29. nóvember 2024

10 aðgerðir fyrir sterkari Evrópu

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

10 aðgerðir fyrir sterkari Evrópu

Stór hluti lagaumhverfis atvinnulífsins kemur frá Evrópusambandinu. Áhersla Samtaka atvinnulífsins í erlendum samskiptum snýst því fyrst og fremst um að gæta hagsmuna íslenskra fyrirtækja gagnvart þeirri löggjöf. Það er gert með aðild SA að ráðgjafarnefnd EFTA, Business Europe og norrænu samstarfi. Auk þess er SA aðili að BIAC, Business at OECD, auk fleiri nefnda innan OECD.

Evrópusamtök atvinnulífsins, BusinessEurope, eru leiðandi hagsmunasamtök í Evrópu sem leggja áherslu á samkeppnishæfni, hagsæld og tækifæri. Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins eru aðilar fyrir hönd íslenskra atvinnurekenda en innan Evrópusamtakanna má finna hagsmunasamtök sem eru í forsvari fyrir meira en 20 milljón fyrirtæki í 36 evrópskum löndum.

Fundur forsvarsmanna hagsmunasamtaka á vegum Evrópusamtakanna fór fram í Varsjá dagana 28. og 29. nóvember, þar sem Pólland tekur við forsæti í ESB í upphafi árs 2025.

Á fundunum í Varsjá fóru m.a. fram hringborðsumræður þar sem umfjöllunarefnin voru; „ Fólksflutningar sem tækifæri “ og „ Uppbygging seiglu í evrópsku hagkerfi sem brugðist getur við neyðarástandi “. Þá var fundað með Andrzej Duda, forseta Póllands, þar sem Evrópusamtökin fóru yfir sín forgangsmál í forystu Póllands. Hlutverk atvinnulífsins við enduruppbyggingu Úkraínu var til umræðu og forgangsmál sett á oddinn til þess að hægt sé að halda fyrirtækjum og hagkerfi Úkraínu á flot. Þar var m.a. rætt hvernig styðja megi við þau markmið með öðrum hætti en veittri fjárhagsaðstoð. Svokölluð Niinistö skýrsla var einnig krufin en hún fjallar um það hvernig styrkja megi borgaralegan og hernaðarlegan viðbúnað.

Lykiláherslur Póllands í forsæti ESB verða öryggi í víðum skilningi; hernaðarlegt, net- og gagnaöryggi, upplýsingaöryggi, loftslagsmál, matvæli og landbúnaður, heilbrigði og orkuöryggi.

Sterkari efnahagur er nauðsynlegur fyrir öryggi

Verulega hefur hægt á hagvexti í ESB undanfarin ár og samkvæmt greiningum Evrópusamtaka atvinnulífsins er einungis gert ráð fyrir 0,9% hagvexti árið 2024 og 1,3% hagvexti árið 2025 innan ESB. Yfir tveggja ára tímabil, frá miðju ári 2022 til 2024, nam hagvöxtur innan ESB einungis 1,2%.

Hátt orkuverð, minnkandi samkeppnishæfni og nýting undir framleiðslugetu eru áskoranir fyrir evrópsk fyrirtæki. Sé horft til næstu sex mánaða fer rekstrarumhverfið versnandi en ekki batnandi samkvæmt 2/3 samtaka innan Evrópusamtakanna.

10 aðgerðir fyrir sterkari Evrópu

Næstu 18 mánuðir munu hafa afgerandi áhrif og stjórnvöld í Brussel þurfa að sýna vilja í verki þegar kemur að samkeppnishæfu rekstrarumhverfi fyrirtækja. Evrópusamtök atvinnulífsins leggja áherslu á 10 aðgerðir fyrir stofnanir innan ESB. Þær aðgerðir voru lagðar fram með yfirlýsingu á fundinum og er ætlað að vera framkvæmdar í forsætistíð Póllands í Evrópusambandinu:

Öryggis- og varnarmál: Skapa skilyrði fyrir öryggi, viðbúnað og framleiðslugetu í evrópskum varnariðnaði. Samþætta evrópskan markað fyrir varnir og tryggja að sjálfbærnireglur styðji fjárfestingu í varnariðnaðinum.

Nýr og hreinn iðnaðarsamningur: Tryggja að hann innihaldi einföldun regluverks, hröðun leyfisveitinga, hagkvæmara orkuverð, hvetji til nýsköpunar og þróunar, taki á skorti vinnuafls og hæfni ásamt því að auka fjölbreytileika í útflutningi og innflutningi.

Orka og loftslag: Mótvægisaðgerðir vegna kolefnisleka, breytileika í orkuverði fyrir stórnotendur, hraða skilgreiningu CBAM viðmiða og ef CBAM nær ekki árangri þarf að endurskoða úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda nógu snemma til þess að tryggja vernd gegn kolefnisleka.

Innri markaðurinn: Móta metnaðarfulla stefnu til þess að fjarlægja hindranir í vegi fjórfrelsisins og auka áherslu á framkvæmd sem styður viðskipti og eykur framleiðni. Schengen svæði sem virkar er lykilatriði.

Minna og betra regluverk: Setja þarf heildarmarkmið um að draga úr reglubyrði og verða við loforði um að draga úr upplýsingagjöf um 25%. Rýna skal gæði alls nýs regluverks og taka tillit til uppsafnaðra og svæðisbundinna áhrifa.

Opin og örugg alþjóðaviðskipti: Skilgreina metnaðarfulla alþjóðaviðskipta- og fjárfestingastefnu sem eykur fjölbreytileika og ljúka viðskiptasamningum við Mercosur og Mexíkó. Ná samkomulagi við Bandaríkin og finna endanlegar lausnir á viðskiptadeilum. Taka upp samtal við Kína.

Vinnumarkaður: Einblína á lausnir sem mæta þörf fyrir vinnuafl og hæfni, auka bæði hreyfanleika vinnuafls og þekkingar á innri markaðnum og veita aðilum vinnumarkaðarins nægt rými til þess að semja um lausnir.

Nýsköpun og stafvæðing: Styðja rannsóknir, nýsköpun og markaðssetningu nýrra vara, þjónustu og aðferða í Evrópu. Innleiða nýjar reglur fyrir stafrænar lausnir sem eru á fyrstu stigum og þróa viðmið sem auðvelda innleiðingu, þar á meðal viðmið fyrir gervigreind (The AI Act).

Fjárfesting: Taka tillit til niðurstöðu óformlegs fundar þjóðarleiðtoga frá 8. nóvember um sparnaðar- og fjárfestingarbandalag. Því er ætlað að einfalda aðgengi að fjármagni og nútímavæða MFF (Multiannual Financial Framework) til að tryggja að útgjöld ESB geti tekist á við aukna fjárfestingaþörf í tengslum við samkeppnishæfni, græn og stafræn umskipti, stuðning við Úkraínu, varnir og viðbrögð við neyðarástandi ásamt stækkun ESB. Án þess að auka kostnað fyrirtækja.

Stækkun: Aðstoða umsóknarlönd við að innleiða regluverk ESB og gera viðeigandi breytingar á ESB til að tryggja að stækkunin leiði til aukinnar samkeppnishæfni, meiri hagvaxtar og betri lífskjara.

Mikilvægi evrópskra fyrirtækja í hagkerfi BNA

Að lokum voru niðurstöður forsetakosninganna í Bandaríkjunum á dagskrá og áhrif þeirra á alþjóðleg samskipti. Formaður Evrópusamtaka atvinnulífsins leggur áherslu á sterkt samstarf yfir Atlantshafið á milli ESB og Bandaríkjanna. Kosningarnar séu tækifæri til þess að leggja áherslu á hversu mikilvægu hlutverki evrópsk fyrirtæki gegna í bandarísku hagkerfi, þar sem evrópsk fjárfesting nemur 2,4 trilljón USD og evrópsk fyrirtæki veita 3,4 milljón Bandaríkjamanna störf.

Auk efnahagslegra tengsla leggja bæði ESB og Bandaríkin áherslu á lýðræði og virðingu við lög ásamt því að deila sameiginlegri sýn á geopólitískar áskoranir.

Samtök atvinnulífsins