það er því ljóst að lítill sem enginn munur er á hlutfalli framlegðar af rekstrartekjum á þessu fjögurra ára tímabili.
Margt getur skýrt breytingu á framlegð í krónum talið, jafnvel þó tekið sé tillit til breytingar á verðlagi yfir tíma. Íbúum landsins fjölgar t.a.m. um tæplega 21 þúsund á tímabilinu, sé miðað við nýtt manntal Hagstofu fyrir árið 2021. Ferðaþjónustan er í miklum vexti fram til ársins 2018 þegar fjöldi ferðamanna nær 2,3 milljónum, árið 2019 hægir á en fjöldi þeirra sem sóttu Ísland heim fór samt sem áður yfir 2 milljónir. Þá, eins og alþjóð veit, skekur heimsfaraldur kórónuveiru landið árin 2020 og 2021. Stjórnvöld grípa til íþyngjandi sóttvarnartakmarkana sem færa einkaneyslu íbúa inn fyrir landssteinana, frá veitinga- og gististöðum, og til matvöruverslana í meira mæli en áður.
Til hliðsjónar hefur ríkiseinkasalan ÁTVR m.a. horft til slíkra þátta í umfjöllun um söluþróun áfengis árin 2020–2021 en þrátt fyrir að álagning stofnunarinnar sé lögbundin, og framlegð jafnan í kringum 15%, jókst framlegð á nafnverði milli áranna 2019 og 2020 um 20% en lækkaði aftur um 2% milli áranna 2020 og 2021. Kristallast ofangreint í því að hagvöxtur á samanburðartímabilinu er nærri 9% á sama tíma og einkaneysla vex um 21% að magninu til (þ.e. á föstu verðlagi).
Fleiri þættir en undirliggjandi samfélags- og efnahagsþróun kunna að hafa áhrif á þróun framlegðar í krónum. Breytt neysluhegðun hefur áhrif á heildarframlegð, án þess að til komi breyting í álagningu af hálfu seljenda, svo sem þegar neytendur sækja í auknum mæli í vörur með meiri framlegð úr vörum sem hafa minni framlegð, og öfugt.
Til að mynda má ætla að sérvara sem er seld í dagvöruverslunum, eins og t.d. ýmsar snyrtivörur, fatnaður, eldhúsáhöld, ljósaperur, leikföng o.fl. beri hærri framlegð en önnur vara auk þess sem veltuhraði er að miklum mun lægri en í tilviki matvöru.
Þá má nefna verslanir sem selja „eigin framleiðsluvörur“ sem veita merkjavörum samkeppni. Þær eru oft þær ódýrustu á markaðinum en geta þrátt fyrir það borið háa framlegð. Dæmi um slíkt eru vörur sem bera merki Euroshopper, First Price og Bowl and Basket. Að auki eru verslanir æði misjafnar og erfitt að bera saman lágvöruverðsverslanir við aðrar matvöruverslanir. Þannig er fjöldi vara í lágvöruverslunum oft aðeins hluti fjölda vara sem eru seldar í öðrum verslunum. Því kann breyting á samsetningu á flokkum verslana sem eru í úrtakinu á því tímabili sem undir er að hafa áhrif á niðurstöður greiningar SKE, t.d. ef hlutur lágvöruverðsverslana í verslun minnkar eða eykst.
Ljóst er að erfitt er að draga skýrar ályktanir af þeim gögnum sem birt eru um framlegð fyrirtækja af dagvörusölu í milljörðum króna í umræðuskjali SKE. Sjónum ætti heldur að beina að hlutfalli framlegðar af rekstrartekjum, en líkt og áður segir hefur framlegðarhlutfall í dagvörusölu aðeins hækkað um 0,7 prósentustig á tímabilinu 2017–2021.
Ef breytileiki gagnanna er mikill og verslanirnar í úrtakinu í eðli sínu mjög ólíkar er hins vegar ávallt spurning hvort nokkurt gagn sé af samanburðinum. Ætla verður að breytileiki í samsetningu verslana í landi þar sem íbúar eru fáir geri það að verkum að meira næmis gæti með tilliti til breytinga á aðstæðum, t.a.m. breytinga á neytendahegðun.
Því er t.d. ekki loku fyrir það skotið að á tímum vaxandi kaupmáttar skapist ríkara svigrúm fyrir rekstur annarra verslana en lágvöruverðsverslana en undir kringumstæðum þar sem kaupmáttur er að dragast saman dragist svigrúmið saman.
Líkt og fyrr segir er tímabilið sem Samkeppniseftirlitið leggur til grundvallar ekki lýsandi fyrir rekstur á þeim mörkuðum sem greiningin tekur til. Þá er ekki vikið að nýjustu þróun og hvernig álagning hefur þróast síðustu misseri. Gögn um það eru takmörkuð, en á Íslandi eru þó tvö almenningshlutafélög sem birta uppgjör ársfjórðungslega og keppa á tveimur af þeim mörkuðunum sem greiningin tekur til. Uppgjör þeirra félaga benda til þess, svo ekki er um villst, að framlegð á ólíka mælikvarða hafi lækkað talsvert síðastliðið ár eða svo. Framlegðarhlutföll hafa til að mynda ekki verið lægri í að minnsta kosti fjögur ár og þá hefur EBITDA-framlegð í dagvöru og eldsneytisverslun minnkað töluvert, fyrir utan eina undantekningu þar sem hún stóð í stað.
Hefði eftirlitið tekið tillit til þessarar þróunar, sem er eðlilegt þar sem spurningin snýr að álagningu nú en ekki í fortíð, má telja næsta víst að ályktanirnar hefðu verið tölvuvert frábrugðnar.
Í umræðuskjali SKE er framlegð skilgreind sem rekstrartekjur að frádregnu kostnaðarverði seldra vara. Þar er tekið fram að líta megi á framlegð sem þann hluta tekna fyrirtækis sem standa þurfi undir rekstrarkostnaði, fjármagnskostnaði, sköttum og arði til eigenda. Þrátt fyrir það er öðrum kostnaðarliðum en kostnaðarverði seldra vara haldið utan greiningarinnar.
Frá upphafi árs 2017 til ársloka 2021 hækkuðu laun á Íslandi um 36%, og um alls 53% sé árið 2022 talið með, á mælikvarða vísitölu launa. Almennt hafa skattar ekki breyst á tímabilinu. Þó stýrivextir hafi lækkað um þrjú prósentustig, hefur sú vaxtalækkun gengið til baka. Stýrivextir Seðlabankans eru nú einu prósentustigi hærri en þeir voru í upphafi árs 2017.
Laun fyrirtækja á smá- og heildsölumarkaði hafa að öllum líkindum hækkað umfram það sem þróun vísitölu launa gefur til kynna enda stór hluti þess starfsfólks á taxtalaunum. Lífskjarasamningurinn sem undirritaður var snemma árs 2018 fól eingöngu í sér krónutöluhækkanir en af því leiðir að taxtalaun hækka hlutfallslega meira en önnur laun á samningstímanum. Sé litið til þróunar launavísitölu þjónustu-, sölu og afgreiðslufólks sést sú þróun glögglega, en samkvæmt henni hækkuðu laun þessa hóps um 43% á tímabilinu 2017–2021.
Aukin sjálfvirknivæðing fyrirtækja á þessum markaði hefur aftur á móti, í einhverjum tilfellum, stemmt stigu við hækkandi launakostnaði. Líklega má fullyrða að sjálfvirknivæðing hafi ekki orðið til þess að draga úr launakostnaði, heldur einungis komið í veg fyrir enn frekari hækkun hans, að ógleymdum kostnaðinum sem fylgir sjálfvirknivæðingunni sjálfri. Eins og áður sagði þarf framlegð af seldri vöru og þjónustu fyrirtækja að standa undir þessum síhækkandi kostnaðarlið, sem og öðrum, eigi rekstur þeirra að standa undir sér.
Framlegð og framlegðarhlutfall tekur ekki tillit til rekstrarkostnaðar, fjármagnskostnaðar, skatta og arðs. EBITDA-hlutfall (þ.e. EBITDA / rekstrartekjur) tekur aftur á móti tillit til rekstrarkostnaðar og því betur til þess fallið að lýsa stöðu fyrirtækjanna og raunverulegri hagkvæmni í rekstri. Samkvæmt upplýsingum úr ársreikningaskrá má sjá að rekstrarkostnaður vegur þungt í rekstri fyrirtækja og EBITDA-hlutfallið umtalsvert lægra en framlegðarhlutfall þeirra.
Þegar tekið hefur verið tillit til fjármagnskostnaðar og greiðslu skatta er lítið sem stendur eftir, en sem dæmi má nefna að hagnaðarhlutfall rekstrar (þ.e. afkoma / rekstrartekjur) hjá Högum hf. var aðeins 2,9% árið 2021. Samkvæmt nýlegu uppgjöri Festi nam hagnaðarhlutfall rekstrar ársins 2021 6,6% en lækkaði í 3,3% árið 2022. Ef hagnaðarhlutfall Haga er heimfært á ímyndaðan „kaupmann á horninu“ sem selur fyrir 12 milljónir króna á ári, eða eina milljón á mánuði, má reikna með hagnaði upp á einungis 350.000 krónur á ári. Í hverjum mánuði verða því aðeins um 30.000 krónur eftir í rekstri „kaupmannsins á horninu“.
Þó alþjóðlegur samanburður geti verið til margs gagnlegur getur hann einnig verið varasamur. Sé ætlunin að draga af honum haldbærar ályktanir er mikilvægt að slá ekki saman löndum sem hafa ólíka undirliggjandi eiginleika sem skýrt geta stóran þátt í mismun þeirra á milli. Eins og gefur að skilja eru þeir þættir sem taka verður tillit til mismunandi eftir tilefni og stundum hreinlega ekki til staðar. Þegar kemur að dagvörumarkaði er hins vegar deginum ljósara að Ísland verður ekki með góðu móti borið saman við önnur stærri markaðssvæði í Vestur-Evrópu, á borð við Bretland, Þýskaland eða Frakkland, hvað þá Tyrkland sem kemur ítrekað fram í samanburðarhópnum.
Gerðar eru alvarlegar athugasemdir við þann alþjóðlega samanburð sem liggur til grundvallar greiningu SKE. Reyndar má finna fyrirvara í umræðuskjalinu um að gögn séu e.t.v. ekki að fullu samanburðarhæf. Engu að síður er ein helsta ályktun greiningarinnar sú að álagning dagvörusala sé há hér á landi m.v. samanburðarhópinn.
Hver svo sem samanburðarhópurinn ætti með réttu að vera er ljóst að ekki er hægt að draga neinar ályktanir af svo fábrotnu gagnasafni þar sem engin tilraun er gerð til að leggja mat á raunverulegt samanburðarhæfi félaganna né til að leiðrétta fyrir þáttum sem eru ólíkir milli þeirra og gætu skýrt mun á framlegðarhlutföllum með málefnalegum hætti.
Ef ráðast ætti í erlendan samanburð væri skynsamlegra að skilgreina samanburðarhóp út frá ákveðinni forskrift, leita fjárhagsupplýsinga frá slíkum fyrirtækjum og leiðrétta svo fyrir þeim þáttum sem skýrt gætu mun á framlegðarhlutföllum milli þessara félaga.
Samkeppniseftirlitið virðist hafa valið samanburðarhópinn Retail (Grocery and Food) þar sem um dagvöru er að ræða. Eins og rakið er hér að ofan er þó ekki svo að um sé að ræða hreinar dagvöruverslanir. Í gagnasafni Damodaran má hins vegar finna Haga, eins og önnur skráð íslensk félög. Þar eru Hagar flokkaðir sem Retail (General). Festi er aftur á móti flokkað undir Retail (Automotive).
Niðurstöður alþjóðlegs samanburðar eru næmar fyrir samanburðarhópnum enda er framlegð milli þessara geira fremur mismunandi. Ef samanburðarhópurinn Retail (General) hefði verið notaður, þar sem finna má keðjur á borð við Carrefour, Europris og Haga, hefði niðurstaðan raunar verið þveröfug og í ljós hefði komið að framlegðarhlutfallið hjá íslensku dagvöruverslununum væri lægra en hjá evrópskum smásölum, sem nemur um tveimur til fimm prósentustigum (sé notast við gögn og útreikninga SKE). Séu gögn hins vegar fengin úr samstæðuársreikningum íslensku félaganna, eins og hjá öðrum félögum í samanburðarhópnum, er framlegð íslensku félaganna mjög áþekk meðaltali samanburðarhópsins.
Þegar kemur að alþjóðlegum samanburði eru notuð gögn félaga innan samstæðu á Íslandi og þau borin saman við gögn úr samstæðuársreikningum félaga í Evrópu í fjölmörgum löndum og með afar ólíka starfsemi innanborðs. Því er ekki um að ræða hreinan samanburð á framlegð úr dagvöruverslun.
Að auki er ekki leiðrétt fyrir þáttum sem geta skýrt mismunandi framlegð milli landa, svo sem ólíkar markaðsaðstæður og kostnaðarstrúktúr.
Þá er notast við vegið meðaltal hjá íslensku félögunum en hreint meðaltal hjá erlendu félögunum
Notast er við einn mælikvarða, framlegð, til að draga ályktanir um það sem kallað er samkeppnislegt aðhald. Fyrirtæki bjóða hins vegar upp á ólíkt vöruframboð og eru með ólíkan kostnað sem gætu skýrt mismun í framlegð. Til að fá fyllri samanburð milli reksturs félaga þyrfti að skoða fleiri þætti á borð við EBITDA framlegð, hagnaðarhlutfall, virkt skatthlutfall, fjármögnunarkostnað o.fl. eins og áður hefur komið fram. Þá gætu ólíkar reikningsskilaaðferðir jafnvel haft hér áhrif. Ógjörningur er því að draga ályktanir um álagningu og markaðsaðhald út frá einum einföldum mælikvarða á borð við framlegð þar sem samanburðarhópurinn samanstendur að auki af afar ólíkum félögum í afar ólíkum löndum.
Í landi þar sem ýmis kostnaður er hærri en í samanburðarlöndum, s.s. fjármögnunar- og launakostnaður, þyrfti raunar meiri framlegð en ella til að skila ávöxtun sambærilegri við þá sem svipuð félög í öðrum löndum skila. Hér er um að ræða skráð félög á markaði sem eru í alþjóðlegri samkeppni um fjármagn. Félag A í landi X gæti verið með sömu framlegð og félag B í landi Y, en A skilað tapi á meðan B skilar hagnaði. A þyrfti því meiri framlegð til að ná fram sömu rekstrarniðurstöðu og B til að standa straum af hærri kostnaði sem felst í rekstrarumhverfi þess.
Eins og kemur fram í samantekt Samkeppniseftirlitsins er ekki hægt að ábyrgjast að gögn sem miðað er við séu að fullu samanburðarhæf þegar kemur að erlendum samanburði. Óhætt er að taka undir þann fyrirvara þar sem samanburðarhópurinn samanstendur t.a.m. af tyrkneskum lágvöruverðsverslunum, vínframleiðendum, dreifingaraðilum, stórverslunum, samstæðum sem hafa starfsmannafjölda á við íbúafjölda Íslands, samstæðum sem bjóða upp á fjármálaþjónustu og innihalda fasteignafélög svo fátt eitt sé nefnt.
Í þessum samanburðarhópi eru eingöngu tvö til þrjú Norræn félög, eftir því hvaða tímabil er valið. Erfitt er að sjá af hverju dagvöruverslanir Haga, Festi og Samkaupa ættu að vera með framlegð í takt við þessi fjölbreyttu erlendu fyrirtæki. Engu að síður er sú ályktun dregin, fyrirvaralaust, að álagning á dagvöru sé há í alþjóðlegum samanburði.
Miklir gallar á alþjóðlegum samanburði eru sérstaklega umhugsunarverðir þar sem hægt er að nálgast mjög ítarleg gögn eftir rekstrarliðum og atvinnugreinum um rekstur evrópskra atvinnugreina á vef Eurostat í svokölluðum Structural Business Accounts. Þau gögn eiga að vera að mestu samanburðarhæf skv. ákveðnum stöðlum og því vekur furðu að ekki sé litið til slíkra opinberra gagna. Ætla mætti að slík gögn séu nauðsynlegur hluti af alþjóðlegum samanburði.
Dæmi um slíkan samanburð má sjá í smásölu hér að neðan. Þar sést til dæmis að framlegð á Íslandi er hærri en á Norðurlöndunum og í ESB. Eins og fram hefur komið gæti það verið af ýmsum ástæðum, t.d. samsetningu og stærð undirliggjandi fyrirtækja sem og kostnaðar við rekstur í viðkomandi landi.
Ef við skoðum hins vegar framlegð vergs rekstrarafgangs, þar sem hefur að einhverju leyti verið tekið tillit til mismunandi launa- og rekstrarkostnaðar, fyrir utan helst fjármagnskostnað, má sjá að Ísland er og hefur verið mjög nærri ESB og Norðurlöndunum. Árin 2018 og 2019 var hlutfallið t.d. lægra en í ESB. Ef tekið væri tillit til mismunandi fjármagnskostnaðar má fastlega gera ráð fyrir því að hlutfallið fyrir Ísland væri lægra í samanburði við hin ríkin.
Þegar framlegðarhlutfall dagvörukeðja er skoðað sérstaklega fyrir innlendar vörur annars vegar og erlendar vörur hins vegar, þar sem erlendum vörum er enn fremur skipt upp eftir því hvort þær eru keyptar af innlendum heildsala eða fluttar inn af dagvörukeðjum beint, er dregin upp sérstök mynd. Mest er framlegðarhlutfallið á erlendum vörum sem dagvörukeðjurnar flytja inn sjálfar, þar á eftir kemur erlend vara sem keypt er af innlendum heildsölum, þ.s. framlegðarhlutfall heildsalans er þó ekki meðtalið, og síðast innlend vara.
Það er ekkert launungarmál að dagvörukeðjur hafa leitað leiða til að flytja inn vörur án aðkomu innlendra heildsala í sífellt meira mæli á undanförnum árum. Eru þar á ferðinni samhliða innflutningur vara sem innlendir heildsalar selja, innflutningur vara undir eigin merkjum og merkjum innkaupasambanda sem hafa ríka staðgöngu við vörur heildsalanna og vörur sem innlendir heildsalar hafa ekki boðið á íslenskum markaði. Sú samkeppni sem þarna hefur myndast gagnvart innlendum heildsölum hefur orðið til þess að setja almennt aukinn þrýsting á verð til lækkunar, eðli máls samkvæmt. Hafa verður í huga að innflutningi af þessu tagi fylgir kostnaður sem annars er á herðum heildsalans, svo sem vegna birgðahalds og fyrninga í vöruhúsi, sem framlegð þarf að standa undir, rétt eins og öðrum rekstrarkostnaði.
Ljóst má vera að innlendir heildsalar búa ekki aðeins við innlenda samkeppni heldur einnig erlenda, á sama tíma og þeir reiða sig mjög á gangverk alþjóðlegra virðiskeðja. Ekki aðeins lagðist þjónusta heildsala við stóreldhús, s.s. á veitinga- og gististöðum, í dvala á meðan á samkomutakmörkunum vegna heimsfaraldurs stóð með tilheyrandi áhrifum á framlegð og rekstur þeirra. Að auki hafa bæði heimsfaraldur kórónuveiru og stríðið í Úkraínu valdið hnökrum á gangverki alþjóðlegra viðskipta undanfarin misseri og valdið margvíslegum truflunum á framboði ýmissa vara. Framboðstruflanir hafa margar hverjar haft töluverð áhrif á heimsmarkaðsverð sem svo hefur haft áhrif á verðlagsþróun algengra neysluvara. Í samfélagsumræðunni hefur borið á vangaveltum um hvort vöruverð fylgi þeirri þróun sem orðið hefur á heimsmarkaði, jafnt hvort sem um er að hækkanir eða lækkanir, en er þá að mörgu að huga.
Samband milli heimsmarkaðsverðs á hrávöru og verðs á lokaafurð frá framleiðanda er sjaldnast þess eðlis að verðbreytingar á hrávörumarkaði skili sér hratt í verði lokaafurðar. Algengt er t.d. að framleiðendur lokaafurða verji sig gagnvart verðsveiflum með langtímasamningum við kaup á hrávörum.
Hvernig verðbreytingar á hrávörumarkaði skila sér í verði á lokaafurð veltur á því hvenær verðbreytingar koma fram hjá lokaframleiðanda. Í sumum tilvikum gera innflytjendur hér á landi samninga um kaupverð til einhverra mánaða í senn við birgja erlendis.
Að auki má ætla að gætt hafi tilhneigingar til að semja um að festa verð í ljósi óvissu, annars vegar vegna heimsfaraldurs og hins vegar stríðsins í Úkraínu. Í ýmsu tilliti kann því að verða töluverð töf frá því að verð tekur að breytast á hrávörumarkaði þar til breytingin skilar sér í verði til innflytjenda og smásöluaðila hér á landi. Má til að mynda sjá áhrif þessa með því að líta til opinberra gagna um verðþróun á kaffi, annars vegar hér á landi og hins vegar m.t.t. verðþróun á heimsmarkaði (að teknu tilliti til gengisbreytinga). Heimsmarkaðsverð hækkaði töluvert um mitt ár 2021, umfram það sem mælst hefur í vísitölu neysluverðs frá upphafi árs 2020, en smásöluverð á kaffi tók þó ekki að hækka svo nokkru næmi fyrr en við upphaf árs 2022.
Í öðru lagi krefjast flestar vörur fleiri aðfanga við framleiðslu en einnar hrávöru, t.a.m. er rafmagn þar oftar en ekki stór þáttur, jafnvel þó lokaafurðin sé einföld og hrávaran áberandi í lokaafurðinni, líkt og í tilfelli kaffis. Þá þarf einnig að horfa til þáttar flutningskostnaðar sem hefur verið óvenjumikill undanfarin misseri. Jafnvel þó hrávöruverð taki breytingum er því ekki þar með sagt að verðlag á lokaafurð taki breytingum samhliða.
Landbúnaðarvörur eru verulegur hluti innkaupakörfu íslenskra heimila. Af upplýsingum Samkeppniseftirlitsins um meðalframlegðarhlutfall erlendra og innlendra vara í dagvörukeðjum verður því að draga þá ályktun að framlegð af sölu innlendra landbúnaðarvara sé mun lægri en af innfluttri vöru, hvort sem um er að ræða eigin innflutning eða þeim sem keyptar eru af innlendum heildsölum. Að mati samtakanna gefur það sterka vísbendingu um að hin lága framlegð af landbúnaðarvörum kalli að óbreyttu á hlutfallslega meiri framlegð af innfluttum vörum.
Þetta mætti allt eins orða eitthvað á þá leið að ef landbúnaðarvörur hafa framlegð sem stendur ekki undir kostnaði við að selja þær liggur í augum uppi að aðrar vörur þurfa meiri framlegð til að rekstur standi undir sér. Óhætt er að ætla að viðskiptakostnaður vegna sölu ferskvara og frosinna vara sé að jafnaði mun hærri en annarra vara m.a. þar sem reka þarf frysta og kæla í verslunum til framsetningar þeirra.
Ísland, Noregur og Sviss eiga það sameiginlegt að viðhafa mikla landbúnaðarvernd, raunar umtalsvert meiri en þeirra helstu samanburðarlönd. Má þetta m.a. greina af tollaágripum (World Tariff Profiles) og annarri umfjöllun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar1 . Þetta eru jafnframt þau lönd þar sem verðlag á mat- og drykkjarvöru var hæst innan Evrópu árið 2021, líkt og bent er á í greiningu SKE.
Samkvæmt upplýsingum frá OECD má sjá að á Íslandi fengu bændur því sem nemur 96% hærra verði að jafnaði fyrir sína vöru á heimamarkaði en þeim hefði boðist á heimsmarkaði, mest allra innan OECD. Framleiðandaverndin er ekki jafn mikil í Noregi og Sviss, þar sem hún er um 45%, en þó umtalsvert meiri en að jafnaði innan ESB (3%) eða OECD (8%).
Þó almennt sé rætt um að framleiðendavernd í landbúnaði grundvallist annars vegar á ríkisstuðningi og hins vegar tollvernd grundvallast hún í raun á fjórum meginstoðum, þ.e. beinum ríkisstuðningi, tollvernd, verðstýringu mjólkurvara og rekstri afurðastöðva í mjólkuriðnaði utan gildissviðs ákvæða samkeppnislaga, og síðast en ekki síst ríkri kerfistilhneigingu í átt til verndar. Til að mynda hafa hagsmunasamtök bænda og fyrirtækja í landbúnaði lagst gegn tollalækkunum á vörum sem eru ekki framleiddar á Íslandi og tímabundnum tollaniðurfelling vegna innflutnings frá Úkraínu. Þá hefur Alþingi gert breytingar á úthlutunarfyrirkomulagi tollkvóta m.t.t. aðstæðna innlendra framleiðenda. Undir slíkum kringumstæðum er samkeppni skert í þágu framleiðslustarfa sem öðrum kosti væru annars eðlis, hvort sem litið er til framleidds magns eða rekstrarforsendna. Ætla má að hagræðingarvilji í íslenskum landbúnaði sé því mun minni en ella.
Framlag neytenda til landbúnaðar er því margþætt hér á landi. Verðlagi erlendra vara er haldið uppi í þeim tilgangi að tryggja að neytendur velji og greiði fyrir innlendar framleiðsluvörur. Bent hefur verið á að innlendar vörur séu að jafnaði á bilinu 55–70% af magni innkaupakörfu meðalheimilis og allt að 80% heildarverðs. Því er augljóst að á meðan verði innlendra vara er haldið uppi að tilstuðlan ríkisvaldsins og framlegð er lág skapast verðlagsþrýstingur á erlendar vörur enda þarf verð þeirra að standa undir hlutfallslega miklum hluta tekna í dagvöruverslun. Undir þessum kringumstæðum má ætla að hækkanir á innkaupsverði erlendra vara kalli á hækkanir smásöluverðs. Því meira sem neytendur kaupa af innlendum vörum hækkar smásöluverð erlendra vara að tiltölu.
Hafa þarf, meðal annars, allt ofangreint í huga þegar rætt er um verðlag á matvöru hér á landi. Rík landbúnaðarvernd hefur fórnarkostnað í för með sér sem ekki kemur aðeins fram í verði innlendra vara heldur einnig í smásöluverði erlendra vara. Enginn virðist hafa auga á fórnarkostnaðinum af hálfu stjórnvalda. Þá hafa engin merki verið gefin um að hann hafi eitthvert hámark eða til staðar sé nokkurt viðmið sem stjórnvöld styðjast við. Þvert á móti má gera því skóna að hagsmunir landbúnaðar og afurðastöðva séu jafnan látnir ganga framar hagsmunum neytenda.
Fríðindi samkvæmt fríverslunarsamningum geta haft jákvæð áhrif á ábata neytenda. Ef tekið er mið af upplýsingum sem koma fram í mælaborði landbúnaðarins nam innflutningur svínakjöts um 26% heildarframboðs árið 2022, innflutningur nautakjöts 23% og alifuglakjöts 24% framboðsins. Aðeins 35% innflutnings svínakjöts var hins vegar á sama tíma fluttur inn á grundvelli tollkvóta, 54% nautgripakjöts og 32% alifuglakjöts. Það sem eftir stendur var flutt inn á fullum tollum eða tollum samkvæmt fríverslunarsamningum. Ef horft er til hlutdeildar innlendra vara í vörukörfum landsmanna og hlutfalls innflutnings af heildarframboði sést glögglega að innflutningur er í raun viðbót á íslenskan markað. Þar sem framboð ýmissa landbúnaðarvara er tiltölulega óstöðugt á Íslandi má segja að innflutningurinn myndi að einhverju marki stöðugleika í framboði. Umfang hans virðist þó ekki með órækum hætti gefa þá mynd að af innflutningum hljótist samkeppnislegt aðhald.
Lág hlutdeild innflutnings á grundvelli tollkvóta segir hins vegar ekki alla söguna því til að hljóta úthlutun þurfa innflytjendur að greiða svokallað útboðsgjald. Fjárhæð útboðsgjaldsins ræðst með einum eða öðrum hætti af eftirspurn eftir tollkvóta. Á myndinni hér að neðan má sjá hvernig úthlutunarverð tollkvóta vegna innflutnings frá ríkjum ESB hefur þróast vegna innflutningsára frá 2018.
Á heildina litið ber myndin e.t.v. ekki með sér að sú tollvernd sem felst í úthlutunargjaldi tollkvóta hafi vaxið mikið á tímabilinu. Hins vegar þarf að horfa til atvika sem hafa átt sér stað á tímabilinu til að skýra hana nánar. Í fyrst lagi náði úthlutað magn tollkvóta ekki endanlegri stöðu fríverslunarsamnings Íslands og ESB fyrr en á seinni hluta árs 2021. Hátt verð á árinu 2018 helgaðist af mikilli umframeftirspurn vegna fjölda ferðamanna sem sótti landið heim. Við úthlutanir í kjölfar falls Wow-air lækkar verðið. Svokallað jafnvægisútboð var einnig tekið upp og nýtt til úthlutunar vorið 2019 í stað úthlutunar til hæstbjóðenda. Úthlutun til hæstbjóðenda var svo tekin upp að nýju til bráðabirgða í desember 2020 og var útboðum þannig háttað til 1. ágúst 2022 þegar jafnvægisútboð tók gildi að nýju. Hagstæðustu aðstæður til kaupa á tollkvóta höfðu því skapast á seinnihluta árs 2022 þegar jafnvægisútboð var nýtt við úthlutun og úthlutað magn hafði náð hámarki. Þá brá hins vegar svo við að miklar verðhækkanir komu fram. Ætla verður að úthlutunartímabilin frá mars 2020 til mars 2021 gefi vissa mynd af því hvar eðlilegt úthlutunarverð liggur miðað við úthlutun til hæstbjóðanda undir kringumstæðum þar sem stærstur hluti sölu til neytenda á sér stað í dagverslunum. Eftir þann tíma tekur ferðamannaneysla að hafa veruleg áhrif á úthlutunarverðið. Eins og sjá má á myndinni hefur úthlutunarverð sveiflast verulega á tímabilinu sem undir er. Slíkar sveiflur ásamt þeim skamma tíma sem líður frá auglýsingu til úthlutunar gera það að verkum að mjög örðugt er að skapa varanleg viðskiptasambönd vegna innflutnings landbúnaðarvara. Þá er kvótum jafnan úthlutað til skamms tíma í senn, þ.e. sex mánaða. Fyrir vikið má gera ráð fyrir að innflutningsverð varanna sé að jafnaði hátt hér á landi.
Umfjöllun Samkeppniseftirlitsins um eldsneytismarkaðinn er verulega sérstök. Fyrir það fyrsta er í engu getið um framlegðarhlutföll þó það sé gert í tilviki annarra markaða heldur er látið við það sitja að gefa framlegðartölur upp í krónum.
Þá er ekki fjallað um eldsneytissölu Costco sem þó er einn stærsti smásöluaðili eldsneytis þegar litið er til sölu erlendis. Samanburður milli álagningar á bensín og dísilolíu, á Íslandi annars vegar og Bretlandi og Írlandi hins vegar, kemur fram á glæru 28. Fjallað er um þróun smásöluálags á bensíni frá lokum árs 2017 til og með júlí 2022 á glæru 30 en af myndinni á glærunni leiðir að álagningin lá á bilinu 40–55 kr./l. til loka árs 2022 er hún tók að lækka. Á árinu 2022 virðist álagningin hafa legið á bilinu 30–50 kr./l. og verið nokkuð mismunandi eftir staðsetningu útsölustaða, þéttbýli-dreifbýli. Tekið er fram að tilkoma afsláttarstöðva sé líkleg skýring lækkunar álagningar í þéttbýli en álagning hafi verið stöðugri í dreifbýli. Þó er lækkun álagningar tilgreind fyrir bæði þéttbýli og dreifbýli og í öllum tilvikum hefur hún lækkað. Af myndinni verður einnig ráðið að á síðasta mánuði tímabilsins, júníjúlí 2022, var álagningin á niðurleið. Á glærum 31 og 32 er fjallað um smásöluálag á dísilolíu og dregin sú ályktun að álagið hafi verið stöðugt á tímabilinu að Akureyri undanskilinni sem hafi tekið töluverðri lækkun. Ekki verður betur séð en að í framhaldinu, á glærum 33 og 34, sé gefið til kynna að hlutur olíufélaga hafi tvöfaldast frá því í maí 2022. Þar byggir SKE þó ekki á gögnum sem eru beinlínis tilgreind í umfjöllun um gögn og aðferðarfræði á glæru 9 heldur annars vegar umfjöllun fjölmiðils og hins vegar umfjöllun hagsmunasamtaka bifreiðaeigenda. Ekki verður hjá því komist að gera athugasemdir við þessa framsetningu.
Í fyrsta lagi er ekkert samræmi milli framlegðar olíufélaga af bensínlítra samkvæmt greiningu SKE, eins og hún birtist á glæru 30 og útreikninga Kjarnans á glæru 33 en þeir skarast þar sem báðir aðilar gefa upp framlegð fyrir maí–júlí 2022. Á meðan framlegðin virðist nokkuð stöðug samkvæmt útreikningum SKE í maí, hækkar lítillega í júní og lækkar í júlí fer hún stöðugt hækkandi frá maí samkvæmt útreikningum Kjarnans. Ef miðað er við sölu á höfuðborgarsvæðinu í júlí telur SKE hana hafa numið c.a. 33 kr./l. en Kjarninn að þá hafi framlegðin numið um 50 kr./l.
Í öðru lagi byggir Kjarninn útreikninga sína á staðgreiðsluverði bensíns á hafnarbakka í New York borg en FÍB á heimsmarkaðsverði bensíns ásamt samanburði við bensínverð í Danmörku. Ef vöruviðskiptaupplýsingar Hagstofu Íslands eru skoðar kemur hins vegar á daginn að bæði bensín og dísilolía sem hingað er flutt eru nær alfarið upprunnin í Noregi. Fyrir því er ástæða og hún er sú að lega Íslands og smæð markaðarins gerir það að verkum að íslensk fyrirtæki hafa ekki úr fleiri kostum en einum að velja við val á viðsemjanda og eru því í veikri stöðu. FÍB hefur reyndar ranglega haldið því fram um nokkra hríð á íslensku olíufélögin kaupi eldsneyti beint af Equinor við olíutanka í Örfirisey. Hið rétta er að eldsneyti í tönkunum er í eigu olíufélaganna, keypt af Equinor erlendis með verðtengingu við Amsterdamverð með álagi og flutningi. Afhending eldsneytis á sér því ekki stað til íslensku olíufélaganna á hverjum degi heldur um tvisvar í mánuði. Þau eru því í annarri stöðu en sambærileg félög víða erlendis þar sem íslensku félögin þurfa sjálf að fjármagna birgðahald í heild sinni en geta ekki sótt í birgðir framleiðenda dag frá degi. Þá eru greiðsluskilmálar olíufélaganna ekki staðgreiðsla, greitt er meðalverð á ákveðnu tímabili auk álags og endanlegt kaupverð liggur því ekki fyrir fyrr en um mánuði eftir afhendingu. Því getur verð á birgðum í raun tekið breytingum eftir að þær eru komnar í hendur söluaðila hérlendis. Þetta sést m.a. af vöruviðskiptaupplýsingum Hagstofu Íslands sem gefa glögglega til kynna að ekki er beint samhengi milli staðgreiðsluverðs á New York höfn og tollverðs hér á landi. Hið sama á við ef heimsmarkaðsverð er borið saman við tollverð hér á landi. Gefa gögnin t.d. til kynna að umtalsverð tímatöf sé milli lækkana á New York höfn og hér á landi, eða sem nemur 30–60 dögum. Þá breytist Amsterdamverð í allt öðrum takti en verð á New York höfn en þrátt fyrir það heldur Kjarninn (nú Heimildin) því fram en ekki sé í raun munur milli verðs í New York og Amsterdam. Þá flækir það myndina enn að staða krónunnar gagnvart Bandaríkjadollar veiktist á seinni hluta árs 2022 allt þar til í desember þegar hún styrktist lítillega en tímabilið í heild var olíufélögunum ekki hagstætt í því tilliti.
Í þriðja lagi taka hvorki Kjarninn né FÍB tillit til þess í útreikningum sínum að söluaðilum eldsneytis er skylt að samkvæmt ákvæðum laga nr. 40/2013, um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi, að tryggja að minnst 5,0% af heildarorkugildi eldsneytis til notkunar í samgöngum á landi á ári sé endurnýjanlegt eldsneyti. Til að ná þessu marki eru bensín og dísilolía blönduð efni af öðrum uppruna en jarðefnauppruna. Innkaupakostnaður íblöndunarefna hefur jafnan verið töluverð hærri en innkaupakostnaður bensíns og dísilolíu en þar sem efnin eru undanþegin vörugjöldum á eldsneyti hefur ekki miklu á milli munað þegar upp er staðið. Á því varð hins vegar gerbreyting á árinu 2021 þegar íblöndunarefni í dísilolíu hækkaði um 60% milli ára. Um þessar mundir er verð á íblöndunarefni enn mun hærra en innkaupsverð á bensíni og dísilolíu. Markaður með íblöndunarefni er alls ekki jafn djúpur og markaður með bensín og dísilolíu og því eru verðhreyfingar ekki eins tíðar auk þess sem allt önnur lögmál ráða breytingunum. Má t.d. gera ráð fyrir því að íblöndunarefni í dísilolíu hafi a.m.k. kostað rúmar 200 kr./l. í innkaupum á síðasta ári. Bensínlítri hefur um 8,9 kWh orkugildi en um 1,7 lítra af íblöndunarefni þarf til að ná fram sama orkugildi. Dísilolíulítri hefur um 10 kWh orkugildi en um 1,3 lítra af íblöndunarefni þarf til að ná fram sama orkugildi. Því er hlutfall íblöndunarefnis í bensín mun hærra en í tilviki dísilolíu.
Í fjórða lagi nota bæði Kjarninn og FÍB uppgefið dæluverð sem viðmið. Í því tilliti er hvorki tekið tillit til afsláttarkjara sem fastir viðskiptavinir og stórnotendur njóta.
Allt framangreint leiðir til þess að framlegð íslensku olíufélaganna er ofáætluð.
Rétt er að geta þess að hér á landi gegna íslensku olíufélögin í senn hlutverki heildsala og smásala. Sala á landsbyggðinni er fyrirferðarmest í tilviki stórra notenda á borð við útgerðarfélög en stærri kaupendur er einnig að finna á höfuðborgarsvæðinu. Þá selur íslenskt olíufélag t.d. Costco eldsneyti í heildsölu. Kostnaður við afhendingu eldsneytis er mismunandi eftir því hver viðtakandi er. Kostnaður er t.d. afar hár vegna afhendingar eldsneytis á eldsneytisstöð í Norðurfirði á Ströndum í samanburði við afhendingu á höfuðborgarsvæðinu. Helgast það ekki aðeins af því að fara þarf um lengri leið við afhendingu heldur er veltuhraði afar lágur víða í dreifbýli. Taka verður tillit til þess að í ýmsu tilliti þjónusta íslensku olíufélögin landsvæði sem dagvöruverslun þjónustar jafnvel ekki þ. á m. lágvöruverðsverslanir. Eðlilega er samkeppni á mörgum þessara staða ekki til staðar enda í mörgum tilvikum ekki forsendur til hennar. Hafa verður í huga að íbúar Íslands eru um 0,56% af íbúafjölda Bretlands og um 7,4% af íbúafjölda Írlands. Þá er íbúaþéttleiki hér á landi allt annar, eða 3,65 íbúar á hvern ferkílómeter samanborið við 60,2 íbúa á ferkílómeter í Írlandi og 276,4 íbúar í Bretlandi. Þá má ætla að atvinnusvæði á landsbyggðinni á Íslandi séu mjög dreifð í samanburðinum. Stærðarhagkvæmni er því í mörgum tilvikum ekki í myndinni á Íslandi í þessum samanburði. Ætla má að um 63% íbúa á Íslandi búi á höfuðborgarsvæðinu en fleiri sækja þangað vinnu af nærliggjandi svæðum. Ef íbúafjölda Akureyrar er bætt við má gera ráð fyrir að nálega 70% íbúa búi í stærstu þéttbýliskjörnum Íslands. Eins og framlegðarupplýsingar SKE gefa til kynna er framlegð lægst þar sem íbúaþéttleiki er mestur enda má þar ná fram meiri hagkvæmni en þar sem aðstæður eru aðrar. Þá getur skipt sköpum í tilviki dreifbýlisins ef þar er unnt að selja stærri kaupendum eldsneyti enda er slík afhending til þess fallin að draga úr kostnaði. Þetta sést m.a. á því að Atlantsolía rekur ekki sölustaði í dreifbýli væntanlega vegna hás kostnaðar. Á móti kemur þó opinber jöfnun flutningskostnaðar olíuvara. Sú jöfnun byggist þó á forsendum sem ekki hafa skilað fullri jöfnun í kostnaðarlegu tilliti.
Ef gripið er til nærtæks samanburðar gefa vöruviðskiptaupplýsingar Hagstofu Íslands til kynna að um 142 millj. lítra af bensíni hafi verið fluttir inn árið 2022 og um 620 millj. lítra af dísilolíu. Á sama tíma nam eldsneytisnotkun í vegasamgöngum einum í Noregi um 70 millj. lítra af bensíni og um 230 millj. lítrum af dísilolíu í hverjum almanaksmánuði ársins samkvæmt upplýsingum frá norsku hagstofunni. Heildarinnflutningur Íslands í lítrum talið til allra nota hér á landi, þ. á m. í sjávarútvegi nam því samanlagt einungis 21% af eldsneytisnotkun í vegasamgöngum í Noregi 2022.
Að mati samtakanna er því ekki aðeins ljóst að ályktanir á borð við þá að spurningar vakni um hvort samkeppnislegt aðhald sé hér nægileg í tilviki eldsneytismarkaðar styðjast ekki við nægileg gögn heldur eru þau gögn sem dregin eru inn í myndina að hluta til byggð á misskilningi. Hin auðsjáanlegu vandamál eldsneytismarkaðarins eru fyrst og fremst hár kostnaður, m.a. í dreifbýli, og slök samningsstaða gagnvart erlendum birgja. Á þéttbýlissvæðum þar sem framlegð er lægri en í dreifbýli er ekki aðeins samkeppni að þakka heldur lágum kostnaði að tiltölu.
Rétt er að endingu að benda á að á seinni hluta ársins 2022 þróaðist innkaupaverð á dísilolíu með allt öðrum hætti en innkaupaverð bensíns. Frá miðjum júlí hefur má segja að verðsamhengið hafi rofnað þegar verð á dísilolíu tók að standa mun hærra en verð á bensíni. Þó svipuð verðleitni sé til staðar stóð verð á tonni dísilolíu enn rúmlega 12% hærra í desember 2022 en verð á tonni bensíns. Með þetta í huga og þá staðreynd að innflutt bensín nam aðeins tæpum 19% af innflutningi jarðefnaeldsneytis á síðasta ári hefði verið skynsamlegt að leggja nánari vinnu í undirbúning og framsetningu upplýsinga um dísilolíu.
Ekki þarf að leita langt aftur í íslenskri efnahagssögu til að finna tímabil mikillar verðbólgu, aðeins rúmur áratugur er síðan verðbólga mældist síðast yfir 10% á ársgrundvelli. Það er hins vegar svo að frá upphafi árs 2014 út árið 2021 ríkti fádæma verðstöðugleiki hér á landi. Jákvæðir búhnykkir í formi batnandi viðskiptakjara, vaxandi framleiðni, vexti ferðaþjónustu, styrking krónu og niðurfelling ýmissa tolla og vörugjalda bjuggu í sameiningu að viðskiptaumhverfi sem stuðlaði að stöðugri verðbólgu. Í dag eru tímarnir aðrir. Líkt og segir á sérstöku upplýsingasíðunni eru ýmsar ástæður fyrir því að verðbólga hefur færst í aukana undan farin misseri. Stríðsrekstur, hnökrar í aðfangakeðjum, viðbrögð stjórnvalda við heimsfaraldri kórónuveiru, sveiflur á hrávörumörkuðum og loftslagsbreytingar eru talin til. Við þetta má ýmsu bæta en þar fer þróun launakostnaðar fremst í flokki. Hafa þessir þættir allir sett mark sitt á verðlag um allan heim að undanförnu.
Á verðbólgutímum kappkosta seðlabankar heimsins að tryggja kjölfestu verðbólguvæntinga og ekki að ástæðulausu. Flosni undan verðbólguvæntingum kann verðbólga að þróast úr hófi einungis verðbólgunnar vegna. Við slíkar aðstæður gera einstaklingar og fyrirtæki ráð fyrir síhækkandi verðlagi í áætlunum sínum og samningum sem að endingu gerir það að verkum að spár þeirra rætast af sjálfu sér. Með öðrum orðum, þegar verðbólguvæntingar eru óskorðaðar er óeðlilegt annað en að gera ráð fyrir að fyrirtæki séu líklegri en ekki til að hækka verð. Á það við hvort sem samkeppni á mörkuðum er mikil eða lítil enda líklegra en ekki að almenn hækkun verðlags, þ.e. verðbólga, komi niður á rekstri fyrirtækja ella, með einum eða öðrum hætti.
Ljóst er að óþarft er að tortryggja verðhækkanir í hvívetna eða skella skuldinni á samkeppnisbrest, eðlilegar og gildar ástæðir kunna að liggja að baki verðhækkana, sérílagi í árferði eins og því sem geysað hefur undanfarin misseri. Heilbrigð samkeppni er af hinu góða en getur þó ekki læknað öll mein.