19. júní 2024

Samtaka um græna verðmætasköpun

Sigríður Margrét Oddsdóttir

1 MIN

Samtaka um græna verðmætasköpun

Loftslagsmálin hafa verið sett kyrfilega á dagskrá, þau eru og verða eitt af mikilvægustu hagsmunamálum atvinnulífsins á komandi árum.

Ísland nýtur mikillar sérstöðu þegar kemur að grænni verðmætasköpun, ef aðrar þjóðir myndu losa gróðurhúsalofttegundir á hverja framleidda einingu eins og Ísland þá væri heimurinn nú þegar búinn að ná markmiðum um 55% samdrátt í losun – það þýðir þó sannarlega ekki að verkefninu sé lokið á Íslandi.

gróðurhúslofttegundir Ísland loftslags

Við sem búum og störfum á Íslandi getum verið stolt af því að Ísland er grænt verðmætasköpunarland sem jafnframt býður íbúum sínum góð lífskjör. Til þess að halda þeirri stöðu þurfum við að vera samtaka.

Græn orka er sérstaða Íslands

Orka er drifkraftur verðmætasköpunar - ekkert er framleitt án orku.

Ísland sker sig frá öðrum ríkjum þegar kemur að orkunotkun en 85% af frumorkunotkun landsins byggir á endurnýjanlegum orkugjöfum. Án áframhaldandi fjárfestinga í hreinni orku breytist orkunotkun þjóðarinnar og hætt er við því að hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa dragist saman.

Við þurfum að vera samtaka um meiri orkuöflun, betri orkudreifingu, öflugri innviði og einfaldara regluverk. Við þurfum einfaldlega að láta verkin tala.

Mikilvæg græn markmið sem eru óraunhæf til skemmri tíma

Þegar sett eru markmið sem óraunhæft er að ná til skemmri tíma eða byggja á röngum gögnum þá skapast hætta á því að teknar séu rangar ákvarðanir sem draga úr samkeppnishæfni atvinnulífsins og þar með möguleikanum á nauðsynlegum fjárfestingum í grænni umbreytingu.

Staðreyndin er sú að markmið stjórnvalda og alþjóðlegar skuldbindingar eru óraunhæfar til skemmri tíma en það dregur ekki úr mikilvægi þeirra og möguleikanum á að ná þeim til lengri tíma. Tölurnar tala sínu máli.

samfélagslosun ísland

Græn verðmætasköpun verður ekki til með skattlagningu eða þvingunaraðgerðum, hún verður til með markmiðum sem sátt ríkir um og hvatningu til góðra verka. Ef stjórnvöld setja ranga stefnu með röngum markmiðum, þá er hætt við að hagsmunagæslan fyrir græna verðmætasköpunarlandið Ísland á alþjóðlegum vettvangi gleymist. Það er ekki bara hagur Íslendinga að við stillum losunarviðmiðin rétt, það er hagur allra.

Auðlindanýting og græn tækifæri

Líkt og áður sagði eru lífskjör óvíða betri en á Íslandi. Undirstaða velferðar er verðmætasköpun og landsframleiðsla er óvíða grænni en á Íslandi. Verðmætasköpun á Íslandi byggir á því að í gegnum aldirnar hefur okkur tekist að vera samtaka um mikilvægi þess að nýta auðlindir okkar á sjálfbæran hátt.

Við nýtum fiskistofna, við nýtum fallvötn og jarðvarma, við nýtum náttúru, við nýtum land, við nýtum sjó og við nýtum mannvit.

Af því að við nýtum auðlindirnar okkar þá þrífst margs konar atvinnustarfsemi á græna verðmætasköpunarlandinu Íslandi. Eitt það besta við atvinnustarfsemi er að hún dregur til sín krafta fólks sem stundar nýsköpun og á Íslandi hefur fólk fengið bæði svigrúm og stuðning til þess. Fólk fær ekki hugmyndir heldur fá hugmyndir fólk, sagði landskunnur rithöfundur. Hugmyndirnar sem sveima í kringum atvinnurekstur sem hefur metnað til þess að vera grænn hafa sannarlega fundið sér farveg hjá fólki sem er óhrætt við að framkvæma eins og dæmin sýna í nýsköpun í kolefnisbindingu og -losun.

Grænir hagsmunir Íslands á alþjóðavettvangi

Við verðum að hafa hugrekki til þess að segja hlutina eins og þeir eru. Þau markmið sem Ísland hefur skuldbundið sig til þess að ná fyrir árið 2030 eru allt í senn ósanngjörn, óskynsamleg og óraunhæf. Allir þeir sem hafa það hlutverk að berjast fyrir hagsmunum Íslands á alþjóðavettvangi þurfa að hafa kjark til þess að ná fram nauðsynlegum leiðréttingum á þeim.

Að óbreyttu blasir sú furðulega staða við að Ísland þarf að greiða milljarða í grænar sektir og græna skatta verandi eitt grænasta verðmætasköpunarland heimsins. Kostnaðurinn mun draga úr möguleikum atvinnulífsins á að halda ótrauð áfram á grænni vegferð.

Ef stjórnvöld telja rangt að leiðrétta kúrsinn þá er einungis einn annar raunhæfur kostur í boði, sýna skuldbindingu við markmiðin í verki með fjármögnun hraðari umbreytinga. Slík fjármögnun felur jafnframt í sér breytta forgangsröðun ríkisútgjalda.

Hafa þarf í huga að þar sem Ísland er á meðal fremstu þjóða í heimi þegar kemur að losun á hverja framleiðslueiningu liggur fyrir að fjárfesting í hraðari grænni umbreytingu er háð nýjum tæknilausnum sem eru jafnvel ekki enn þá til eða mjög kostnaðarsamar þar sem þær eru á fyrstu stigum líftímakúrvunnar. Nýsköpun í atvinnulífinu og aukinn fýsileiki grænna íslenskra lausna á heimsvísu geta haft mikil áhrif, en til þess að fjárfesta í nýsköpun verða íslensk fyrirtæki að búa við samkeppnishæft rekstrarumhverfi og hafa svigrúm til fjárfestinga.

Atvinnulífið hefur mótað græna stefnu

Eitt umfangsmesta stefnumörkunarverkefnið sem unnið hefur verið á vettvangi Samtaka atvinnulífsins og aðildarsamtaka, Samorku, Samtaka verslunar og þjónustu, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu, Samtaka ferðaþjónustunnar og Samtaka iðnaðarins var gerð loftslagsvegvísa atvinnulífsins. Að því verkefni komu aðildarfyrirtæki allra samtakanna og hundruð einstaklinga. Afraksturinn er græn stefna með ítarlega útfærðum aðgerðum fyrir ellefu atvinnugreinar. Þar er að finna mörg hundruð aðgerðir með tölusettum markmiðum um að ná minnst 83% af þeim markmiðum um samdrátt í losun sem Ísland hefur þegar skuldbundið sig til að ná hvað varðar samfélagslosun. Loftslagsvegvísar atvinnulífsins eru þannig ein metnaðarfyllsta aðgerðaáætlun sem út hefur komið í loftslagsmálum á Íslandi, mælt í tölulegum markmiðum.

Kjarninn í grænni stefnu atvinnulífsins, þvert á allar atvinnugreinar, er aðgengi að grænni orku, innviðauppbygging, einföldun regluverks og grænir hvatar.

Við erum samtaka um græna verðmætasköpun, samfélag hagsældar og tækifæra. Setjum okkur raunhæf markmið og fylgjum þeim eftir.

Greinin birtist fyrst í ViðskiptaMogganum 19. júní 2024

Sigríður Margrét Oddsdóttir

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins