Samkeppnishæfni - 

16. janúar 2020

Styttri opnunartími leikskóla í Reykjavík vanhugsaður

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Styttri opnunartími leikskóla í Reykjavík vanhugsaður

Ákvörðun skóla- og frístundaráðs um að stytta opnunartíma leikskóla borgarinnar hefur skiljanlega vakið hörð viðbrögð. Verði þetta raunin styttist opnunartími um hálfa klukkustund frá og með 1. apríl næstkomandi og verður þá frá kl. 7.30 til 16.30. Skerðing á svigrúmi þeirra sem treysta á leikskólana blasir við.

Ákvörðun skóla- og frístundaráðs um að stytta opnunartíma leikskóla borgarinnar hefur skiljanlega vakið hörð viðbrögð. Verði þetta raunin styttist opnunartími um hálfa klukkustund frá og með 1. apríl næstkomandi og verður þá frá kl. 7.30 til 16.30. Skerðing á svigrúmi þeirra sem treysta á leikskólana blasir við.

Það er fullt tilefni fyrir stjórnendur borgarinnar að leggja við hlustir og bregðast við þegar tillagan verður tekin fyrir í borgarráði. Með henni er dregið úr sveigjanleika foreldra til að ákvarða dvalartíma barna en breytir engu um daglegan dvalartíma barna á leikskólum sem verður sá sami og áður. Þá er betur heima setið en af stað farið og Samtök atvinnulífsins skora á borgarráð og borgarstjórn að tryggja að tillagan komi ekki til framkvæmda.

Tillagan hvílir meðal annars á áhyggjum leikskólakennara og leikskólastjóra af sífellt lengri dvalartíma barna á leikskólum. Þær áhyggjur eru allra góðra gjalda verðar og án efa réttmætar ef til stæði að lengja dvalartíma. Svo er ekki. Dvalartíminn verður óbreyttur. Þær draga hins vegar úr svigrúmi sem foreldrar hafa til að nýta sér þennan dvalartíma innan dagsins sem miðast oft við mismunandi vinnutíma.

Fleira er nefnt í rökstuðningi stýrihóps um breytinguna. Talið er að breytingin hafi í för með sér að meira jafnvægi komist á milli leikskóla og fjölskyldulífs. Óljóst er hvað í þessari kerfisbreytingu er líklegt til að leiða til aukins jafnvægis enda fylgir breytingunni engin ákvörðun um breytta hagi foreldra sem þurfa að leita annarra leiða ef daglegur vinnutími fellur ekki nákvæmlega að opnunartíma leikskólans.

Fyrirhugaðar breytingar auka líkur á óþarfa álagi og streitu þegar fjölskyldur þurfa að vinna með samsetta vistun til að brúa bil. Einnig mun aukast álag á samgöngukerfið sem er þegar komið að þolmörkum á álagstímum. Ætla má að ferðatími foreldra á leið í og úr leikskóla lengist með öllu sem því fylgir.

Auk óhagræðis í samgöngum og auknu álagi á fjölskyldur eru sjónarmið tengd jafnréttismálum. Sýnt hefur verið fram á að barneignir hafi jákvæð áhrif á launa karla en neikvæð áhrif á laun kvenna. Konur taka almennt lengra fæðingarorlof og eru lengur frá vinnu. Rannsóknir sýna að aukið framboð á barnagæslu greiðir leið kvenna á vinnumarkaði. Hjá einstæðum foreldrum flækist málið enn frekar.

Samfélagið er sammála um gæðin sem felast í jafnvægi á milli vinnu og einkalífs. Til þess að það markmið náist þurfa allir að ganga í takt og skapa aðstæður fyrir foreldra til að sinna fjölbreyttum störfum. Það samráð sem viðhaft var í ferlinu virðist fyrst og fremst hafa verið við þá sem starfa innan leikskólakerfisins á meðan eðlilegt væri að hafa samráð við foreldra, atvinnulífið og aðra hagsmunaaðila. Hvatarnir sem hér liggja að baki eru óljósir og ávinningur breytinganna sömuleiðis. Eftir stendur spurningin, hverjum er verið að þjóna?

 

Samtök atvinnulífsins