Viðtöl

1 MIN

Tími róttækra hugmynda og samstöðu runninn upp

Ásberg Jónsson

1 MIN

Tími róttækra hugmynda og samstöðu runninn upp

Ásberg Jónsson er framkvæmdastjóri Nordic Visitor og stjórnarformaður Terra Nova og Magma hótel. Hann segir hluta samfélagsins ganga í gegnum efnahagslegar hamfarir um þessar mundir og meðölin þurfi að vera eftir því. Hann segir mikilvægast fyrir ferðaþjónustuna að meðalhófs sé gætt í aðgerðum stjórnvalda við landamærin. Hann vill afturkalla allar skattahækkanir á ferðaþjónustu síðustu fimm ár og út 2023.

Ásberg Jónsson framkvæmdastjóri hefur áralanga reynslu af rekstri í ferðaþjónustu og stofnaði Nordic Visitor í litlu plássi í miðbæ Reykjavíkur uppúr aldamótum. Síðan hefur fyrirtækið vaxið og dafnað. Fjöldi starfsmanna var um hundrað og þrjátíu áður en áhrifa COVID-19 fór að gæta í rekstrinum og félagið hafði teygt anga sína til annarra Norðurlanda og Bretlandseyja. Staðan hjá Nordic Visitor og öðrum félögum sem Ásbergi tengjast var mjög góð og mörg tækifæri í sjónmáli áður en farsóttin setti svip sinn á heimsbyggðina.

„2019 var metár í okkar rekstri og allt útlit fyrir mjög heilbrigðan vöxt í ár. Fall WOW Air hafði ekki teljandi áhrif á okkar fyrirtæki og vaxtartækifærin til lengri tíma voru mikil – sérstaklega með tilliti til fjölgunar áfangastaða,“ segir Ásberg og í byrjun árs fór fyrirtækið í sína fyrstu yfirtöku, á ferðaskrifstofunni Terra Nova. „Sú yfirtaka var hluti af stærri mynd og fól vitaskuld í sér auknar skuldbindingar fyrir okkur. Það var og er mikill metnaður hjá fyrirtækinu að vaxa,“ útskýrir hann og bætir við að engan hefði órað fyrir þeim geigvænlegu, neikvæðu áhrifum sem farsóttin hafði á ferðaþjónustu um allan heim.

„Félagið hefur verið nánast tekjulaust í átta mánuði. Í þau átján ár sem ég hef staðið í rekstrinum höfum við lent í ýmsum áföllum - eldgosum, fjármálahruni og svína- og fuglaflensu. Við höfum því undanfarin ár hagað rekstri þannig að félagið þoli áföll. En það var óneitanlega erfitt að sjá það nokkurn tíma fyrir að félagið gæti orðið svo til tekjulaust í meira en heilt ár eins og útlit er fyrir núna,“ segir hann.

„Það er sorglegt að neyðast til að senda þetta samstarfsfólk okkar út í það atvinnuástand sem nú ríkir.“

Sárast að missa frábært starfsfólk

„Við höfum því neyðst til að fækka starfsfólki mikið. Það sem mér finnst persónulega erfiðast við ástandið er að missa frá okkur frábæra samstarfsfélaga. Starfsfólk sem margt hvert hefur unnið í fjölmörg ár hjá fyrirtækinu og hefur aflað sér gríðarlegrar þekkingar og reynslu. Það er sorglegt að neyðast til að senda þetta samstarfsfólk okkar út það atvinnuástand sem nú ríkir.“

Ásberg lýsir því að ástandið sé mikið áfall fyrir starfsfólk og fyrirtækjaeigendur í ferðaþjónustu. Óvissan sé öllum þungbær. „Ég verð samt að segja að undanfarna mánuði hef ég upplifað ótrúlegt hugrekki, ósérhlífni og samkennd meðal starfsmanna míns fyrirtækis. Með samhentu átaki starfsmanna hefur okkur tekist að bjarga miklum verðmætum við því að sannfæra viðskiptavini um að fresta ferðum í stað þess að afbóka þær alveg. Við höfum í dag tryggt að fyrirtækið komist í gegnum ástandið og því vil ég ekki útiloka að á næstu mánuðum fari tækifæri að koma í ljós og að eitthvað jákvætt komi út úr þessu öllu saman að lokum.“

Hann segist á heildina litið vera ánægður með þær aðgerðir sem stjórnvöld gripu til strax í vor. Honum hefur fundist ráðherra ferðamála standa sig vel. „Það gleymist líka stundum, og sérstaklega þegar ástandið er eins og það er núna, að benda á það sem vel er gert. Ýmsar þær aðgerðir sem gripið var til hafa vissulega nýst fyrirtækjum í ferðaþjónustu vel. Nú þarf að hafa hugfast að verkefninu er alls ekki lokið. Það er að reynast flóknara heldur en útlit var fyrir í sumar. Við sem störfum í greininni áttuðum okkur fljótlega á því að sumarið yrði eins konar svikalogn og að veturinn yrði verulega þungur en það er dálítið eins og stjórnvöld séu ekki að átta sig á þeirri staðreynd fyrr en núna,“ segir Ásberg.

„Það sem bætti svo gráu ofan á svart í þessu öllu og var eins og blaut tuska í andlitið á okkur sem störfum í ferðaþjónustu er að það hafi verið sett á fimm daga sóttkví með svo til engum fyrirvara og án þess að eiga samtal við okkur sem störfum í greininni. Þarna var í raun og veru tekin ákvörðun um að strauja út þúsundir starfa án þess að nokkur alvöru greining lægi þar að baki. Eins og staðan er núna er augljóst að ákvörðun stjórnvalda um herða verulega á aðgerðum á landamærunum og slaka verulega á aðgerðum innanlands hafi verið röng og að sú ákvörðun hefur valið gríðarlegu tjóni."

„Vinnumarkaðurinn er ekki tilbúinn fyrir þá miklu sjálfvirknivæðingu sem verið er að innleiða. Ástand sem þetta þrýstir slíkri þróun í gegn á enn meiri hraða og því er veruleg hætta á að hér sé að verða til varanlegt langtímaatvinnuleysi.“

Höggið er þungt – en það má milda

Aðspurður um til hvaða aðgerða þurfi að grípa til að koma hlutunum sem fyrst af stað á nýjan leik, segir Ásberg að því miður verður hér ekkert eins og var fyrr en bóluefni er komið í almenna dreifingu. „Ólíkt kreppunni 2008 er eingöngu hluti samfélagsins sem finnur fyrir henni. Það er ekki hægt að segja að við séum öll í þessu saman því flestir launamenn hér á landi hafa fengið launahækkun nýlega og afborganir íbúðalána hafa lækkað. Á hinum endanum og þá aðallega hjá starfsmönnum í ferðaþjónustu og skapandi greinum er djúp kreppa og alvarlegt atvinnuleysi.“

Ástandið verði sérstaklega erfitt fyrir þennan hóp út veturinn, að sögn Ásbergs. „En það er vissulega hægt að milda höggið fyrir fyrirtæki sem starfa í þessum greinum og heimilin sem fá tekjur frá þessum fyrirtækjum. Þegar kemur að ferðaþjónustunni er mjög mikilvægt að stjórnvöld í samstarfi við greinina vinni að útfærslu aðgerða á landamærunum þar sem horft er til meðalhófs og ákveðins fyrirsjánleika. Við viljum öll halda veirunni niðri en hún er ekkert að fara og ég tel að við getum tekið á móti ferðamönnum á öruggan hátt,“ segir hann.

Það verði aldrei margir ferðamenn sem koma hingað til lands á næstu mánuðum. „En með réttum aðgerðum gætu þeir þó orðið nægilega margir til að fyrirtæki í greininni hafi efni á því að hafa ljósin kveikt og haldið lykilstarfsfólki í vinnu,“ útskýrir hann. Það verði þó ekki hjá því komist að hér muni skapast áður óþekkt atvinnuleysi. „Það verður ekki leyst nema með samstilltu átaki allra hagsmunaaðila og þá er ég að tala um stjórnvöld, Samtök atvinnulífsins, vinnumarkaðinn og fjármálakerfið. Þessir aðilar þurfa að koma sér saman um sameiginlegt markmið um að milda höggið og minnka atvinnuleysið. Þar fara hagsmunir allra þessara saman,“ segir Ásberg.

„Þá er ekki síður mikilvægt að nýta þennan tíma til þess að endurmennta starfsfólk og fjárfesta í nýsköpun. Í ástandi eins og nú ríkir og með það háa launahlutfall sem við búum við hér á landi munu fjölmörg fyrirtæki skala sig niður í fjölda starfsmanna og munu nýta sjálfvirkni í auknum mæli og á skilvirkari hátt. Vinnumarkaðurinn er ekki tilbúinn fyrir þá miklu sjálfvirknivæðingu sem verið er að innleiða. Ástand sem þetta þrýstir slíkri þróun í gegn á enn meiri hraða og því er veruleg hætta á að hér sé að verða til varanlegt langtímaatvinnuleysi. Það yrði uggvænleg þróun.“

„Það eru að dynja á hluta samfélagsins efnahagslegar hamfarir og meðölin þurfa að vera eftir því.“

Atvinnuleysi ógnar líka heilsu fólks

Ásberg lýsir því að hann hafi saknað þess í allri umræðunni um hættuna sem stafar af COVID-19 að atvinnumissir getur haft mikil áhrif á heilsu fólks. Ákveðinn hluti þeirra sem missa vinnuna komast aldrei aftur inn á vinnumarkað líkt og rannsóknir sýna.

„Við þurfum að gera allt sem við getum til að koma atvinnulausum í virkni, hvort sem er í nám eða vinnu. Þarna gegnir menntakerfið mikilvægu hlutverki. Það sem er þó mikilvægast er að stjórnvöld búi til rétta hvata til þessa að fyrirtæki fjölgi starfsmönnum að nýju. Þegar kemur að ferðaþjónustunni þá eru flest þessara fyrirtækja með nóg af verkefnum í þróun, markaðssetningu og undirbúningi en engar tekjur til að hrinda þeim í framkvæmd. Það þjónar því tilgangi allra að á meðan áhrifa farsóttarinnar gætir að ríkið beini atvinnuleysisbótum til fyrirtækja og nýti þessa fjármuni frekar til að niðurgreiða störf og koma fólki í vinnu. Það er ekki sjálfbært að tekjulaus fyrirtæki skuldsetji sig í gegnum kreppuna heldur þurfa stjórnvöld að koma með beina styrki inn í fyrirtæki eins hefur verið gert í löndum í kringum okkur,“ segir hann.

„Það er einnig ljóst að ferðaþjónustan verður löskuð og skuldum vafin eftir þetta ástand og til þess að fyrirtækin geti aftur blómstrað, skapað hér verðmæt störf og auknar tekjur fyrir ríkissjóð til lengri tíma, þá þarf að afturkalla allar skattahækkanir á ferðaþjónustu síðustu fimm ár út árið 2023. Einhverjum gæti fundist sú hugmynd róttæk, að styrkja fyrirtækin beint og lækka skatta og vísað þar í grunnkenningar hagfræðinnar um tekjur og gjöld ríkisins en hagfræði 101 á ekki við í dag. Það dynja á hluta samfélagsins efnahagslegar hamfarir og meðölin þurfa að vera eftir því.“

Ásberg endar samtalið á því að segja að þó að dimmt sé yfir efnahagsmálum í dag þá sé mikilvægt að muna að það birti alltaf til að lokum. „Við erum í raun í einstakri stöðu til þess að milda höggið fyrir fyrirtæki og heimili landsins og ná hjólum atvinnulífsins hratt aftur af stað. Það er mikil uppsöfnuð ferðaþörf erlendis og þegar aftur verður orðið öruggt að ferðast þá er ég sannfærður um að Ísland sem áfangastaður muni rísa hratt aftur upp úr öskunni."

Ásberg Jónsson

Framkvæmdastjóri Nordic Visitor