08. janúar 2024
Vinnutími iðn- og tæknifólks samræmdur 1. febrúar 2024
1 MIN
Vinnutími iðn- og tæknifólks samræmdur 1. febrúar 2024
Virkur vinnutími samkvæmt kjarasamningum iðn- og tæknifólks í dagvinnu verður 36 virkar vinnustundir á viku frá og með 1. febrúar 2024.
Samið var um einn samræmdan vinnutíma í kjarasamningum iðn- og tæknifólks í kjarasamningunum 2022. Breytingarnar hafa áhrif á þá sem starfa skv. kjarasamningum SA við Samiðn, RSÍ, VM, MATVÍS, Félag hársnyrtisveina og Grafíu.
Í dag eru í gildi þrjár vinnutímaskilgreiningar skv. kjarasamningum iðnaðarmanna:
- 36 virkar vinnustundir á viku að jafnaði þar sem samið hefur verið um vinnutímastyttingu samhliða niðurfellingu allra kaffitíma.
- 36 virkar vinnustundir og 15 mínútur á viku að jafnaði þar sem neysluhlé eru tekin og starfsfólk hefur kosið um styttingu vinnutíma á grundvelli kjarasamnings.
- 37 virkar vinnustundir á viku að jafnaði þar sem neysluhlé eru tekin og starfsfólk hefur ekki kosið um styttingu vinnutíma.
Frá og með 1. 2. 2024 verður virkur vinnutími í kjarasamningi samræmdur í 36 virkar vinnustundir á viku. Breytingin hefur ekki áhrif á fyrirkomulag neysluhléa sem eru áfram tekin nema samkomulag sé um annað.
Viðvera starfsmanns fyrir fulla dagvinnu skv. kjarasamningi verður því 36 virkar vinnustundir á viku að jafnaði að viðbættum matar- og kaffihléum og öðrum ólaunuðum hléum frá vinnu.
Fyrsta skref atvinnurekanda er að kynna sér hver virkur vinnutími í dagvinnu á viðkomandi vinnustað er í dag, en breytingin hefur ekki áhrif nema vinnutími í dagvinnu sé lengri en 36 virkar vinnustundir í dagvinnu að jafnaði.
Á vinnumarkaðsvef SA má nálgast frekari upplýsingar um vinnutíma iðn- og tæknifólks.