12. mars 2205

Tollar Evrópusambandsins gilda ekki um Ísland

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Tollar Evrópusambandsins gilda ekki um Ísland

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tilkynnti í morgun um viðbrögð við hækkun Bandaríkjanna á tollum á öllu innfluttu áli og stáli. Um er að ræða gagnkvæmnistolla (e. countermeasures), sem í eðli sínu eru hefndartollar og eru beint svar ESB við tollahækkun Bandaríkjanna. Tollarnir eiga að taka gildi 1. apríl og þeir gilda ekki um Ísland.

Viðbrögð ESB eru tvíþætt. Annars vegar eru áður boðaðar aðgerðir endurnýttar, þ.e. tollar eru settir á vörur frá Bandaríkjunum, svo sem mótorhjól, gallabuxur og áfengi. Hins vegar eru mögulegir frekari tollar, sem tilkynntir verða síðar, sem gætu náð til fleiri vöruflokka, þar á meðal landbúnaðarvörur og heimilistæki.

Aðgerðirnar beinast enn sem komið er eingöngu að Bandaríkjunum, en áframhaldandi tollahækkanir þar gætu leitt til þrýstings innan Evrópu um að hækka tolla á innflutning frá öðrum ríkjum. Evrópusambandið hefur áður gripið til verndartolla (e. safeguard measure) í kjölfar tollahækkana Bandaríkjanna. Þær aðgerðir eru notaðar til að vernda innlendan iðnað og framleiðslu tímabundið. Slíkar aðgerðir fylgja strangari reglum og mega ekki mismuna ríkjum. Síðast þegar þessum ráðstöfunum var beitt voru EFTA-ríkin innan EES undanþegin þeim. Ísland, bæði ein og í samstarfi við EFTA hafa átt í samskiptum við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins til að koma mikilvægi þess á framfæri að löndin verði áfram undanskilin mögulegum aðgerðum Evrópusambandsins gegn tollastefnu Bandaríkjanna.

SA hafa lagt áherslu á það undanfarið að styðja við íslensk stjórnvöld í hagsmunagæslu fyrir íslenskt atvinnulíf gagnvart Evrópusambandinu. Í þeirri viðleitni hafa samtökin að undanförnu átt í góðu samstarfi og samtali við stjórnvöld.

Þá hefur Heiðrún Björk Gísladóttir, lögmaður, tekið til starfa sem alþjóðafulltrúi á málefnasviði samtakanna. Unnið er með systursamtökum SA á Norðurlöndunum og gengið hefur verið frá samstarfssamningi við Kreab Worldwide sem verða augu, eyru og rödd fyrir samtökin í Brussel.

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA, mun ásamt Kristjáni Andra Stefánssyni, sendiherra Íslands í Brussel, eiga fund í næstu viku með fulltrúum á skrifstofu Maros Sefcovics, sem er framkvæmdastjóri viðskipta- og efnahagsöryggis í framkvæmdastjórn ESB. Þau munu árétta mikilvægi þess fyrir íslenskt atvinnulíf að Ísland verði undanskilið verndaraðgerðum ESB.

Samtök atvinnulífsins