1 MIN
Prófsteinn á framtíðina
Framundan eru kjaraviðræður á almennum markaði. Á síðustu mánuðum hefur forsætisráðherra boðað aðila vinnumarkaðar til reglulegra samráðsfunda í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu. Það er góð nálgun hjá stjórnvöldum. Kjaraviðræður eru ekki orrusta á milli stríðandi fylkinga. Íslendingar skiptast ekki í lið eftir því hvaða stéttarfélagi þeir tilheyra. Sérhver fjölskylda er samsett úr fólki úr ýmsum stéttum og atvinnugreinum og markmið allra er að bæta lífskjör landsmanna.
Framundan eru kjaraviðræður á almennum markaði. Á síðustu mánuðum hefur forsætisráðherra boðað aðila vinnumarkaðar til reglulegra samráðsfunda í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu. Það er góð nálgun hjá stjórnvöldum. Kjaraviðræður eru ekki orrusta á milli stríðandi fylkinga. Íslendingar skiptast ekki í lið eftir því hvaða stéttarfélagi þeir tilheyra. Sérhver fjölskylda er samsett úr fólki úr ýmsum stéttum og atvinnugreinum og markmið allra er að bæta lífskjör landsmanna.
„Íslendingar skiptast ekki í lið eftir því hvaða stéttarfélagi þeir tilheyra. Sérhver fjölskylda er samsett úr fólki úr ýmsum stéttum og atvinnugreinum og markmið allra er að bæta lífskjör landsmanna.“
Ríkið er samfélag atvinnurekenda og launafólks. Ríkissjóður hefur ekki annað svigrúm en efnahagslífið leyfir hverju sinni. Ekkert verður til úr engu. Engar töfralausnir eru til. Forsenda bættra lífskjara er aukin verðmætasköpun fyrirtækja. Án verðmætasköpunar í atvinnulífinu er ekkert að sækja til ríkisins. Ríkið og atvinnurekendur geta gefið út innstæðulausa tékka tímabundið til að leysa erfiðar kjaradeilur en launafólk og lífeyrisþegar verða á endanum alltaf helstu fórnarlömb slíkrar óábyrgrar stefnu.
Sumarið er tíminn
Það er mikilvægt að nýta sumarið til undirbúnings. Vandaður undirbúningur stéttarfélaga felst ekki í svimandi háum kröfugerðum og söfnun óskalista frá félagsmönnum. Það er auðvelt viðfangsefni. Galdurinn er fólginn í að miðla málum – bæði innan verkalýðshreyfingar, á meðal atvinnurekenda og í samspili þessara aðila gagnvart stjórnvöldum. Það verkefni krefst mikillar hæfni og útsjónarsemi. Á endanum þarf að ná samningum sem halda til langs tíma. Farsælir samningar byggja á málamiðlun og sátt um þau atriði sem mestu máli skipta fyrir flesta. Það er lykilatriði til að vel takist til.
Hagur launafólks og atvinnurekenda fer saman. Verðbólga bitnar á öllum. Hún bjagar verðhlutföll og verðskyn, veldur eignatilfærslu og dregur úr samkeppnishæfni fyrirtækja og þjóðarbúsins alls. Skert samkeppnishæfni dregur úr rými í atvinnulífinu til að greiða laun og allir tapa. Því miður er staða íslensks atvinnulífs lakari nú en í aðdraganda síðustu kjarasamninga. Komandi kjarasamningar verða að taka mið af þeim raunveruleika.
Húsnæðismál
Ástæða þeirrar óánægju sem virðist krauma víða er umhugsunarefni. Böndin berast að húsnæðismarkaði eins og svo oft áður. Þar gildir lögmál skortsins. Framboðsskortur á húsnæðismarkaði verður ekki leystur í samningaviðræðum um kaup og kjör á vinnumarkaði. Atvinnurekendur geta ekki leyst framboðsskort á fasteignamarkaði með launahækkunum.
Undanfarinn áratug hefur verið gerð rík krafa um að efla leigumarkað í gegnum leigufélög. Hugsunin hefur verið að skapa raunhæfan valmöguleika við séreignastefnu – öflugan og dýpri leigumarkað með stærri leigufélögum. Sú hefur orðið raunin en það er ekki hægt að saka þessi sömu leigufélög um stöðuna á fasteignamarkaði. Án þeirra væri staðan enn verri. Lausnin liggur í auknu framboði – það þarf að byggja meira og hagkvæmar. Það er hin raunverulega áskorun.
Ábyrgð samningsaðila er mikil
Hver og einn samningsaðili metur með hvaða hætti hann ber málstað sinn á borð. Atvinnurekendur munu halda áfram þeim málflutningi sem kynntur var í ferð Samtaka atvinnulífsins um landið síðasta haust. Málflutningur SA byggist á staðreyndum og samanburði við aðrar þjóðir. Nálgunin er að læra af þeim sem best haga sínum málum á alþjóðavettvangi. Leiðarstefið er að standa vörð um almannahagsmuni og styðja atvinnulíf og launafólk í framsókn í hægum en öruggum skrefum. Að nýta svigrúm á hverjum tíma til að bæta vinnumarkaðinn, auka kaupmátt launa og bæta lífskjör. Markmiðið er að tryggja áframhaldandi hagsæld og segja skilið við skaðlega aðferðafræði fortíðar. Málflutningur SA byggir á óvéfengjanlegum heimildum og er öllum aðgengilegur, t.d. hér.
Norræn aðferðafræði
Sem norrænt samfélag lítum við til nágranna okkar. Auðvitað er breytileiki á milli Norðurlanda og þau eru ekki sambærileg að öllu leyti. En þar eru bestu fyrirmyndirnar sem reynst hafa vel og skapað fyrirmyndarsamfélög. Leiðarstefið á norrænum vinnumarkaði er það sama, að skipta því sem er til skiptanna hverju sinni og styrkja samkeppnishæfni atvinnulífs til að standa undir launahækkunum framtíðar.
Þrátt fyrir orðræðu undanfarinna mánaða um skipbrot samræmdrar nálgunar á vinnumarkaði er þeirri spurningu ósvarað hvaða önnur nálgun sé betri til framtíðar. Þeirri spurningu þarf að svara. Hagsaga eftirstríðsáranna geymir órækan vitnisburð um skipbrot hinnar hefðbundnu íslensku ósamræmdu nálgunar þar sem hver höndin var uppi á móti annarri og skilaði efnahagslegum óstöðugleika, mikilli verðbólgu og stöðugum gengisfellingum.
Við eigum að draga lærdóm af sögu okkar. Við höfum áratugum saman gert stórkostleg mistök í kjaramálum og okkur ber, sem skynsömu fólki, að læra af þeim mistökum. Stefna stöðugleika sem byggir á samræmdri og hófstilltri kjarastefnu fyrir allt launafólk skilar mun betri lífskjörum fyrir alla en sundrung og launakapphlaup á vinnumarkaði. Það er staðreynd sem óþarft er að deila um.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA.